27.08.2019 11:21Niels Jensen er látinn I Danmörku
Sú sorgarfregn barst frá Hirtshals í Danmörku fyrir nokkrum dögum að Niels Jensen hefði látist hinn 21. ágúst sl. Niels Jensen var íslenskur konsúll í Hirtshals og umboðsmaður íslenskra skipa á síldveiðitímanum í Norðursjónum á árunum 1969-1976. Niels var sannur Íslandsvinur og átti fjölmarga vini og kunningja hér á landi.
Niels Jensen var fæddur í Hirtshals árið 1943, lærður skipamiðlari og stofnaði fyrirtæki í heimabænum árið 1972 ásamt Ove Jørgensen, sem var náinn samstarfsmaður hans. Niels hafði mikil samskipti við Íslendinga á síldveiðitímanum í Norðursjó og lagði sig fram um að læra íslensku með mjög góðum árangri. Margir íslenskir síldarsjómenn frá þessum tíma minnast samskipta við Niels og geta sagt frá því hvernig hann leysti margvísleg mál sem upp komu. „Við verðum að leita til Niels,“ var viðkvæðið þegar upp komu vandamál hjá íslensku síldarsjómönnunum á þessum árum og reglan var sú að Niels leysti hvers manns vanda.
Íslenska og danska fánanum flaggað í hálfa stöng vegna fráfalls Niels Jensen á höfuð-stöðvum útgerðarfélagsins Isafold í Hirtshals. Árið 1973 varð Niels íslenskur konsúll í Hirtshals. Á þeim tíma var Hirtshals helsti síldarbær Íslendinga enda lögðu þá um 60 íslensk skip stund á síldveiðar í Norðursjó og flest þeirra lönduðu í Hirtshals. Með konsúlsembættinu urðu samskipti Niels við Íslendingana enn fjölbreyttari en þau höfðu áður verið. Til dæmis þurfti hann að sjá um utankjörfundaatkvæðagreiðslu í tvennum kosningum árið eftir að hann tók við embættinu, en þá var bæði kosið til alþingis og sveitarstjórna. Annars voru störf íslenska konsúlsins í Hirtshals afar fjölbreytt og kom hann til dæmis að málum ef íslensku sjómennirnir veiktust, þegar upp komu lögreglumál eða þegar útvega þurfti varahluti í skipin. Skrifstofa Niels Jensen & Co við höfnina í Hirtshals var einskonar félagsheimili Íslendinganna sem þar voru enda voru þar bæði danski og íslenski fáninn ávallt við hún. Að loknu uppboði hvers dags söfnuðust skipstjórar síldarbátanna þar saman og ræddu málin og þangað leituðu oft eiginkonur og unnustur síldarsjómannanna, en þær dvöldu oft í Hirtshals og nágrenni yfir síldveiðitímann. Það var margt skrafað á skrifstofunni hjá Niels og þar var einnig unnt að fá að skoða íslensku blöðin.
Niels Jensen kom oft til Íslands og fór þá um landið og heimsótti gamla vini frá síldveiðitímanum í Norðursjónum. Þá voru ávallt fagnaðarfundir og rifjaðar upp gamlar sögur frá Norðursjávarárunum. Niels var hvers manns hugljúfi og afar vinsæll á meðal íslensku sjómannanna enda þekktur fyrir að hafa brugðist vel við öllum erindum þeirra á Norðursjávarárunum.
Árið 1973 stofnaði Niels útgerðarfélag ásamt nokkrum löndum sínum og Árna Gíslasyni skipstjóra. Félagið festi kaup á skipi sem var í smíðum í Noregi og fékk það nafnið Isafold. Isafold var stórt og burðarmikið uppsjávarskip ætlað til nóta- og togveiða, en á þessum tíma veiddu Danir helst síld og aðrar uppsjávartegundir í flotvörpu á litla báta sem gjarnan voru 20-30 tonn að stærð. Isafold hóf veiðar árið 1975 og var Árni Gíslason skipstjóri. Útgerðin gekk vel og að fjórum árum liðnum ákváðu Niels og félagar að stofna annað hlutafélag og láta smíða skip sem var enn glæsilegra en Isafold. Skipið var smíðað í Danmörku, fékk nafnið Geysir og var Árni Gíslason fyrsti skipstjóri á því. Hér verður saga útgerðar Niels Jensen og samstarfsmanna ekki frekar rakin en frá árinu 2006 hafa þeir gert út uppsjávarskipið Isafold sem er bæði stórt og glæsilegt og var smíðað árið 2006. Niels starfaði við útgerðina þar til á síðasta ári en þá eftirlét hann dóttur sinni og tengdasyni að stýra fyrirtækinu.
Uppsjávarskipið Isafold að veiðum í Norðursjónum. Niels saknaði Íslendinganna mikið þegar íslenska síldveiðitímabilinu í Norðursjó lauk árið 1976 og hann saknaði einnig áhrifa þeirra í Hirtshals. Í nýlegu viðtali sagði Niels að Hirtshals hefði misst mikið þegar veiðum Íslendinganna í Norðursjónum lauk enda hefðu þeir átt sinn þátt í því að gera bæinn að mesta síldarbæ Evrópu á sínum tíma.
Það er ljóst að margir Íslendingar eiga ljúfar minningar af samskiptum við Niels Jensen og þegar síldarævintýrið í Norðursjó kemur til umræðu ber nafn hans ávallt á góma. Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar, segir til dæmis að þáttur Niels í síldarævintýri Íslendinga í Norðursjónum verði seint ofmetinn. Minnir hann á að á síldveiðitímabilinu í Norðursjó hafi 500-700 íslenskir sjómenn komið reglulega til Hirtshals á tímabilinu maí til desember ár hvert og það hafi verið mikið verk að sinna öllum erindum þeirra. Konsúlsstörf Niels í Hirtshals voru vel metin og árið 1997 var hann sæmdur hinni íslensku fálkaorðu fyrir störf sín.
Niels Jensen lætur eftir sig þrjú uppkomin börn og eina stjúpdóttur. Eftirlifandi eiginkona hans er Susanne Fibiger sagnfræðingur. heimasiða Svn.is
Skrifað af Þorgeir |
Eldra efni
Um mig Nafn: Þorgeir BaldurssonFarsími: 8620479Tölvupóstfang: thorgeirbald62@gmail.comHeimilisfang: Reynihlið 15 D 604 HörgárbyggðStaðsetning: HörgárbyggðUm: Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist SjávarútvegiTenglar
Flettingar í dag: 1318 Gestir í dag: 13 Flettingar í gær: 4063 Gestir í gær: 33 Samtals flettingar: 1120444 Samtals gestir: 52254 Tölur uppfærðar: 18.1.2025 05:49:23 |
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is