22.12.2019 20:33

Elvar i Ektafisk Hef svo gaman að þessu

             Elvar Reykjalin við Baccalá Bar sem að staðsettur er á Hauganesi 

     Elvar biður gesti velkomna á Baccalá Bar mynd þorgeir Baldursson 

 

Fasteignaverð hefur rokið upp á Hauganesi í vestanverðum Eyjafirði á undanförnum misserum. Þetta má ekki síst þakka blómlegri ferðamannaþjónustu sem rekin er í tengslum við saltfiskverkunina Ektafisk  á staðnum og veitingastaðinn Baccalá Bar.

      Handtökin i vinnslunni eru margvisleg mynd þorgeir Baldursson 

 Saltfiskbitum pakkað i kassa mynd þorgeir 2019

 

Á Hauganesi gefst ferðamönnum kostur á að fylgjast með handtökunum í fiskvinnslunni, gæða sér á fisknum á Baccalá Bar, fara í hvalaskoðun eða heitu pottana í Sandvíkurfjöru. Þeir sem smakka hákarl og snafs geta gengið í Rotten Shark Club. Þarna ræður ríkjum Elvar Reykjalín sem er þriðji ættliður saltfiskverkenda á Hauganesi. Hann framleiðir saltfiskinn samkvæmt þeim ströngu hefðum og aðferðum sem afi hans, Trausti Jóhannesson, kenndi honum.

     Örn Traustasson  mynd þorgeir Baldursson 2019

Fimm ættliðir

Elvar hefur hlotið viðurkenningar fyrir frumkvöðlastarf í matvælavinnslu. Ektafiskur á rætur að rekja í sterkt fjölskyldufyrirtæki sem hafði unnið við saltfiskverkun allt frá árinu 1940.

Trausti Jóhannesson, afi Elvars, hóf útgerð og fiskvinnslu á Hauganesi á fimmta áratug síðustu aldar og var með fyrstu ábúendum á Hauganesi. Sonur hans og faðir Elvars, Jóhannes Reykjalín, tók við keflinu og nú stendur Elvar í skutnum. Hann ásamt bróður sínum og frændum byrjuðu að stunda sjóinn á Sævaldi, bát föður hans, á sjöunda áratugnum. Elvar byrjaði á honum sem fullgildur háseti en hafði byrjað tólf ára sem háseti á trillu á sumrin.

„Eins og í öllum litlum plássum þótti það bara sjálfsagt mál að strákar færu á sjóinn þetta ungir.“

Börn Elvars hafa unnið hjá fyrirtækinu og afabörnin hafa byrjað að vinna hjá honum tólf til þrettán ára gömul. Fyrirtækið er því komið í fimm ættliði.

„Það eru ekki mörg fyrirtæki sem geta státað af fimm kynslóðum. Og það má nefna það að við erum ennþá á sömu kennitölu öll þessi ár en bankinn minn hefur skipt um kennitölu,“ segir Elvar kankvís.

             Saltfiskbitar hjá Ektafisk mynd þorgeir Baldursson 2019

Migas rifið út

Árið 1991 var ákveðið að búa til vöruna Ektafisk og var það í fyrsta sinn sem landsmönnum var boðið upp á beinhreinsaðan útvatnaðan saltfisk í lofttæmdum umbúðum, tilbúnum í pottinn.

Árið 1994 fóru fyrstu pokarnir af þessari vöru á markað á Spáni og í útbreiddu dagblaði í Madrid var því haldið fram að þetta væri sennilega besti saltfiskur sem hægt væri að fá á Spáni.

Árið 1997 varð fyrirtækið brautryðjandi í því að bjóða veitingahúsum staðlaðar saltfisksteikur að hætti Spánverja og eru mörg bestu veitingahús landsins nú orðnir fastir áskrifendur að saltfiskinum frá Ektafiski. Elvar segir að þegar hann var að byrja á sjó með föður sínum árið 1966 hafi verið á milli 20-30 saltfiskverkendur við Eyjafjörð. Nú sé hann einn eftir.

     I eldhúsinu á Baacalá bar er nóg að gera mynd þorgeir Baldursson 

              og þaðan fer enginn svangur mynd þorgeir Baldursson 

        Fjöldi þekktra listamanna hefur heimsótt Elvar og Barinn mynd þorgeir 

            Dásamlegur Eftirréttur mynd þorgeir Baldursson 

             Elvar Reykjalin og Halla Jensen

„Ég hef bara svo óskaplega gaman að þessu. Ég hlakka til að vakna á hverjum degi og fara að flaka. Að flaka er það skemmtilegasta sem ég geri. Það voru fjórtán á launaskrá hjá mér síðasta haust en þá var líka allt ennþá á fullu á Baccalá barnum. Yfir veturinn eru við 5-6 við vinnsluna. Ég hef keypt fisk af bátum og á markaði. Á síðasta ári framleiddum við vel á fjórða hundrað tonn af fullunninni vöru fyrir innanlands- og utanlandsmarkað. Við höfum líka keypt af Samherja á hverju ári roðlausa og beinlausa bita sem koma úr snyrtingunni fyrir hundruði milljóna króna á ári og framleiðum úr því það sem kallast migas á Spáni þar sem þetta er rifið út. Við kaupum þetta ferskt, pæklum það og söltum, látum það standa og seljum í 25 kg kössum.“

Þessi grein var birt i fiskifrettum 19 des 2019

myndir Þorgeir Baldursson 

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 1318
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 4063
Gestir í gær: 33
Samtals flettingar: 1120444
Samtals gestir: 52254
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 05:49:23
www.mbl.is