Við Háskólann á Akureyri hófst kennsla í grunnnáminu sjávarútvegsfræði árið 1990. Aðsókn í námið hefur verið sveiflukennd í gegnum árin, en síðustu ár hafa verið með besta móti og stendur til að bjóða meistaranám á næsta ári í samstarfi við Háskóla Íslands.
„Þetta var mjög stuttu eftir að Háskólinn á Akureyri var stofnaður og var hugsað frá stofnun skólans sem ein af aðalnámslínum skólans,“ svarar Hreiðar Þór Valtýsson, lektor við Háskólann á Akureyri, spurður um upphaf sjávarútvegsfræðikennslu skólans.
Hann viðurkennir að vinsældir námsins hafi ekki verið áreiðanlegar. „Aðsóknin hefur vægast sagt verið sveiflukennd. Við höfum gengið í gegnum miklar sveiflur frá byrjun. Í upphafi var meðalárgangurinn um tíu manns og sveiflaðist mikið. Svo lentum við í krísu fyrir 2008, það voru mjög fáir nemendur hérna. Eftir það hefur okkur gengið mjög vel. Núna erum við með 20 til 30 nemendur í árgangi, þetta eru 80 til 90 nemendur í allt.“
Fyrirtækin vilja starfsmenn með breiða menntun
Hreiðar Þór segir enga staka skýringu að baki því að nemendum hafi fjölgað. Hann segir að upp úr 2000 hafi Háskólinn á Akureyri unnið að því að skapa fjölbreyttara námsframboð og við það hafi þróun í sjávarútvegsfræði orðið eftir. „Ég held að við höfum aðeins gleymt sjávarútvegsfræðinni á tímabili. Svo bættist við að utanaðkomandi skilyrði fyrir árið 2008 voru eiginlega þannig að sjávarútvegurinn var talinn gamli tíminn. Við ætluðum allir að vera góðir í alþjóðlega bankakerfinu.“ Þá hafi efnahagshrunið breytt sýn fólks á greininni og margir áttað sig á að sjávarútvegur væri nokkuð sem Íslendingar væru færir í og við það hafi nemendum farið að fjölga, að sögn lektorsins.
Háskólinn á Akureyri. Ljósmynd/?Háskólinn á Akureyri
„En hluti er líka vegna þess að við tókum okkur til í andlitinu og fórum að bæta námið. Við fengum mjög góðan styrk frá menntamálaráðuneytinu og LÍÚ, þeir styrktu okkur til þess að efla námið og þetta nýttist mjög vel. Árið 2010 vorum við síðan komin með mjög góðan fjölda nemenda,“ bætir Hreiðar Þór við.
Ljóst er að margt í umgjörð sjávarútvegsins hefur breyst frá árinu 1990. Spurður hvort breytingar innan atvinnugreinarinnar hafi haft áhrif á vinsældir námsins svarar lektorinn: „Sjávarútvegsfræðin er mjög breið menntun, þetta eru þrjú ár, þriðjungur er viðskiptafræði, þriðjungur vísindi og þriðjungur eru sérgreinar sjávarútvegs. Gerð var könnun 2010 og vorum við að velta því fyrir okkur hvort það væri þörf á svona víðu námi, hvort fyrirtækin vildu frekar ráða lögfræðinga eða viðskiptafræðinga. Það reyndist ekki vera. Þau vildu fólk sem var með breiða menntun og því til stuðnings eru nú stærstu vinnuveitendur sjávarútvegsfræðinga stærstu sjávarútvegsfyrirtækin, eins og Samherji og Brim. Við lesum úr því að það sé þörf og áhugi fyrir þessu.“
Meistaranám
Lektorinn segir ekki stefnt að mikilli breytingu á náminu enda virðist almennt vera mikil ánægja með það. Hins vegar verður á næsta ári boðið upp á meistaranám sem tengist sjávarútvegsfræðináminu sem hefur verið kennt til þessa. „Það er í samstarfi við Háskóla Íslands. Þeir verða með meistaranám þar sem þeirra nemendur taka einhverja af okkar áföngum og á móti munu okkar nemendur taka einhverja af þeirra áföngum,“ útskýrir Hreiðar Þór og bendir á að Ísland sé lítið land og mikilvægt að háskólastigið finni leiðir til þess að samnýta mannauð og þekkingu frekar en að vera í samkeppni.
|