28.12.2019 00:36Bara ein Heimahöfn
Sigurgeir Pétursson skipstjóri hefur verið búsettur í Nýja-Sjálandi undanfarna þrjá áratugi og verið með skip sem gerð eru út frá Ástralíu og Argentínu til veiða á tannfisk og hokinhala.Sigurgeir Pétursson skipstjóri hefur verið búsettur í Nýja-Sjálandi undanfarna þrjá áratugi og verið með skip sem gerð eru út frá Ástralíu og Argentínu til veiða á tannfisk og hokinhala svo eitthvað sé nefnt. Hann er auk þess ræðismaður Íslands í Nýja-Sjálandi og nýráðinn framkvæmdastjóri Knarr samstæðunnar í landinu. Sigurgeir hefur tengst sjónum órofa böndum alveg frá barnæsku og réri einn til fiskjar á trillu níu ára gamall meðan afi hans fylgdist með honum að veiðum ofan úr Húsavíkurhöfða. Sigurgeir býr í bænum Nelson ásamt eiginkonu sinni Söruh. Þegar rætt var við hann um miðjan maí var að skella á vetur þarna hinum megin á hnettinum.
„Ég og Sarah konan mín förum mikið til Húsavíkur á sumrin og við brosum út í eitt þegar við sjáum menn kætast mjög á Facebook yfir heitasta sumardeginum sem er eins og meðal vetrardagur hérna hjá okkur,“ segir Sigurgeir sem fæddist á Húsavík í desember árið 1965. Þar ólst hann upp í góðu atlæti og mikilli nálægð við sjóinn og miðin. Sjómenn voru bæði í föður- og móðurætt. Föðurættin, Skálabrekkuættin, var alla tíð í útgerð. Þau voru hjónin Olgeir Sigurgeirsson og Ragnheiður Jónasdóttir, afi og amma Sigurgeirs, og þrír föðurbræður hans. Sigurgeir var skírður í höfuð langafa síns og alnafna, Sigurgeirs Péturssonar. Þeir gerðu út bátana Kristbjörgu ÞH og Geira Péturs ÞH. Móðurættin kemur frá Flatey í Skjálfanda og afi hans í móðurætt, Hólmgeir frá Grund á Flatey á Skjálfanda, var einnig útgerðarmaður ásamt móðurbræðrum hans tveimur. Óhætt er að segja að hvað varðar Sigurgeir að snemma beygist krókurinn.
5 ára fyrst á sjóinn „Ég réri mikið sem krakki með afa mínum frá Flatey á trillu og einnig með pabba á bátum hans. Ég man að ég fór fyrst með afa á sjóinn fimm eða sex ára gamall og fór fyrst einn á bátnum níu ára gamall. Það er saga af þessu sem sögð er innan fjölskyldunnar. Afi gamli sat í höfðanum út af Húsavík utan við hafnargarðinn og tók af mér það loforð að ég mætti engum segja frá því að hann hefði leyft mér að fara einum út á bátnum. Ég mátti bara fara út að skerjunum utan við hafnargarðinn og hann fylgdist með mér allan tímann. Þarna mátti ég róa til fiskjar en ég mátti alls ekki segja mömmu frá þessu. En hann treysti mér til þess að fara einn. Þegar ég var búinn að draga kom ég við á hafnargarðinum og sá gamli kom um borð. Við sigldum svo að löndunarbryggjunni og lögðum upp í Fiskiðjusamlaginu einhverja þorsktitti. Ég fékk svo borgað 20. dag næsta mánaðar.“
Sigurgeir hefur verið lengi fjarri heimahögunum en segir ræturnar vera sterkar. Undanfarin fjögur ár hefur hann komið á hverju ári til Húsavíkur. Þar hefur hann komið sér upp litlum bát og eignast húsið í Skálabrekku. Sömuleiðis keypti hann hlut í Grund á Flatey sem er að öðru leyti í eigu annarra afkomenda afa hans Hólmgeirs og ömmu hans Sigríðar Sigurbjörnsdóttur. „Ég fer alltaf út í Flatey þegar ég kem til Íslands og þá finnst mér ég alltaf vera kominn í heimahöfn. Þetta er eiginlega ólýsanleg tilfinning. Ég hef farið á margar hafnir í heiminum en það er alltaf bara ein heimahöfn.“ Til Vopnafjarðar Sigurgeir var 15 ára þegar hann fluttist með foreldrum sínum Pétri Olgeirssyni og Ásu Hólmgeirsdóttur til Vopnafjarðar. Faðir hans hafði alla tíð stundað sjóinn frá Húsavík, en jafnframt hafði hann lagt stund á útgerðartækni við Tækniskólann í Reykjavík. Fjölskyldan fluttist því suður meðan á námi hans stóð en það tók ekki nema eitt ár og hálft ár því Pétur hafði þegar lokið Stýrimannaskólanum og var skipstjóri. Hann réði sig að námi loknu sem útgerðarstjóra hjá Tanga á Vopnafirði og varð framkvæmdastjóri fyrirtækisins þremur árum seinna. Vestmannaeyjar Sigurgeir hóf nám í Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum veturinn 1982 einungis 16 ára gamall og ber hann Vestmannaeyingum söguna vel. „Ég fékk undanþágu til að hefja nám svo ungur að árum hjá þáverandi samgöngumálaráðherra og rökin voru þau að ég væri kominn með það mikinn siglingatíma. Ég var í tvö ár við nám í Eyjum og var umkringdur þar góðu fólki. Ég held að afar mínir fyrir norðan ásamt foreldrum svo og reynslan mín úr Eyjum hafi að miklu leyti gert mig að þeim manni sem ég er í dag. FráEyjum ber fyrstan að nefna skólastjóra Stýrimannaskólans í Eyjum, Friðrik Ásmundsson, sem gerði mig að betri manni með kennslu og góðum ráðum. Ég var 16 ára gamall í Vestmannaeyjum með kærustu og við höfðum eignast son. Á þessum árum voru engir námsstyrkir og blankheitin oft mikil. En ég var svo lánsamur að vera búinn í skólanum kl. þrjú á daginn og fékk þá vinnu hjá Bergvin og Hrafni Oddssonum hjá útgerðarfélaginu Glófaxa að skera úr netum. Ég vann öll kvöld og fór svo út á sjó á Glófaxa um helgar í afleysingar. Eitt haustið fórum við á ufsa og þeir sigldu síðan með hann til Þýskalands. Bergvin hringdi í mig þegar þeir voru á heimleið og sagði mér að koma á pallbíl fyrirtækisins niður á bryggju daginn eftir. Þegar þeir höfðu lagst að bryggju var byrjað að hlaða pallinn af niðursuðuvöru sem dugði mér allan veturinn. Þannig var komið fram við okkur strákana sem vorum við nám í Vestmannaeyjum. Ég hef alltaf borið mjög hlýjar tilfinningar til Bergvins og Hrafns fyrir það sem þeir gerðu fyrir mig.“ Skipstjóri 21 árs Að námi loknu hélt Sigurgeir aftur til Vopnafjarðar og réði sig á Bretting, einn af Japanstogurunum, og síðar sem stýrimann á Eyvind Vopna. 1985 keypti Tangi skipið Gissur frá Þorlákshöfn og nefndi hann Lýting NS. Sigurgeir tekur við honum sem skipstjóri 1987, þá nýorðinn 21 árs, og er á honum fram til 1990. Hann er því ásamt Helga Kristjánssyni, sennilega yngstur allra til að verða togaraskipstjóri á Íslandi. „Svo hitti ég stúlku frá Nýja-Sjálandi sem var að vinna í frystihúsinu á Vopnafirði. Hún dró mig til Nýja-Sjálands og ég ákvað að gefa þessu eitt ár. Og hérna er ég ennþá. Ég bjó með konunni í tíu ár og við eignuðumst tvær stelpur, Freyju og Ellu Sóley.“ Það var ekki auðvelt að flytja frá Vopnafirði til Nýja-Sjálands. Sigurgeir hafði verið skipstjóri í fjögur ár á Íslandsmiðum og hann segir að sjávarútvegurinn hafi verið á töluvert lægra plani í Nýja-Sjálandi. Það var þó öllu verra að yfirvöld í Nýja-Sjálandi viðurkenndu ekki skipstjórnarréttindi frá Íslandi. Ofan í lest í frystitogara „Ég gerði það eina sem hægt var og fór í lægstu stöðuna um borð í verksmiðjuskipi ofan í fabrikkuna. Fyrirtækið studdi mig á allan hátt. Við eyddum hálfu öðru ári í að fá réttindi mín viðurkennd án árangurs. Við svo búið gafst ég upp en fékk vinnu í Ástralíu sem stýrimaður og skipstjóri þar sem skipstjórnarréttindi mín eru viðurkennd.“ Við tók nýr kafli í lífi Sigurgeirs. Hann flaug til Ástralíu og hélt til veiða á búrfiski og síðar tannfiski við Suðurskautslandið og flaug svo aftur heim til Nýja-Sjálands eftir túra. Útgerðin heitir Austral Fisheries og er í Perth á vesturströndinni. Fyrirtækið gerði út skipið Austral Leader sem 86 metra langur togari og fyrsti frystitogarinn í flota Ástrala. Fylltu skipið af tannfiski „Þegar ég lít til baka þá er það sennilega það besta sem hefur gerst í lífi mínum að Ný-Sjálendingar skyldu ekki viðurkenna réttindi mín. Ástralía er það besta sem hefur gerst á minni starfsævi. Ástralir stóðu samt langt að baki Ný-Sjálendingum í sjávarútvegi. En þarna náðum við árangri sem engan hafði látið sig dreyma um í Ástralíu. Við fórum að sækja á mjög fjarlægar slóðir. Við byrjuðum á því að veiða búrfisk á alþjóðahafsvæðum í kringum Ástralíu og Nýja-Sjáland . Við fengum góða túra og slæma. Sest var niður með útgerðinni til þess að finna rekstrargrundvöll fyrir skipinu. Þar fæddist sú hugmynd að sækja niður að Suðurheimskautinu. Þar fundum við tannfisk sem hafði lítið sem ekkert áður verið veiddur í troll. Þetta var árið 1995 og við vorum fyrstir allra í þessum veiðum. Fyrsti túrinn stóð í 63 daga úr höfn í höfn og ég var sem betur fer ekki um borð því eftirtekjan var ekki nema nokkur tonn. Útgerðin vildi að ég færi á sömu mið í næsta túr og þá erum við svo heppnir að finna fisk og fylltum skipið, 630 tonn af tannfiski. Þessi fiskur er álíka verðmætur og túnfiskur. Það var ekkert vitað um það hvort þessi fiskur væri yfirleitt á þessum slóðum. Þetta er 1.500 sjómílna sigling og við vorum í átta daga að stíma þangað og þarna er illviðrasamt. Eftir fjóra daga lentum við í mokfiskiríi og fylltum skipið. Oft erum við að veiða þarna suður frá í 12 til 20 metra ölduhæð en ólíkt því sem oft er á Norður-Atlantshafinu eru brotsjóir óalgengir.“ Sigurgeir var á þessum veiðum í ellefu ár og tók annan hvorn túr. Skipstjóri á móti honum var annar Íslendingur, Hallsteinn Stefánsson, sem hafði búið lengi á Nýja-Sjálandi áður en Sigurgeir fluttist þangað. Hallsteinn er nú fluttur á ný til Íslands. Áhöfnin að öðru leyti voru Ástralir og Ný-Sjálendingar. Mjög góð afkoma var af þessum veiðum. Austral Fisheries gerir enn út á þessar veiðar og segir Sigurgeir þetta sennilega einhverjar arðbærustu veiðar sem stundaðar eru í heiminum. Austral Fisheries er merkileg útgerð fyrir margra hluta sakir. Það var til dæmis fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið í heiminum til þess fá vottun fyrir að hafa kolefnisjafnað allan sinn rekstur. Þetta gerir fyrirtækið með því að rækta upp skóg í Ástralíu sem er mörg þúsund fermílur að flatarmáli og hefur meðal annars dregið að sér nýjar fuglategundir. Framkvæmdastjóri Hampiðjunnar Sigurgeir kveðst hafa einsett sér það fyrir margt löngu að hætta til sjós þegar hann yrði 35 ára gamall. 1999 hætti hann hjá Austral Fisheries, þá 34 ára. Það mætti litlum skilningi hjá mörgum því Sigurgeir var í einu hæst launaðasta skipstjórastarfi sennilega á öllu suðurhveli jarðar. Um þetta leyti hafði Hampiðjan komið sér fyrir á Nýja-Sjálandi. Haraldur Árnason, nú framkvæmdastjóri Knarr Maritime, hafði veitt fyrirtækinu forstöðu í tvö ár eftir stofnun og vildi láta af störfum. Sigurgeir og hann höfðu kynnst og varð úr að Sigurgeir var ráðinn framkvæmdastjóri Hampiðjunnar í Nýja-Sjálandi. Sigurgeir entist þó ekki lengur í landi en fimm ár. Hafið togaði í hann og hann réði sig sem skipstjóra á togarann Tai An sem gerður er út til veiða á hokinhala suður af Hornhöfða syðst í Argentínu. Einnig er veiddur kolmunni og eitthvað af tannfiski. „Þarna hef ég verið síðastliðin tólf ár. Við erum á togveiðum, bæði með flottroll og botntroll og vinnum allt nema tannfiskinn í surimi. Við náum að vinna úr um það bil 300 tonnum á dag sem skilar 60-65 tonnum af frosnum afurðum ofan í lest fyrir utan mjöl. Þetta er eiginlega fljótandi verksmiðja með 95 manna áhöfn. Eftir síðasta túr, sem stóð í sjö vikur, vorum við með tæp 6.000 tonn upp úr sjó.“ (K)narreistir Knarr-menn Í utanríkisráðherratíð Davíðs Oddssonar var Sigurgeir skipaður ræðismaður Íslands í Nýja-Sjálandi árið 2005. Á þeim tæpu þremur áratugum sem hann hefur búið í landinu hefur hann kynnst mörgum og er öllum hnútum kunnugur í sjávarútvegi. Síðla veturs héldu nokkrir fulltrúar Knarr til Nýja-Sjálands, og þar á meðal fyrrnefndur Haraldur Árnason, sem var að koma þangað eftir langa fjarveru. Erindið var að kynna það sem Knarr hefur upp á að bjóða og að stofna fyrirtæki í landinu. Aftur liggja því leiðir Haraldar og Sigurgeirs saman því í ferðinni var gengið frá ráðningu hans sem framkvæmdastjóra Knarr NZ. „Ég er samt ekki hættur til sjós. En í frítúrunum vinn ég að málefnum Knarr NZ og að koma fyrirtækinu á laggirnar hérna. Við Knarr-menn erum (k)narreistir og teljum talsverða möguleika vera á Nýja-Sjálandi. En þetta er langhlaup og ekkert sem gerist fyrir hádegi. Hugmyndin að baki Knarr er frábær. Forsvarsmönnum sjávarútvegsfyrirtækjanna hérna finnst mikið til um að fyrirtæki frá Íslandi sé komið hingað til þess að selja vöru í einni grúbbu. Það er enginn annar að gera þetta.“ Greinin birtist upphaflega í Tímariti Fiskifrétta 2019. Skrifað af Þorgeir |
Eldra efni
Um mig Nafn: Þorgeir BaldurssonFarsími: 8620479Tölvupóstfang: thorgeirbald62@gmail.comHeimilisfang: Reynihlið 15 D 604 HörgárbyggðStaðsetning: HörgárbyggðUm: Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist SjávarútvegiTenglar
Flettingar í dag: 1318 Gestir í dag: 13 Flettingar í gær: 4063 Gestir í gær: 33 Samtals flettingar: 1120444 Samtals gestir: 52254 Tölur uppfærðar: 18.1.2025 05:49:23 |
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is