30.12.2019 08:17

Sterk verkefnastaða Slippsins

       ólafur Ormsson Verkefnastjóri Slippsins Akureyri mynd þorgeir 2019

Umsvif Slippsins á Akureyri hafa vaxið mikið undanfarin misseri. Starfsmönnum hefur fjölgað í öllum deildum fyrirtækisins og þá sér í lagi tækni- og hönnunardeildinni. Í dag eru starfsmenn Slippsins um 180.

Það er í mörg horn að líta hjá Slippnum Akureyri. Nýlega setti Slippurinn upp nýjan vinnslubúnað í Kaldbak EA, nýsmíði ísfiskstogara Samherja, og nú er einnig ný lokin uppsetning vinnslubúnaðar í Vestmannaey VE, fyrst af sjö nýsmíðum VARD skipasmíðastöðvarinnar fyrir íslenskar útgerðir. Ennfremur landaði fyrirtækið stóru verkefni fyrir norsku útgerðina Nergård Havfiske sem felst í hönnun, framleiðslu og uppsetningu á vinnsludekki í nýjum frystitogara fyrirtækisins í Noregi.

Í fyrra lauk Slippurinn við smíði og uppsetningu á vinnslubúnað í Björgu EA og hefur sá búnaður reynst vel.  Frá þeim tíma hefur Slippurinn haldið þróuninni áfram með Samherja og gert enn betur. Afraksturinn af þeirri vinnu lauk með uppsetningu á vinnslubúnaði í Kaldbak EA sem fór í sinn fyrsta prufutúr um miðjan september. Meðal búnaðar sem settur var upp í Kaldbak eru tveir blóðgunarsniglar og þrír kælisniglar. Um borð er einnig flokkari frá Marel sem vigtar og flokkar eftir stærð og tegund. Búnaðurinn býður upp á vigtun fisks í réttar skammtastærðir. Þaðan fer fiskurinn í blóðgunarsnigla og því næst kælisnigla, karað er uppi á vinnsludekki áður en fiskurinn fer í lyftukerfi niður í lest.

Meiri stýring á blóðgun og kælingu

„Skömmtunarkerfið í Kaldbak reyndist okkur áskorun og þá sérstaklega forritun stýringa og stjórnun búnaðar.  Við erum sátt við afraksturinn, búnaðurinn virkar vel og er áreiðanlegur.  Með þessari hönnun næst meiri stýring í vinnsluferlinu. Það er hægt að stýra nákvæmlega blóðgunar- og kælitíma hvers fisks. Í sniglunum, bæði blóðgunarsniglum og kælisniglum, vita menn nákvæmlega hvenær fiskurinn fer ofan í  og hvenær hann kemur úr þeim.  Með nákvæmri stjórnun er hver einasti fiskur meðhöndlaður með sama hætti,“ segir Ólafur Ormsson, verkefnastjóri hjá Slippnum.

Ólafur segir þetta allt snúast um það að ná fram enn meiri gæðum en þó ekki með þeim hætti að það minnki afköst búnaðarins.

Ólafur segir að smíði og uppsetning á vinnslubúnaði í einu skipi af þessari stærð sé krefjandi verk og er Slippurinn mjög vel í stakk búinn að takast á við það. Slippurinn hefur hafið smíði á samskonar búnaði fyrir Björgúlf EA og mun hefja uppsetningu þar á næsta ári.

„Ég tel okkur vera búin að hanna mjög gott vinnsludekk í Kaldbak þar sem þetta tvennt fer saman. Ég hef ekki trú á því að miklar breytingar verði frá fyrirkomulaginu í Kaldbaki yfir í Björgúlf. Kaldbakur er nú búinn að fara í sína fyrstu veiðiferðir og þótt alltaf megi búast við einhverjum hnökrum í tengslum við nýjan búnað þá hafa þeir reynst afar fáir og lofar kerfið í heild góðu. Við höfum einungis verið að vinna að betrumbótum samhliða löndun úr skipinu, sem gefur til kynna að litlu þarf að breyta," segir Ólafur.

Samtímis setur Slippurinn vinnslubúnað í þrjú af skipunum sjö frá norsku skipasmíðastöðinni VARD, 29 metra löngum ísfiskstogurum sem smíðaðir eru fyrir Berg-Huginn og Útgerðarfélag Akureyringa. Þetta eru skipin Vestmannaey VE, Bergey VE og Harðbakur EA.  Vestmannaey kom til landsins í lok ágúst, uppsetningu vinnslubúnaðar er nú lokið og skipið er núna í sinni fyrstu veiðiferð.  Bergey kom í byrjun október og Harðbakur kemur síðastur.

„Núna er hafin vinna við Bergey og svo loks í Harðbak. Þetta eru verkefni sem verða í einni samfellu hjá okkur fram að áramótum. Vestmannaey og Bergey verða með sama fyrirkomulag en það verður með öðrum hætti í Harðbak. Skipin stunda mismunandi veiðiskap þar sem Harðbakurinn sækir miðin hér fyrir norðan en Vestmannaey og Bergey verða við veiðar í námunda við Vestmannaeyjar," segir Ólafur.

 

Stærsti samningur í sögu Slippsins

Meðan öllu þessu vindur fram er Slippurinn Akureyri með mannskap í Brattvåg í Noregi við uppsetningu á vinnsludekki eftir eigin hönnun og framleiðslu í nýjan frystitogara norsku útgerðarinnar Nergård Havfiske. Samningurinn er sá stærsti í sögu Slippsins. Skipið, sem smíðað er hjá skipasmíðastöð VARD í Brattvåg er 80 metrar að lengd og 17 metrar að breidd og mun vinnsludekkið vera með vinnslulínu fyrir bæði bolfisk og rækju. Áætlað er að það verði tilbúið til veiða í febrúar á næsta ári. Samningurinn hljóðar upp á 700-800 milljónir króna. Verkinu mun ljúka um áramótin.

„Í þessu skipi útvegum við allan búnað að frystum undanskyldum, þ.e.a.s. búnað á vinnsludekki, stjórnkerfi , lyftubúnað og búnað í lestum. Okkar búnaður er framleiddur hér á Akureyri og annan búnað kaupum við af öðrum alþjóðlegum framleiðendum. Í þessu verki vinnum við meðal annars með Marel, Baader og öðrum norrænum fyrirtækjum.  Við bjóðum upp á heildarlausn þannig að við setjum inn í okkar hönnun þann búnað sem hentar best því fyrirkomulagi sem við erum að vinna með hverju sinni. Ánægja hefur verið hjá okkar viðskiptavinum með þetta fyrirkomulag,“ segir Ólafur.

Umsvif Slippsins á Akureyri hafa vaxið mikið undanfarin misseri. Starfsmönnum hefur fjölgað í öllum deildum fyrirtækisins og þá sér í lagi tækni- og hönnunardeildinni. Í dag eru starfsmenn Slippsins um 180.  Fyrirtækið hefur þurft að ráða til sín erlent vinnuafl þegar álagið hefur verið hvað mest. Ólafur segir að með slíkum lausnum sé fyrirtækið hæfara til að mæta sveiflum í verkefnastöðu en leggi þó áherslu sem fyrr á að viðhalda þeirri gríðarlegu þekkingu og reynslu sem fastir starfsmenn fyrirtækisins búi yfir.

Greinin birtist upphaflega í Timariti Fiskifrétta 2019.

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 2696
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 4063
Gestir í gær: 33
Samtals flettingar: 1121822
Samtals gestir: 52256
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 06:10:23
www.mbl.is