12.01.2020 23:18Hákon EAog Bjarni Ólafsson til loðnuleitarSamkomulag um samvinnu við loðnuleitþessi skip taka þátt i loðnuleit 2020 Börkur NK á loðnuveiðum. Mynd/Þorgeir Baldursson
Tvö uppsjávarskip taka þátt í leitinni á móti rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni. Kostnaðurinn er 60 milljónir króna sem skiptast jafnt á milli útgerðanna og Hafró.Eftir fund Hafrannsóknastofnunar og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) í gær liggur fyrir að útgerðin mun styðja við loðnuleitina sem á að hefjast á mánudag. Um 60 milljóna kostnað fyrir útgerðina er að ræða en Hafrannsóknastofnun mun greiða þá upphæð til helminga á móti fyrirtækjunum. Tvö uppsjávarskip taka þátt í leitinni á móti rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni. Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins. Eins og greint hefur verið frá fjallaði SFS um komandi loðnuleit í fréttabréfi sínu í byrjun vikunnar. Þá var ekki útlit fyrir að af samstarfi útgerðar og vísindamanna yrði. „Andvaraleysi stjórnvalda verður að teljast heldur nöturlegt; fyrir fyrirtæki sem fjárfest hafa í skipum, búnaði og markaðssetningu fyrir milljarða króna, fyrir sjómenn og fjölskyldur þeirra, fyrir sveitarfélög og fyrir samfélagið allt,“ sagði í umfjöllun SFS. Í frétt Rúv um málið er Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, inntur eftir því hvernig hlutur stofnunarinnar væri fjármagnaður svarar hann því til að hann treysti því að stjórnvöld komi til móts við stofnunina með auknu fjármagni. Það sé enn ekki fyrir hendi en þeir njóti stuðnings stjórnvalda. Fáist það hins vegar ekki þurfi að „endurhugsa hlutina. Það segi sig sjálft að peningarnir þurfi að koma einhvers staðar frá og þá gæti jafnvel komið til þess að stytta loðnuleit í haust á móti.“ Eftir að efasemdir SFS komu upp í byrjun vikunnar sagði Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra í viðtali við Rúv að útgerðin beri ábyrgð og skyldur, leitin sé sameiginlegt verkefni. Í fyrra hafi auknu fjármagni verið varið til loðnurannsókna og þeir fjármunir haldi sér í ár. Hann hefur enga trú á öðru en að lagt verði í sameiginlegan leiðangur. „Við munum leggja allan þann kraft sem að okkur er fær til þess og ég hef enga trú á öðru en að við náum samstarfi við útgerðina um slíkt verkefni, að því vinnur Hafrannsóknastofnun og ég treysti henni fyllilega til þess,“ sagði Kristján Þór við Rúv. Samkvæmt þessum orðum ráðherra þá virðist ljóst að hann telji aukið fjármagn til loðnuleitarinnar þegar í höndum Hafrannsóknastofnunar. Í því sambandi má nefna að aðeins fáar vikur eru liðnar síðan uppagnir voru tilkynntar hjá Hafrannsóknastofnun. Eftir þær hverfa 14 starfsmenn frá stofnuninni; margir þeirra með mikla starfsreynslu. Ástæða uppsagnanna er aðhaldskrafa stjórnvalda. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur segir að hafrannsóknir gegni lykilhlutverki fyrir sjálfbæra auðlindanýtingu og þær þurfi að efla. Á ársfundi Hafrannsóknastofnunar í haust sagði Kristján Þór að þessari stefnumörkun í samstarfssáttmála stjórnarflokkanna hafi verið fylgt eftir af fullum þunga. Auk aukins framlags á fjárlögum, nýrrar byggingar sem nú rís í Hafnarfirði og væntanlegrar smíði nýs hafrannsóknaskips boðaði ráðherrann samstarf um að efla rannsóknir á vistkerfisbreytingum í hafinu. Í fréttabréfi SFS var þó að sjá annan skilning á áherslum stjórnvalda á hafrannsóknum. Mælingar á grundvelli aflareglu loðnu séu erfiðar í framkvæmd og krefjast mikils skipatíma, enda veður hér við land válynd og loðnan dyntótt. [...] Miðað við þær kröfur sem gildandi aflaregla gerir til loðnuleitar, þá dugir það skip, eitt og sér, ekki til þess að ná heildstæðri mælingu þannig að líkur séu á því að loðnukvóti verði gefinn út. Nauðsynlegt er að hafa fleiri skip við mælingu á loðnu, helst þrjú til fjögur.„Því miður virðist þetta samhengi stjórnvöldum hulið, þrátt fyrir að verðmæti loðnunnar hlaupi á tugum milljarða króna á ári. Í augum stjórnvalda eru hafrannsóknir kostnaður, en ekki grunnforsenda verðmætasköpunar. Þessi misskilningur gæti reynst dýrkeyptur,“ sagði í niðurlagi umfjöllunarinnar. 130 milljónir Framlag útgerðarfyrirtækja til loðnurannsókna fyrir og eftir áramótin 2018/2019 var 130 milljónir króna, samkvæmt upplýsingum frá SFS. Kunnara er en frá þurfi að segja að ekki fannst loðna í veiðanlegu magni og því loðnubrestur staðreynd. Hafrannsóknastofnun, í samstarfi við útgerðir, lauk formlega loðnuleit sinni rétt undir mánaðarmótin febrúar-mars. Enn var þó leitað á vegum útgerðarfyrirtækjanna fyrstu daga marsmánaðar án árangurs. Þá höfðu skip Hafrannsóknastofnunar verið um 40 daga við leit en skip nokkurra útgerða samfleytt í tvo og hálfan mánuð í dögum talið – eða í 75 daga. Árangursríkt samstarf Samstarf Hafrannsóknastofnunar og útgerðanna í landinu er ekki nýtt af nálinni. Vertíðin árið 2017 er í fersku minni þegar útgerðirnar lögðu fram rúmlega 40 milljónir króna til leitar sem aftur skilaði kvóta að verðmæti 17 milljarðar króna, skrifaði Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, í grein í Fréttablaðinu þann vetur. Loðnubresturinn er þungt högg fyrir mörg sveitarfélög, fjölskyldur sjómanna og fiskvinnslufólks og þjóðfélagið allt. Útflutningsverðmæti loðnu nam 17,8 milljörðum króna árið 2018.
Skrifað af Þorgeir |
Eldra efni
Um mig Nafn: Þorgeir BaldurssonFarsími: 8620479Tölvupóstfang: thorgeirbald62@gmail.comHeimilisfang: Reynihlið 15 D 604 HörgárbyggðStaðsetning: HörgárbyggðUm: Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist SjávarútvegiTenglar
Flettingar í dag: 4356 Gestir í dag: 17 Flettingar í gær: 4063 Gestir í gær: 33 Samtals flettingar: 1123482 Samtals gestir: 52258 Tölur uppfærðar: 18.1.2025 08:42:18 |
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is