|
Dagur EK 2001 mynd þorgeir Baldursson 19 mars 2020 |
Dögun á Sauðárkróki hyggur á breytingar.
Dögun á Sauðárkróki hyggst ekki gera út skip til rækjuveiða á Íslandi á þessu ári og hefur sett Dag SK 17 á sölu. Áhöfninni, fimm manns, verður sagt upp en hluta hennar býðst mögulega að halda sínum plássum hjá nýjum eiganda gangi samningar um söluna eftir. Dögun hyggst auka framleiðslu á iðnaðarrækju í verksmiðjunni á Sauðárkróki og stefnt er að vinnslu á 10.000 tonnum á þessu ári.
Dögun hefur starfað óslitið frá árinu 1983 og hefur sérhæft sig í veiðum og vinnslu á rækju. Rækjuverksmiðjan tók til starfa snemma árs 1984 og var þá að mestu unnin innfjarðarrækja úr Skagafirðinum. Verksmiðja félagsins hefur verið endurbætt og stækkuð reglulega og er nú ein fullkomnasta rækjuverksmiðja á Íslandi. Óskar Garðarsson, framkvæmdastjóri Dögunar, segir ástæður þess að ekki verði gert út á rækjuveiðar þær að veiðarnar standi ekki undir sér. Þar er ekki um lágt verð að sakast heldur ónóga veiði og kostnaðarsamt úthald.
Of hár kostnaður
„Rekstrarskilyrði fyrir rækjuútgerð hafa verið erfið í nokkuð mörg ár eða 10-15 ár. Aðallega snýst það um litla veiði sem er undir því sem þarf til að útgerð borgi sig. Kostnaðurinn sem hlutfall af tekjum er of hár þegar aflinn er ekki meiri en raun ber vitni,“ segir Óskar.
Borist hefur tilboð í Dag SK frá Eistlandi þar sem það yrði gert út á rækju undir eistnesku flaggi. Samningurinn er þó ekki frágenginn. Dagur var keyptur 2016 frá Írlandi en skipið var smíðað á Spáni árið 1997.
Opnað á Flæmska hattinum
Langstærstur hluti hráefnisins sem unninn er í verksmiðju Dögunar kemur annars staðar frá, þ.e.a.s. Barentshafi, Kanada og á þessu ári verður opnað fyrir rækjuveiðar að nýju á Flæmska hattinum. Stefnt er að vinnslu á um 10.000 tonnum á þessu ári í rækjuverksmiðju Dögunar. Undanfarin ár hafa verið framleiddar afurðir úr 6.000 til 7.500 tonnum af hráefni. Síðustu ár hefur hlutfall innlendrar rækju verið innan við 10% af hráefnisöflun Dögunar.
Verksmiðjan var mikið endurnýjuð á síðasta ári. Bætt var við tækjabúnaði, annað endurnýjað og sjálfvirkni aukin. Rúmlega 25 manns vinna við rækjuvinnsluna og sú tala mun lítið breytast þrátt fyrir aukna framleiðslu framundan með aukinni sjálfvirkni.
Margar útgerðir hafa hætt rækjuveiðum á síðustu árum. Nú er til að mynda ekkert skip á rækjuveiðum en búasta má við einhver haldi til veiða í vor. Það eru þá nánast eingöngu skip sem eru í blönduðum veiðum, það er að segja rækju og bolfiski. Dögun hefur ekki haft svigrúm til þess vegna kvótastöðu sinnar í öðrum tegundum. Það eru ekki nema einn eða tveir sem eru eingöngu í rækju á sumrin.
|