28.03.2020 11:18Blóðbað i Barentshafi
Sólberg ÓF komið með 1.000 tonn upp úr sjó
Blóðbað í Barentshafinu
GUÐJÓN GUÐMUNDSSON gugu@fiskifrettir.is „Við komum hingað út 9. mars um hádegisbil. Það var alltaf í spilunum að fara hingað en þetta var í seinna fallinu núna. Við höfum yfirleitt lagt af stað um mánaðamótin janúar-febrúar en samningar gengu eitthvað hægt við Norðmenn að þessu sinni,” segir Sigþór. Útstímið tók ekki nema þrjá sólarhringa enda hrepptu þeir gott veður alla leið. Sama áhöfn er að uppistöðu á Sólbergi og var áður á Mánaberginu. Eftir að hið fyrrnefnda var tekið í drift hefur verið farinn einn túr á ári í Barentshafið en þeir voru tveir á Mánaberginu. Sólbergið er einn fullkomnasti frystitogari landsins með heilmikilli vinnslu um borð. Áhöfnin telur enda 34 menn og fiskurinn er unninn í flök og hnakkastykki og aðra bita. Ekki hafa verið framleiddir hnakkar í túrnum í Barentshafi en heilmikil framleiðsla hefur verið á heimamiðum. Afurðirnar eru frystar og fara vonandi á bestu verðum enda gæðavara. Fullur af loðnu „Aflabrögð hafa að stærstum hluta verið góð. Þetta byrjaði reyndar ekkert sérstaklega. Það hafði verið góð veiði áður en við komum á miðin í janúar og febrúar. Svo kom bakslag í veiðarnar en þær hafa verið með miklum ágætum núna undanfarna tíu daga. Það má lýsa þessu sem blóðbaði síðustu daga. Þetta er vænn fiskur og meðalvigtin síðustu daga er að minnsta kosti 4 kíló og ágætis gota í honum. Hann er fullur af loðnu og hérna er ekki hægt að kvarta undan loðnuleysi þótt engar loðnuveiðar fari fram. Norðmenn láta þorskinn um loðnuna enda er hann vel haldinn. Það er hellings æti í sjónum.“
Á miðunum er heill floti af rússneskum skipum og ekki önnur íslensk skip nema Sólbergið og Örfirisey RE. Sigþór er í spjallfæri við íslenska skipstjóra á erlendum skipum sem þarna eru, þ.e. Kirkella og Santa Princesa sem tengjast Samherja. Veiðar ganga vel hjá flestum.
Kvótinn minni en möguleikarnir „Við gætum tekið um 800 tonn til viðbótar upp úr sjó en við eigum ekki eftir kvóta nema upp á 350-370 tonn til viðbótar. Núna hefur reyndar verið bræla í eina fjóra daga. Við bíðum eftir að það hægist um. En sjólagið er mildara hérna þó við höfum alveg lent í því í gegnum árin að fá á okkur mikinn sjó. Hérna er lofthitinn sitt hvorum megin við núllið og sjávarhitinn er rúmar 5 gráður og botnhitinn nálægt 6 gráðum.“
Lítið er af ýsu á miðunum. Meðafli með þorskinum má ekki fara yfir 30%. Þorskur í þessum túr er á milli 80-90% af afla.
„Nú á eftir að koma í ljós hvað fæst fyrir afurðirnar því það eru vissulega blikur á lofti. Ég býst samt við því að frosinn fiskur komi betur út úr þessari stöðu en margt annað.“
Skrifað af Þorgeir |
Eldra efni
Um mig Nafn: Þorgeir BaldurssonFarsími: 8620479Tölvupóstfang: thorgeirbald62@gmail.comHeimilisfang: Reynihlið 15 D 604 HörgárbyggðStaðsetning: HörgárbyggðUm: Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist SjávarútvegiTenglar
Flettingar í dag: 1527 Gestir í dag: 51 Flettingar í gær: 1455 Gestir í gær: 74 Samtals flettingar: 992948 Samtals gestir: 48558 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:48:29 |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is