Áhöfnin á TF-EIR, þyrlu Landhelgisgæslunnar, sótti slasaðan sjómann um borð í togara sem staddur var um 20 sjómílur suður af Krísuvíkurbergi í dag.
TF-EIR var komin að togaranum um hádegisbil og hífingar gengu vel, að því er segir í tilkynningu Landhelgisgæslunnar.
Sigmanni var slakað niður í togarann og var skipverjinn hífður um borð í þyrluna skömmu síðar. Að hífingum loknum var flogið á Reykjavíkurflugvöll þar sem sjúkrabíll beið hins slasaða.
Þrátt fyrir að ekki sé grunur um COVID-19-smit fara áhafnir Landhelgisgæslunnar að öllu með gát og verja sig fyrir smiti með andlitsmöskum og hönskum eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.
Kolbeinn Guðmundsson, sigmaður hjá Landhelgisgæslunni, var við öllu búinn. Ljósmynd/?Landhelgisgæslan
Tf Eir Mynd Landhelgisgæslan