Goðafoss á siglingu við Reykjanes 19 Feb 2020 mynd þorgeir Baldursson
Systurskipin Goðafoss og Laxfoss, sem áður hét Dettifoss, hafa verið tekin úr rekstri hjá Eimskipafélagi Íslands.
Þetta eru tímamót í siglingasögunni því þessi stærstu skip íslenska kaupskipaflotans hafa verið í Íslandssiglingum í 20 ár og flutt varning heiman og heim.
Ekki eru tiltækar upplýsingar um tonnafjölda þess varnings sem skipin hafa flutt á þessum árum.
Hins vegar hafa starfsmenn Eimskips slegið á það að hvort skip hafi siglt 1,5 milljónir sjómílna á síðustu 20 árum.
Það samsvarar nærri 70 ferðum umhverfis jörðina!
Skipin tvö sem nú hverfa úr flotanum voru smíðuð árið 1995 hjá Örskov Staalskipsværft í Frederikshavn í Danmörku.
Þetta voru stærstu og jafnframt síðustu gámaskipin sem skipasmíðastöðin byggði.
Þau eru 166 metrar að lengd og breiddin er 27 metrar. Ganghraði er 21 sjómíla.
Skipin voru í siglingum fyrir dönsk félög fyrstu árin en Eimskip keypti þau árið 2000.
Fyrra skipið fekk nafnið Goðafoss en það seinna Dettifoss. Þau hófu strax Íslandssiglingar.
Hafa skipin verið í áætlunarsiglingum milli Íslands, Færeyja og meginlandsins og auk Reykjavíkur hafa þau haft viðkomu á Grundartanga og Eskifirði/?Reyðarfirði.
|