30 júní sl. kom Halldór Hjálmarsson úr sinni síðustu veiðiferð með Málmey SK1 og af því tilefni afhenti Gylfi Guðjónsson útgerðarstjóri honum blóm og gjafakort frá FISK og samstarfsfólki, með kæru þakklæti fyrir samstarfið og vinnu í þágu fyrirtækisins í áratugi. Rætt er við hann á heimasíðu Fisk Seafood.
Dóri hóf störf hjá FISK 1987 og hefur því verið hjá fyrirtækinu í 33 ár þar af sem kokkur frá 1991, áður var hann á sjó á bátum frá Grindavík í 15 ár og árin til sjós því orðin 48, sem er orðið gott, sagði Dóri. Það er margs að minnast frá löngum ferli en eftirminnilegar eru löngu ferðirnar í Smuguna og einnig siglingar erlendis um jólin sem voru erfiðar fyrir fjölskyldufólk. Aðspurður um matarhefðir sjómanna sagði Dóri að fiskurinn og lambakjötið væri alltaf vinsælt og klikkaði aldrei, en yngri mennirnir vildu gjarnan hafa pizzur og hamborgara.
Dóri kvíðir ekki verkefnaleysi þó hann segi skilið við sjóinn, en hlakkar til að eyða tíma með barnabörnunum og fjölskyldunni. Hann vildi að lokum koma á framfæri kæru þakklæti til allra samstarfsmanna og stjórnenda FISK fyrir ánægjulegt samstarf. Strákarnir eru búnir að segja ,,takk fyrir mig“ í öll þessi ár og nú segi ég TAKK FYRIR MIG sagði Dóri að lokum.
Heimild Audlindin.is
|