09.08.2020 01:28Arnar HU 1 mokfiskar i rússnesku
Mokfiskirí við hlið rússneska flotansGudjon Gudmundsson 30. júlí 2020 kl. 16:00
2265 Arnar HU. Mynd/Þorgeir Baldursson.2019
Arnar HU með næsthæstu aflaverðmæti í sögu skipsins úr BarentshafiArnar HU gerði sinn næstbesta túr í sögu skipsins í Barentshafinu í 39 daga túr sem lauk í síðustu viku. Aflinn var 1.250 tonn upp úr sjó og aflaverðmætið var 450 milljónir króna. Íslensku skipin fimm sem fóru í Barentshafið á þessu ári hafa þá öll lokið veiðum þar. Hásetahluturinn í Barentshafstúrnum er um fjórar milljónir króna og það liggur mikil vinna á bak við kaupið. Met Arnars HU í aflaverðmætum er 456 milljónir kr. sem náðist við Noreg árið 2015. Uppistaðan í því sem landað var á Sauðárkróki 20. júlí síðastliðinn voru þorskflök. Guðmundur Henry Stefánsson var skipstjóri í Barentshafinu og segir túrinn hafa verið sérstakan fyrir margra hluta sakir, ekki síst vegna umfangsmikilla heræfinga rússneska flotans rétt við skipsíðu. Lagt var í hann 10. júní síðastliðinn og fjögurra sólarhringa stím er að eftirlitspunkti í Kirkenes í Norður-Noregi þar sem eftirlitsmaður var tekinn um borð. Mesta veiði sem við höfum lent í„Þetta gekk alveg ljómandi vel. Við höfum farið annað slagið í Barentshafið en þetta er með því betra. Við vorum þarna á miðlínunni milli Noregs og Rússlands og fórum líka aðeins austur eftir. Þetta er mesta veiðin á þessum slóðum sem við höfum lent í,“ segir Guðmundur Henry. Hann segir að veiðarnar hafi gengið glimrandi vel allt fram að því að þeir lentu inni í miðri heræfingu rússneska flotans sem stóð yfir frá 7. til 11. júlí. Þeir sáu aðeins hluta af öllum flotanum en þarna var meðal annars orrustubeitiskipið Pétur Mikli og flugmóðurskipið Admiral Kuznetsov. „Við vorum að toga þarna innan um herskipin og það var dálítið sérstök upplifun. Þeir kölluðu í okkur og eftirlitsmaðurinn talaði við þá á rússnesku. Ég hef aldrei séð svona mikið af herskipum. Við sáum að minnsta fjögur eða fimm en þau voru fleiri. Við vorum næst þeim í 1,7 til 1,9 sjómílu fjarlægð í mokfiskeríi. Við vorum beðnir um að færa okkur eina nóttina og það var svo sem ekkert mál.“ Hergögn frá NATO í trollinuÞað var ekki bara þorskur sem kom upp með trollinu heldur líka skrápflúra og blágóma sem var heilfryst. Allt er hirt sem kemur upp úr hafinu, jafnt fiskur sem annað. Mikið kom upp af hernaðarbúnaði tengdum vörnum gegn kafbátum, þar á meðal búnaði sem er skotið út og er ætlað að trufla tundurskeyti. Búnaðurinn var það nýlegur, að sögn Guðmundar Henry, að hægt var að lesa merkingar sem sýndu að hann er frá framleiðanda sem framleiðir hernaðargögn fyrir Atlantshafsbandalagið. Vigri RE fékk sömuleiðis búnað af einhverju tagi upp úr trollinu sem líklega var sendir sem rússneski herinn sótti um borð. Alls fékk Arnar HU um 1.250 tonn upp úr sjó, þar af 1.140 tonn af þorski. Arnar kom seinna á miðin en hin íslensku skipin og sótti fyrir flotann veiðileyfi fyrir leigukvótann til Noregs. „Það er eftirsóknarverðara að fara á þessum árstíma í Barentshafið. Við höfum oftast farið á haustin og ekki alltaf riðið feitum hesti frá því.“ Hásetahluturinn eftir túrinn er um fjórar milljónir króna en Guðmundur Henry bendir á að baki þessu liggi mikil vinna, 12-14 tíma vinna alla daga vikunnar. Fjarvistirnar eru miklar og síma- og netsamband tregt. Fyrir hefur komið að hvorki er síma- né netsamband og heldur ekki sjónvarpsamband. Það séu mikil viðbrigði fyrir þá sem ganga að þessum hlutum sem vísum. „Oft eru farnir svona túrar sem ekkert fæst og ekkert er fjallað um í fjölmiðlum. Menn eru kannski 30-40 daga síma- og netsambandslausir og fiska ekkert.“ Skrifað af Þorgeir |
Eldra efni
Um mig Nafn: Þorgeir BaldurssonFarsími: 8620479Tölvupóstfang: thorgeirbald62@gmail.comHeimilisfang: Reynihlið 15 D 604 HörgárbyggðStaðsetning: HörgárbyggðUm: Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist SjávarútvegiTenglar
Flettingar í dag: 1318 Gestir í dag: 13 Flettingar í gær: 4063 Gestir í gær: 33 Samtals flettingar: 1120444 Samtals gestir: 52254 Tölur uppfærðar: 18.1.2025 05:49:23 |
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is