Makrílveiðar
23.08.2020
Hoffell er á landleið með 1000 tonn af makríl. Vel hefur gengið hjá Hoffellinu undanfarið, og þegar þessi afli verður kominn í land hefur Hoffellið landað tæpum 6000 tonnum af makríl.
Sigurður Bjarnason skipstjóri á Hoffelli sagði að það þyrfti að sækja nokkuð langt til að finna makríl en það hefði gengið vel að þessu sinni og þessi 1000 tonn hefðu náðst á aðeins 38 klukkustundum.
Á síðasta ári hættu veiðar þann 10.september en árin þar á undan hélt veiðin út september. Sigurður skipstjóri sagði að fiskurinn væri allur austar núna. “Hann kemur úr norsku lögsögunni og við vorum að ná honum alveg við línuna” sagði skipstjórinn. Sigurði líst ágætlega á framhaldið þó að hann geri sér fulla grein fyrir því að það styttist í að fiskurinn fari á hrygningastöðvarnar en það gerir hann þegar líður á haustið og ef eitthvað má byggja á fyrri reynslu virðist það vera gerast fyrr heldur en fyrir nokkrum árum.
Veðrið var með ágætum í þessum túr, þó kom kaldaskítur þegar Hoffellsmenn voru að draga inn síðasta holið en það lagaðist í nótt er leið.
Hoffell verður í heimahöfn um kl. 19.00 í kvöld, sunnudaginn 23.ágúst. Löndun hefst snemma í fyrramálið og áætlað er að halda aftur til veiða á miðvikudaginn.
Heimasiða Lvf.is
Bóa
|
2865 Hoffell SU 80 mynd þorgeir Baldursson 2020 |