27.08.2020 00:07Makrílveiði smábáta lítil sem engin á vertíðinniHeimild Fiskifrettir Guðsteinn Bjarnason gudsteinn@fiskifrettir.is myndir þorgeir Baldursson
Ekki er makríllinn að tefja okkur,“ sagði Unnsteinn Þráinsson, skipstjóri á Sigga Bessa SF og formaður Félags makrílveiðimanna, þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans. Erindið var einmitt að spyrja hvernig hljóðið væri í smábátasjómönnum sem stundað hafa makrílveiðar undanfarin ár. Þetta árið brást makríllinn hér í landhelginni og stórútgerðin hefur þurft að sigla í Smuguna til að ná honum. „Hann fór illa með okkur þetta árið. Einhverjir hafa fiskað smá í Keflavík, en það var ekki neitt neitt. Nú eru menn bara flestir hættir held ég að leita. Margir búnir að taka niður búnaðinn. Hann brást þetta árið, sem er reyndar eitthvað sem við höfum alltaf gert okkur grein fyrir að gæti gerst einhvern tímann, sérstaklega í okkar flota. Svo veit enginn hvað gerist á næsta ári.“ Unnsteinn hafði verið við makrílveiðar á hverju sumri síðustu tíu árin, þar til nú í sumar. Á veturna er hann á línuveiðum frá Hornafirði en makrílveiðarnar hefur hann stundað á nokkrum stöðum við landið. ðMikill tækifærisfiskur „Núna fór ég bara í sumarfrí sem ég hef ekki gert í mörg ár. Fór suður til Grindavíkur fyrir þremur vikum og var að leita þarna á miðunum en fór svo bara með bátinn aftur um síðustu helgi. Maður var alltaf að vona náttúrlega að það kæmi eitthvað. Við leituðum á leiðinni suður og fundum ekki neitt. Sama á leiðinni heim, við sáum andskotann ekkert nema tvær þrjár pínulitlar torfur.“ Hann segir það þó ekki beint koma á óvart þótt makríllinn láti ekki sjá sig þetta sumarið. „Hann er bara það mikill tækifærisfiskur að ég held það sé bara hending hverju sinni hvert hann fer. Hann lenti bara mikið austar núna en hann hefur gert undanfarin ár. Ég held að allflestir, alla vega í mínum hópi, séu meðvitaðir um að svona ár geti komið inn á milli. Svo gæti hann alveg birst hérna á næsta ári. Það er bara ein vertíð í einu.“ Hann segir að undanfarin ár hafi um 35 til 40 bátar verið á makrílveiðum hér við landið af einhverjum krafti. Sjálfur ákvað hann að taka sér frí en misjafnt er hvernig menn hafa brugðist við stöðunni. „Þetta er dálítið langt stopp núna þessa vertíðina og menn hafa bara reynt að bjarga sér einhvern veginn. Einhverjir hafa skipt yfir á handfæri og eru þá á leigukvóta.“ Gætu vel mannað eitt skip Unnsteinn segir ýmsar hugmyndir hafa verið ræddar um það hvað gert verði í framhaldinu. „Ein hugmyndin var hvort við ættum að taka okkur saman og leigja okkur skip hreinlega til þess að sækja þessar heimildir. Núna er hann úti í Smugu, og eins og einhver sagði þá erum við með réttindi og getum auðveldlega mannað eitt skip til að sækja þetta. En þetta er svo sem ekkert komið lengra en bara á hugmyndastig ennþá.“ Hann leggur þó áherslu á að vandinn sé engan veginn eingöngu bundinn við bátana. „Við erum eitt, svo er allt í landi sem er annað eins og meira. Þar er vinnslan og öll umsvifin í kringum þetta, sem maður hefur ekki síður áhyggjur af. Þetta hefur margvísleg áhrif. Þótt þetta hafi ekki verið neitt rosalega mörg tonn sem við vorum að veiða þá var þetta ótrúlega atvinnuskapandi. Nokkrar vinnslur hafa síðustu ár verið að byggja sig upp í þessu, verið með mannskap og lagt í kostnað. Svo ekki sé minnst á Keflavíkurhöfn. Það hafa verið svakaleg umsvif þar síðustu árin í kringum þetta.
Skrifað af Þorgeir |
Eldra efni
Um mig Nafn: Þorgeir BaldurssonFarsími: 8620479Tölvupóstfang: thorgeirbald62@gmail.comHeimilisfang: Reynihlið 15 D 604 HörgárbyggðStaðsetning: HörgárbyggðUm: Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist SjávarútvegiTenglar
Flettingar í dag: 1527 Gestir í dag: 51 Flettingar í gær: 1455 Gestir í gær: 74 Samtals flettingar: 992948 Samtals gestir: 48558 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:48:29 |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is