|
1661 Gullver NS12 á Austfjarðamiðum mynd þorgeir Baldursson 2020 |
Búið að vera dræmt úti fyrir Austurlandi
Fæðuskortur gæti verið skýringin
Á sama tíma og vel fiskast úti fyrir Vestfjörðum er veiðin fremur dræm úti fyrir Austurlandi og hefur verið allt frá því í haust. Steinþór Hálfdánarson, stýrimaður og afleysingarskipstjóri á Gullveri NS frá Seyðisfirði, segir að náðst hafi gott ufsaskot í Lónsdýpinu, um 40-50 tonn. Alls voru komin um 70 tonn í lest.
GUÐJÓN GUÐMUNDSSON
gugu@fiskifrettir.is
Gullver var í Lónsdýpi um 60 sjómílur út af landi þegar rætt var við Steinþór. Hann sagði að veiðarnar gengju upp og ofan en undanfarið hefði verið brælutíð.
„Við erum hérna í Lónsdýpi að leita að þorski. Það hefur ekki verið mikið af fiski. Mér finnst þetta hafa verið óvenju dapurt allt haustið og það sem af er þessu ári hérna fyrir austan og víðar. Það hefur reyndar verið ágæt veiði fyrir vestan undanfarið en við höfum ekki farið þangað. Auðvitað gætum við farið þangað og landað þá einhvers staðar annars staðar en hér heima,“ segir Steinþór.
Steinþór var áður skipstjóri á Bjart NK og síðast á Barða NK allt þar til hann var seldur til Rússlands sumarið 2017.
Veiðar gengu vel framan af síðasta ári á Gullveri og skilaði hann á land nálægt um 5.000 tonnum á árinu. Haustið var hins vegar óvenju lélegt, að sögn Steinþórs.
Vorrall í mars
„Ég held að það vanti bara æti hérna. Makríllinn kom náttúrulega ekkert hingað austur með landinu og það virðist bara skipta sköpum. Það var reyndar óvenjumikið af síld hérna fyrri hluta hausts og meðan það var veiddist ágætlega. Frá miðjum október og fram að þessu hefur þetta verið mjög tregt í þorski og lítið sést af ufsa.“
Að undanförnu hefur meðaltúrinn verið 50-70 tonn eftir um fjögurra til fimm daga túra sem Steinþór segir að sé auðvitað bara lélegt. Fram að því hafði meðaltúrinn gefið 25-30 tonn á dag.
Gullverið hefur ekki farið nema einstaka túra á vetrarvertíð fyrir sunnan land. Framundan sé vorrallið sem Gullverið tekur þátt í og fer lunginn af marsmánuði fer í það.
„Við verðum á norðaustursvæðinu og þar hefur aldrei fengist fiskur í ralli. Við erum að fá svipuð laun þannig að þetta kemur ekkert illa út fyrir okkur. Auk þess spörum við kvóta og fáum kvóta í staðinn. Rúmir 20 dagar fara í rallið þannig að með stoppum fer nánast allur marsmánuður í rallið,“ segir Steinþór.
Vantar loðnuna
Í framhaldinu verði skipið á heimamiðum en Steinþór telur þó ekki ósennilegt að eitthvað verði sótt vestur með landinu á hefðbundna vertíðarslóð. Hann vonast þó til þess að loðna gangi í suðurátt svo veiðin glæðist fyrir austan.
„Það hefur bara verið fæðuskortur hérna. Ég held að það sé meginskýringin. Það er engin spurning að það kemur fiskur á eftir loðnunni. Spurningin er bara hve mikið gengur af loðnu hingað. Um áramótin urðum við varir við lítið magn norður af Digranesflaki, Sléttugrunni og Langanesgrunni en það var sáralítið af loðnu í fiski. En það er reyndar nokkuð frá liðið. Það hefur verið fín veiði fyrir vestan frá því loðna fór að sjást en það hafði lítið sem ekkert fiskast þar frá því seinnipart sumars og fram á haust sem er heldur óvenjulegt á þessum tíma.“
Steinþór hóf störf hjá Síldarvinnslunni árið 1969, þá 16 ára gamall. Hann hefur því séð tímana tvenna til sjós. Hann segir að stóra breytingin á þessum tíma til sjós séu samskiptin í land. Allt önnur tækni sé líka til veiða en var áður þegar menn höfðu ekki annað til að reiða sig á en einn dýptarmæli. Annað byggðist að mestu á ágiskunum og innsæi skipstjórnarmanna.