01.02.2021 23:23RAKEL NÝR AÐALBÓKARI SVN
Auður Hauksdóttir aðalbókari Síldarvinnslunnar mun láta af störfum á næstu mánuðum. Auður hefur starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 1991, gegnt starfi aðalbókara frá árinu 2000 og skilað afar góðu dagsverki. „Það er mikil eftirsjá að Auði en það á við hér eins og víðast hvar annars staðar að maður kemur í manns stað,“ segir í frétt frá Síldarvinnslunni. Rakel Kristinsdóttir Nýr aðalbókari var ráðinn úr hópi 16 umsækjenda seint á síðasta ári og hóf hann störf í ársbyrjun. Nýi starfsmaðurinn er Rakel Kristinsdóttir. Rakel er fædd og alin upp í Reykjavík en á ættir meðal annars að rekja til Mjóafjarðar. Eftir að hún lauk námi í Verslunarskólanum dvaldi hún erlendis við nám og störf í átta ár. Dvalarstaðirnir voru París og London og það var listnám sem hún lagði stund á. Þegar heim til Íslands var komið hóf hún störf meðal annars á listasviðinu og annaðist uppsetningu á söngleiknum Annie í Austurbæ í Reykjavík. Í framhaldinu hóf Rakel að starfa við bókhald og lagði stund á nám í viðskiptafræðum við Háskólann á Akureyri. Að því námi loknu lá leiðin í Háskóla íslands þar sem hún lauk námi í reikningsskilum og endurskoðun. Síðastliðin sjö ár starfaði Rakel hjá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG. Rakel var spurð að því hvers vegna hún hefði sótt um aðalbókarastarfið hjá Síldarvinnslunni. „Mér fannst það spennandi og það hentar vel minni menntun og starfsreynslu. Það er áskorun fyrir mig og 12 ára son minn að flytja út á land og upplifa eitthvað nýtt og svo finnst mér mikilvægt að kynnast íslenskum sjávarútvegi. Ég hef áhuga á útivist og það er freistandi að búa á stað þar sem nálægðin við náttúruna er mikil. Austurland hefur upp á margt að bjóða og ég ætla að njóta þess. Nú erum við flutt til Neskaupstaðar og okkur líst báðum afar vel á það sem mætir okkur þó vetrarveðrið hafi verið óblítt á köflum að undanförnu. Sonur minn, Kristófer Jökull Jóhannsson, byrjaði að sjálfsögðu strax í Nesskóla þar sem hann lætur vel af sér og að auki er hann byrjaður að æfa fótbolta af kappi og lærir á gítar. Það er alveg víst að hér á nýjum heimaslóðum verður hægt að fást við margt skemmtilegt auk þess sem starfið er spennandi í alla staði,“ segir Rakel. Hér skal upplýst að Rakel hefur mikinn áhuga á umhverfismálum og á hún hugmyndina að verkefninu Skjótum rótum sem Landsbjörg og Skógræktarfélag Íslands hafa unnið að. Verkefnið felst í því að draga úr notkun flugelda um áramót án þess að það bitni á tekjum björgunarsveita Skrifað af Þorgeir |
Eldra efni
Um mig Nafn: Þorgeir BaldurssonFarsími: 8620479Tölvupóstfang: thorgeirbald62@gmail.comHeimilisfang: Reynihlið 15 D 604 HörgárbyggðStaðsetning: HörgárbyggðUm: Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist SjávarútvegiTenglar
Flettingar í dag: 526 Gestir í dag: 38 Flettingar í gær: 1455 Gestir í gær: 74 Samtals flettingar: 991947 Samtals gestir: 48545 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:27:28 |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is