01.02.2021 22:58

Vinnslustöðin kaupir útgerðarfélagið Huginn í Eyjum

 

                           2411 Huginn VE55 Mynd Óskar Pétur Friðriksson 13/11 2018
 

Vinnslustöðin átti fyrir 48% hlut en á nú félagið allt og hyggst starfrækja það áfram í óbreyttri mynd.

Vinnslustöðin hf. hefur keypt Huginn ehf., útgerðarfélag í Vestmannaeyjum sem gerir út fjölveiðiskipið Hugin VE-55, ásamt aflaheimildum í síld, loðnu, kolmunna og makríl.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vinnslustöðinni. Kaupsamningur var undirritaður í Eyjum á föstudaginn var, 29. janúar. Kaupverðið er trúnaðarmál kaupenda og seljenda.

Í umfjöllun Vinnslustöðvarinnar segir: 

Vinnslustöðin átti fyrir 48% hlut í Hugin en á nú félagið allt og hyggst starfrækja það áfram í óbreyttri mynd.

Seljendur Hugins ehf. eru þrír synir og dóttir hjónanna Guðmundar Inga Guðmundssonar og Kristínar Pálsdóttur. Fjölskyldan eignaðist allt félagið árið 1968 og var meirihlutaeigandi þess þar til nú. Bræðurnir eru skipstjórnarmenntaðir, tveir þeirra skipstjórar á Hugin VE en sá þriðji framkvæmdastjóri félagsins, Páll Þór Guðmundsson.

Samhliða kaupunum hefur verið ákveðið að Guðmundur Ingi Guðmundsson verði skipstjóri á Hugin á móti föður sínum, Guðmundi Hugin Guðmundssyni og föðurbróður, Gylfa Viðari Guðmundssyni. Guðmundur Ingi verður þar með þriðji ættliður skipstjórnarmanna á Hugin VE-55.

Huginn VE-55 var smíðaður árið 2001, öflugt vinnsluskip og fjölveiðiskip og veiðir uppsjávarfisk í nót eða flottroll.

Útgerðarfélagið Huginn var frumkvöðull að makrílveiðum við Ísland og fór að þreifa fyrir sér í þeim efnum á árunum 2002 til 2006 en með misjöfnum árangri. Það var svo sumarið 2007 að áhöfn Hugins VE náði alls um 3.000 tonnum, þar af um 2.500 tonnum í íslenskri lögsögu og 500 tonnum í þeirri færeysku. Þar með hófust beinar makrílveiðar í lögsögu Íslands.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, segir að kaupin á Hugin séu gleðiefni fyrir Vinnslustöðina en ekki síður góðar fréttir fyrir Vestmannaeyjar:

„Það var ekki sjálfgefið að kaupandi meirihluta Hugins væri félag í Eyjum en systkinin eru trú og trygg byggðarlaginu sínu og lögðu áherslu á að félagið, skipið og aflaheimildirnar yrðu hér áfram. Við erum afar ánægð með þá afstöðu þeirra.

Vinnslustöðin hefur byggt upp uppsjávarhluta starfsemi sinnar á undanförnum árum. Samrekstur félaganna mun skila aukinni hagræðingu og leiða til betri nýtingar skipa og verksmiðja samstæðunnar.

Undanfarin ár hefur Huginn ehf. verið í samstarfi við Eskju um vinnslu á makríl. Stjórnendur Vinnslustöðvarinnar sjá áhugaverða kosti í því samstarfi og vonast til að þróa það áfram.“

Af vef Fiskifretta 

Mynd Óskar Pétur Friðriksson 

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 2696
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 4063
Gestir í gær: 33
Samtals flettingar: 1121822
Samtals gestir: 52256
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 06:10:23
www.mbl.is