2836 Gefjun EA510 (EX Blossi IS ) Mynd þorgeir Baldursson
Undanfarnar vikur hefur Hafrannsóknastofnun svipast um eftir loðnu á grunnslóð í Eyjafirði, Skjálfanda og víðar fyrir norðan land. Ekkert afgerandi magn hefur sést.
„Við höfum verið að sverma fyrir þessari síðbúnu göngu af loðnu,“ segir Birkir Bárðarson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun. Hann hefur undanfarnar vikur farið í nokkra rannsóknaleiðangra fyrir norðan land þar sem loðnu hefur verið leitað, einkum í Eyjafirði og á Skjálfanda.
„Við erum nefnilega alltaf að fá fréttir af loðnu sem er að hrygna fyrir norðan. Við viljum sjá hvort það er kynþroska loðna þarna og hvenær hún er á ferðinni og reyna að átta okkur á í hve miklu magni.“
Birkir hefur verið á bátnum Gefjun EA sem Hafþór Jónsson gerir út og reiknar með að fara líklega nokkrar ferðir til viðbótar í sumar, að minnsta kosti á meðan loðnan lætur eitthvað sjá sig.
Fylgja eftir fréttum
„Þetta byggist svolítið á því að vera í sambandi við menn og fá fréttir. Við höfum verið að fylgja eftir fréttum þar sem menn hafa orðið varir við loðnu, og loðna hefur verið í mögum á fiski. Ég hef skoðað þá loðnu en við höfum á þessum svæðum ekki séð neitt afgerandi magn í mælingunum.“
Til magnmælinga er notast við bergmálsmæla sem hægt er að kvarða og samhliða því er safnað í háfa sem dregnir eru af bátnum.
„Svo erum við líka með myndavélar sem við setjum niður, bæði til að geta greint fisk sem er í torfum sem við sjáum á mælunum, og svo höfum við líka verið að setja myndavélarnar niður á botn á líklegum hrygningarsvæðum til að geta séð hvort loðna hafi hrygnt þar nýlega. Þá ættum við að sjá eggin á botninum. Þó að við hittum kannski ekki á hana getum við skyggnst svolítið aftur í timann, sjá hvort hún hafi verið þarna að hrygna.“
Fylgst með hvölum
Því til viðbótar hefur verið fylgst með hvölum, og sérstaklega þá hnúfubökum.
„Þeir fylgja oft loðnugöngum. Þegar við höfum orðið varir við þá inni á fjörðum þá höfum við reynt að taka sýni úr þeim og jafnvel setja gervihnattarmerki í þá. Við tökum húðsýni úr þeim sem gefa okkur vísbendingu um hvað þeir hafa verið að éta síðustu daga og viku, og þá getum við séð merki um það ef þeir hafa mikið verið að éta loðnu. Svo er líka áhugavert ef við náum að setja merki í þá að fylgjast með því hvar þeir halda sig, ef þeir geta bent okkur á líkleg svæði.“
Birkir segir þessar rannsóknir vera nýjung hjá stofnuninni. Sérstakur viðbótarstyrkur frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu gerði þær möguleikar og Birkir segir ástæðu til að hrósa ráðuneytinu fyrir „að hafa haft innsæi í að styrkja svona verkefni sem snýr ekki beint að stofnmati fyrir ráðgjöf heldur að við erum að reyna að átta okkur á því hvað er að gerast. Þetta er í rauninni eitthvað sem við þyrftum að gera meira af, en okkur bara skortir fjármagn til.“
Heimild Fiskifrettir.is
|