28.07.2021 14:51

Fleiri selir en í fyrri talningu

                                                                                                                                     Selur á Steini Mynd þorgeir Baldursson 

 

Niðurstöður selatalningarinnar miklu, sem fór fram á Vatnsnesi um helgina, benda til að stofninn sé frekar að stækka en minnka. Framkvæmdastjóri Selasetursins telur líklegt að það sé selveiðibanni að þakka.

 

Fleiri selir en við síðustu talningu

Talningin var gerð á rúmlega 100 km svæði á Vatnsnesi og Heggstaðanesi. Öll fjaran var gengin, selir taldir og skráðir. Páll L. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Selasetursins á Hvammstanga, segir að talningin hafi komið vel út.

„Við töldum 718 seli sem er talsvert betra en í þrjú síðustu skipti. Síðast þegar við töldum, 2016, fengum við 580 seli. Þannig að við erum alveg mjög kát yfir því að í stofninum skuli ekki vera að fækka heldur í það minnsta standi hann í stað,“ segir Páll.

Selveiðibannið að virka

Selir hafa verið taldir á Vatnsnesi frá 2007 og hefur meðaltalið verið 757 dýr. Nú er fjöldi sela því nærri þessu meðaltali. Páll telur þessar tölur gefi vísbendingar um að selveiðibann sem var sett á fyrir um tveimur árum beri árangur. „Það að menn voru ekki að drepa seli við ósa þar sem laxar voru.
Menn höfðu þá ranghugmynd að selir væru að éta laxana og þá voru þeir réttdræpir, við skulum orða það þannig,“ segir Páll.

Mikilvægar upplýsingar til framtíðar

Páll segir að upplýsingarnar séu mikilvægar fyrir selarannsóknir næstu áratugina. Stefnt sé að selatalningu á næsta ári og að talningin verði árlegur viðburður.

Sjálfboðaliðar víða að töldu selina og voru það jafnt Íslendingar sem útlendingar. Páll gleðst mjög yfir þeim mikla áhuga sem fólk sýndi verkefninu, bæði ferðamenn og fjölmiðlar.

„Það var mjög góð þátttaka, í allt voru þetta 58 og það voru 55 sem gengu eða örkuðu Vatnsnes og Heggstaðanes. Þannig að við erum mjög ánægð og þakklát fyrir þennan hóp sjálfboðaliða,“ segir Páll að lokum.
 

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 1318
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 4063
Gestir í gær: 33
Samtals flettingar: 1120444
Samtals gestir: 52254
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 05:49:23
www.mbl.is