04.08.2021 18:38

 

Búlandstindur reisir frauðkassaverksmiðju á Djúpavogi. Elís Grétarsson framkvæmdastjóri segir frauðkassana vistvæna. Gerðar hafi verið tilraunir með ýmis önnur efni en þau henti illa fyrir fisk og séu bæði flóknari og erfiðari í framleiðslu.

„Hún er náttúrlega ekki risin. Það er bara verið að byrja á grunninum núna,“ sagði Elís Grétarsson framkvæmdastjóri Búlandstind á Djúpavogi þegar Fiskifréttir spurðu hann út í plastkassaverksmiðju sem til stendur að taka í gagnið þar.

Hann segir þó stefnt að því að starfsemin hefjist öðru hvoru megin við næstu áramót. Verksmiðjan eigi að geta sinnt allri kassaþörf Búlandstinds, og meiru til ef áhugi annarra vaknar síðar meir.

„Jú, það er hugmyndin með þessu. Við erum að flytja ansi mikið loft hérna á milli staða.“

Suma daga er Búlandstindur að senda frá sér allt að sjö flutningabíla af laxi og taka á móti öðru eins af tómum kössum.

Skapar atvinnu

Hingað til hefur Búlandstindur keypt frauðplastkassa frá Tempru og flutt tóma á milli landshluta. Nú verða þeir framleiddir á staðnum og þar með minnkar kolefnissporið. Aðeins tvö fyrirtæki hér á landi hafa framleitt frauðplastkassa, Tempra og Borgarplast.

Búlandstindur slátrar fiski frá báðum stóru laxeldisfyrirtækjunum á Austfjörðum, Löxum ehf. og Fiskeldi Austfjarða, en bæði félögin eru að meirihluta í eigu norska fyrirtækisins Måsøval.

Elís reiknar með því að nýja kassaverksmiðjan skapi fimm manns á Djúpavogi atvinnu, en alls starfa um 80 manns hjá Búlandstindi og þar er stefnt á að slátra um 20 þúsund tonnum á þessu ári.

Minnka kolefnissporið

„Þetta eru vistvænir frauðkassar,“ segir Elís, spurður út í það hvort plastið sé ekki orðið illa séð nú til dags. „Við erum að framleiða þetta með raforku sem er græn orka, og við erum að minnka kolefnissporið frá því sem er í dag, og svo eru þessir kassar endurvinnanlegir, 100% endurvinnanlegir, hægt að endurvinna aftur úr þeim.“

Þar að auki henti aðrar umbúðir ekki jafn vel undir sjávarafurðir. Engar umbúðir verji hráefnið betur en frauðplastið, en vissulega sé búið að gera ýmsar tilraunir með önnur efni.

„Við prófuðum til að mynda pappakassa og það var í sjálfu sér ekkert út á það að setja, nema hvað framleiðsluferlið er mikið flóknara og erfiðara. Við þurfum mikið á trjám að halda í þeim efnum. Framleiðslan á þeim umbúðum er ekki tilbúin fyrir umheiminn eins og hún er í dag. Við myndum þurfa að hreinsa upp skógana ansi hratt.“

Á hinn bóginn sé þá líka nauðsynlegt að tryggja að umgengnin um frauðplastið sé nógu góð.

„Aðallega þá á hinum endanum, að menn skili þessu til endurvinnslu. En í dag er að minnsta kosti komið skilagjald á þetta.“

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 526
Gestir í dag: 38
Flettingar í gær: 1455
Gestir í gær: 74
Samtals flettingar: 991947
Samtals gestir: 48545
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:27:28
www.mbl.is