15.08.2021 11:19Nær alltaf með hámarksskammt
Sígur á seinni hluta strandveiða.Strandveiðar hafa gengið með miklum ágætum í sumar á flestum svæðum en áberandi mestur hefur aflinn verið á svæði A þar sem hann var kominn yfir fimm þúsund tonn í byrjun vikunnar. Þar eru líka flest útgefin leyfi, 264 alls. Í byrjun vikunnar nam heildaraflinn á öllum svæðunum fjórum rúmum tíu þúsund tonnum. Óveidd eru því ekki nema rétt rúmlega tvö þúsund tonn. Halldór Gunnar Ólafsson, skipstjóri á Lofti HU á Skagaströnd, var úti á spegilsléttum Húnafirðinum í 18 gráðu hita að draga þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn. „Það er heitt í veðri og stundum lítið rek en þetta hefur gengið ágætlega til þessa og verið mjög gott að undanförnu. Ég byrjaði strax á strandveiðunum í maí og náði tólf róðrum í þeim mánuði. Í júní voru róðrarnir 11, 12 í júlí og svo er spurningin sú hvað teygist úr þessu núna. Það er ekki mikið eftir í pottinum og ég er vonast til þess að ná kannski fjórum til fimm dögum til viðbótar áður en þessu lýkur,“ segir Halldór Gunnar. Upphaflegi potturinn var 11.100 tonn en svo var bætt í hann 1.171 tonni af þorski 20. júlí sl. Alls eru útgefin leyfi núna 688 talsins en voru 676 í fyrra. Meðaltalsafli á bát það sem af er á þessu ári er 15,2 tonn og meðalafli í róðri 673 kg. Þetta er fjórða sumarið sem Halldór Gunnar er á strandveiðum. „Það hefur verið fínn fiskur hérna í flóanum að undanförnu. Þetta hefur mjög mikið verið 5 kg plús fiskur, allt að 400 kg í róðri og kannski um 100 kg af 8 kg fiski og þaðan af þyngri og restin eithvað bland. Þetta hefur annars að langmestu leyti verið þorskur og eittvað lítið af ufsa með.“ Ufsinn er utan kvóta og strandveiðimenn mega veiða hann eins og þá lystir. Útgerðin fær 80% af andvirði ufsans sem seldur er á markaði og 20% rennur til verkefnasjóðs sjávarútvegsins þegar uppboðskostnaður og hafnagjöld hafa verið dregin frá. Halldór Gunnar er sáttur við verðið sem hefur fengist á mörkuðum. Fyrir blandað þorskkóð hafi fengist á milli 350-360 krónur á kílóið og frá 400-440 kr. fyrir 5 kg+ fiskinn. 8 kg+ fiskur hafi hæst farið á 560-570 kr. kílóið. „Ég hef verið heppinn á þessu sumri. Þeir eru ekki nema tveir róðrar sem mig vantaði einhver 100 kg upp á að ná 770 kg af óslægðu. Aðrir róðrar hafa skilað mér hámarksskammtinum. Ég er með fjórar rúllur og það er alveg hægt að svitna yfir þessu þegar maður hittir á blettinn og fiskurinn bítur ört á krókana. Ég hef verið að fara út um klukkan hálffjögur á næturna og yfirleitt verið kominn aftur í land um klukkan tvö eða þrjú síðdegis. Maímánuður var alveg einstaklega góður og þá var ég oft að koma í land í kringum hádegi.“ Halldór Gunnar er einnig framkvæmdastjóri Bio Pol sjávarlíftækniseturs á Skagaströnd sem stundar rannsóknir á lífríki Húnaflóa og stuðlar að nýsköpun innan sjávarútvegs á svæðinu. Bio Pol rekur einnig vottað vinnslueldhús þar sem smáframleiðendur geta leigt sér aðstöðu og unnið úr sínum hráefnum í neytendapakkningar. Heimild Fiskifrettir Myndir Þorgeir Baldursson Skrifað af Þorgeir |
Eldra efni
Um mig Nafn: Þorgeir BaldurssonFarsími: 8620479Tölvupóstfang: thorgeirbald62@gmail.comHeimilisfang: Reynihlið 15 D 604 HörgárbyggðStaðsetning: HörgárbyggðUm: Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist SjávarútvegiTenglar
Flettingar í dag: 479 Gestir í dag: 13 Flettingar í gær: 1858 Gestir í gær: 51 Samtals flettingar: 1061753 Samtals gestir: 50967 Tölur uppfærðar: 22.12.2024 05:13:42 |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is