01.09.2021 22:08Man eftir þér á Húna
„Krakkarnir bíða spenntir eftir þessum ferðum og undantekningarlaust eru þau ánægð. Ég er að hitta fólk í dag, sem komið er yfir tvítugt, sem segir við mig: Ég man eftir þér á Húna! Það er gaman að þessu,“ segir Þorsteinn Pétursson, einn Hollvina Húna II sem sjá um rekstur og viðhald á eikarbátnum. Frá árinu 2006 hefur báturinn siglt á haustin út á Eyjafjörð með grunnskólanemendur frá Akureyri og víðar að úr Eyjafirði. Fræðast um lífríki sjávar Húni II er nú farinn að sigla um fjörðinn með nemendur úr 6. bekk grunnskólanna líkt og mörg undanfarin haust þegar skólar eru teknir til starfa að loknu sumarleyfi. Í ferðunum fræðast krakkarnir um bátinn og smíði hans, lífríki sjávar og hollustu fisksins. Fjallað er um hafið kringum landið og þau verðmæti sem við þurfum að nýta og vernda t.d. með því að halda hafsvæðinu hreinu. Þau skoða stjórntæki í brúnni, veiða fisk sem síðan er krufinn um borð; flakaður, grillaður og loks snæddur. Verkefnið er unnið í samstarfi við auðlindadeild Háskólans á Akureyri, Akureyrarbæ og Samherja. Reiknað er með að þetta haustið verði siglt með ríflega 300 nemendur. Síðasta ferðin er áætluð 9. september nk. Í áhöfn Húna eru 10- 12 manns í hverri ferð og öll vinna er unnin í sjálfboðavinnu. Kennari úr sjávarútvegsfræðum mætir yfirleitt með nemendur sína úr HA, sem fá æfingu í því að fræða aðra um lífríki hafsins. „Það vildi svo skemmtilega til núna í vikunni að einn neminn í sjávarútvegsfræði mundi vel eftir sinni ferð með Húna þegar hún var í grunnskóla,“ segir Þorsteinn. Bátunum sé sýnd virðing Húni II var smíðaður í skipasmíðastöð KEA árið 1963, er 130 tonn að stærð. Iðnaðarsafnið á Akureyri hefur bátinn til umráða í dag en félagið Hollvinir Húna II sér um reksturinn, sem fyrr segir. Þorsteinn segist hlakka til ársins 2023, þegar Húni verður 60 ára. Þá verði vonandi hægt að sigla bátnum hringinn um landið og breiða út fagnaðarerindið. „Við viljum að þessum hluta sögunnar sé sýnd meiri virðing en gert hefur verið. Lengi vel var það siður hér á landi að kasta eikarbátunum á áramótabrennur,“ segir Þorsteinn og bendir á að ekki sé verið að brenna gömul hús með merka sögu að baki. Á fiskveiðum í 30 ár Smíðaðir voru um 100 eikarbátar hér á landi á árunum 1940 til 1970. Húni II er eini báturinn óbreyttur af þessari stærð sem nú er til á Íslandi. Báturinn var gerður út til fiskveiða í 30 ár og talið að veiðin hafi alls verið um 32 þúsund tonn. Hann var tekinn af skipaskrá árið 1994 og stóð til að eyða honum á næstu áramótabrennu. Húna var bjargað af Þorvaldi Skaftasyni og Ernu Sigurbjörnsdóttur, sem vildu varðveita bátinn sem minjar um skipasmíði á Íslandi. Báturinn kom aftur á skipaskrá 1995 og var gerður út á hvalaskoðun í nokkur ár, fyrst frá Skagaströnd og síðar frá Hafnarfirði. Þrautreyndir aflaskipstjórar skiptast á í brúnni á Húna, þeir Arngrímur Brynjólfsson, er lengi stýrði Vilhelm Þorsteinssyni EA, og Bjarni Bjarnason af Súlunni EA Heimild Morgunblaðið Björn Jóhann Myndir Þorgeir Baldursson Skrifað af Þorgeir |
Eldra efni
Um mig Nafn: Þorgeir BaldurssonFarsími: 8620479Tölvupóstfang: thorgeirbald62@gmail.comHeimilisfang: Reynihlið 15 D 604 HörgárbyggðStaðsetning: HörgárbyggðUm: Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist SjávarútvegiTenglar
Flettingar í dag: 1318 Gestir í dag: 13 Flettingar í gær: 4063 Gestir í gær: 33 Samtals flettingar: 1120444 Samtals gestir: 52254 Tölur uppfærðar: 18.1.2025 05:49:23 |
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is