|
1627 Sæbjörg á siglingu á Eyjafirði eftir slipp á Akureyri mynd þorgeir Baldursson |
Slysavarnaskóli sjómanna í Sæbjörgu mun á næstunni flytja frá Austurhöfn að Bótarbryggju í Gömlu höfninni í Reykjavík.
Bótarbryggja liggur úti af Grandagarði, milli Slysavarnahússins og Bakkaskemmu, húss Sjávarklasans.
Það mun ekki taka nema nokkrar mínútur að færa Sæbjörgu milli staða og óhætt að fullyrða að þetta er sá skóli á Íslandi sem tekur skemmstan tíma að flytja.
Sæbjörgin hefur legið í Austurhöfninni síðustu 14 árin. Miklar breytingar hafa orðið á þessu svæði undanfarin ár.
Fyrst reis tónlistarhúsið Harpa, því næst stór fjölbýlishús og á næstunni verður tekið þar í notkun nýtt lúxushótel, Reykjavík Edition-hótelið.
„Skólinn er að flytja vegna breyttra aðstæðna, ekki síst vegna þeirrar uppbyggingar sem hefur orðið við Austurbakkann, þ.m.t. hótelið,“ segir Magnús Þór Ásmundsson, hafnarstjóri Faxaflóahafna.
„Sæbjörginni hefur verið fundinn góður staður við Bótarbryggju.
Þar er góð aðstaða fyrir æfingar en einnig er þar t.d. góður aðgangur að veitingastöðum, almenningssamgöngum og ágætur aðgangur að bílastæðum, allt sem hentar skólanum vel,“ bætir Magnús við.
Heimild Morgunblaðið Sigtryggur /sisi @mbl.is
Mynd þorgeir Baldursson