07.09.2021 07:13Tímamót á sviði landtengingar uppsjávarskipa - mikilvægt umhverfismál
Tímamót áttu sér stað í Norðfjarðarhöfn sl. fimmtudagskvöld. Þá var Vilhelm Þorsteinsson EA landtengdur á meðan löndun á makrílafla fór fram, en í landtengingunni felst að skipið fær raforku úr landi til að kæla aflann, dæla honum á land og sinna annarri raforkunotkun um borð í stað þess að framleiða orku með vélbúnaði sem nýtir olíu sem orkugjafa. Hér er um að ræða mikilvægt umhverfismál og ótvírætt framfaraskref. Samkvæmt bestu heimildum er þetta í fyrsta sinn sem fiskiskip er landtengt með svo aflmikilli tengingu en tengingin flytur 500 kw. Síldarvinnslan hefur lengi unnið að undirbúningi þessa verkefnis í samvinnu við verkfræðistofuna EFLU, en búnaðurinn er framleiddur af ABB sem Johan Rönning hefur umboð fyrir. Nýjustu uppsjávarskip flotans, Vilhelm Þorsteinsson EA og Börkur NK, eru með búnað fyrir landtengingu eins og hér um ræðir og unnið er að því að koma slíkum búnaði fyrir í Beiti NK. Hver eru markmiðin með þessari landtengingu uppsjávarskipa? Hvers vegna er ráðist í umræddar framkvæmdir? Hér skulu veitt svör við þessum spurningum:
Gunnþór B. Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, segir að hér sé um merk þáttaskil að ræða. „Þetta er stórt og jákvætt skref í orkuskiptum íslensks sjávarútvegs. Þetta verkefni er búið að taka okkur nokkur ár í þróun og undirbúningi og þar höfum við átt í góðu samstarfi við verkfræðstofuna EFLU, auk þess sem samstarf við Rarik og framleiðanda búnaðarins hefur verið afar gott. Þetta eru 500 kílówött sem við erum að tengja við skipin og tæknilega þarf þetta að ganga upp svo ekki komi högg á kerfin. Við fyrstu sýn virðist þetta vera mjög notendavænt og ganga smurt fyrir sig þannig að skipverjar verða ekki varir við þegar ljósavél dettur út og landrafmagnið tekur við. Við erum að fara úr því að nota olíu til kælingar, dælingar og keyrslu skips við löndun yfir í að nota rafmagn. Stefna Síldarvinnslunnar er að lágmarka umhverfisáhrif eða fótspor af sinni starfsemi – áður höfum við rafvætt fiskimjölsverksmiðjurnar, smíðað stærri og hagkvæmari skip og nú er það skref stigið að nota rafmagn alfarið við bryggju þegar skip koma með afla til manneldisvinnslu. Við þurfum að vera vakandi yfir orkuskiptum í flotanum en þar eru að koma fram ýmsar lausnir sem við þurfum að skoða hve fýsilegar eru. Það er ýmislegt að gerast í þessum efnum en lausnin er ekki fundin ennþá. Þar til sú lausn er fundin munum við kappkosta að lágmarka olíunotkun,“ segir Gunnþór. Hér er um að ræða merkisviðburð. Það er einstakt að skip landi afla til manneldisvinnslu og afskurður frá manneldisvinnslunni fari til mjöl- og lýsisframleiðslu og við allt þetta ferli skuli notuð endurnýjanleg orka. Hafin var vinna við þessa landtengingu uppsjávarskipin árið 2013 og nú er markmiðinu náð. Mun kostnaður við verkefnið vera á annað hundrað milljónir króna. Börkur NK kom til löndunar í morgun með makríl- og síldarafla og var hann þegar landtengdur með hinum nýja búnaði. Lokið við að tengja Börk NK í morgun. Talið frá vinstri: Jón Atli Bjarnason frá Eflu, Daði Benediktsson frá Eflu, Jóhann Pétur Gíslason vélstjóri á Berki og Þórarinn Ómarsson rafvirki hjá Síldarvinnslunni. Ljósm. Smári Geirsson Skrifað af Þorgeir |
Eldra efni
Um mig Nafn: Þorgeir BaldurssonFarsími: 8620479Tölvupóstfang: thorgeirbald62@gmail.comHeimilisfang: Reynihlið 15 D 604 HörgárbyggðStaðsetning: HörgárbyggðUm: Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist SjávarútvegiTenglar
Flettingar í dag: 3025 Gestir í dag: 60 Flettingar í gær: 1455 Gestir í gær: 74 Samtals flettingar: 994446 Samtals gestir: 48567 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 13:46:41 |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is