Fiskkaup í Reykjavík hafa fest kaup á fiskiskipinu Argos Froyanes. Það er línuskip, sem stundað hefur veiðar á tannfiski, en verður gert út á grálúðunet hér heima.
Skipið er smíðað 2001 og er 48,8 metrar á lengd og 11,03 á breidd.
Í skipinu er búnaður til frystingar.
Ásbjörn Jónsson, framkvæmdastjóri Fiskkaupa, segir að skipið sé nú á Kanaríeyjum og sé væntanlegt heim síðar í mánuðinum en gera þurfi nokkrar breytingar á skipinu til að búa það út til netaveiða.
Nýja skipið leysir Kristrúnu RE af hólmi. Hún var smíðuð 1988 og segir Ásbjörn að þrátt fyrir háan aldur sé Kristrún afbragsskip í góðu standi og verður hún nú sett á söluskrá.
„Argos Froyanes er nokkru stærra skip og hentar vel til veiða á grálúðu langt norður í hafi, þar sem veður geta verið mjög vond,“ segir Ásbjörn.