1345 Blængur NK 125 á toginu. Mynd/Þorgeir Baldursson
Aflinn 860 tonn í síðasta túr að verðmæti 310 milljónir.
Frystitogarinn Blængur NK landaði í Neskaupstað í fyrradag að lokinni 39 daga veiðiferð. Veiðiferðin var tvískipt en skipið millilandaði 20. október sl. Aflinn var 860 tonn og verðmæti hans 310 milljónir króna, að því er segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Bjarni Ólafur Hjálmarsson var skipstjóri í veiðiferðinni og segir hann í viðtali í frétt Síldarvinnslunnar að veðrið hafi reynst þeim Blængsmönnum erfitt:
„Það var mikið af brælum í þessum túr. Það má segja að túrinn hafi einkennst af flótta undan veðri. Þegar hægt var að veiða gekk það hins vegar bara vel. Við vorum mest á Vestfjarðamiðum en síðan veiddum við gulllax fyrir sunnan land. Aflinn var býsna blandaður; mest ufsi, grálúða og þorskur. Næst á dagskránni hjá Blængi er túr í Barentshafið en ég mun sleppa við hann. Nýr skipstjóri, Sigurður Hörður Kristjánsson, mun fara með skipið þangað og hann þekkir Barentshafið vel, allavega Noregsmegin,“ segir Bjarni Ólafur