13.11.2021 12:36Bæta við fjórða uppsjávarskipinuÍsfélagið í Vestmannaeyjum undirbýr loðnuvertíð með kaupum á uppsjávarskipinu Ginneton. Skipið mun bera nafnið Suðurey VE 11.
Uppsjávarskipið Ginneton sem Ísfélag Vestmannaeyja hefur fest kaup á hlýtur nafnið Suðurey VE 11. Skipstjóri verður Bjarki Kristjánsson, núverandi stýrimaður á Sigurði VE, og áhöfnin kemur af Dala-Rafni og Ottó N. Þorlákssyni. Bolfiskveiðar verða aflagðar hjá Ísfélaginu meðan loðnuvertíð stendur sem hæst og líklega verður haldið í loðnuleit seinna í þessum mánuði. Útgefinn loðnukvóti fyrir komandi loðnuvertíð er 904.200 tonn og hefur 626.975 tonnum verið úthlutað til íslenskra skipa. Ísfélag Vestmannaeyja er með stærsta kvótann, 19,99%, sem er millimetra frá 20% hámarkinu. Ísfélaginu er því heimilt að veiða 125.313 tonn. Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri Ísfélagsins, segir að í kjölfar þess að veiðiheimildirnar voru kynntar hafi Ísfélagið leitað fyrir sér að nýju uppsjávarskipi til að bæta við þau þrjú sem þegar eru í rekstri, þ.e. Sigurð VE, Álsey VE og Heimaey VE. „Menn áttu svo sem von á því að gefinn yrði út stór kvóti en þetta var meira en við reiknuðum með. Það voru ekki mörg skip í boði sem voru á lausu fyrir áramót. Sumir voru tilbúnir að selja en þá með afhendingu hugsanlega um mitt næsta ár sem hentaði okkur auðvitað ekki. Það var því ekki úr mörgum skipum að velja þegar á reyndi en við teljum okkur hafa verið heppna með þetta skip,” segir Eyþór.
Ginneton var í eigu sænsku útgerðarinnar Gifico sem hefur undirritað samning Karstensens skipasmíðastöðina í Danmörku um smíði nýs uppsjávarskips sem verður afhent 2023. Skipið var smíðað 2006 og er 62 metra langt og 13 metra breitt og í því er 1.348 rúmmetra rými fyrir afla. „Skipið er á veiðum núna úr uppsjávarkvótum í Norðursjó og Eystrasaltinu. Því hefur verið vel við haldið og er í fínasta lagi. Þeir klára bara sitt prógram á næstu dögum og þá fer skipið í vélarskveringu og undirbúning fyrir afhendingu.” Loðnuleit í lok mánaðar Eyþór segir það ekkert nýtt hjá Ísfélaginu að draga úr bolfiskveiðum meðan á loðnuvertíð stendur. Vinnslan verði undirlögð fyrir uppsjávarvinnslu og lítið unnið með bolfisk á meðan svo er. Keyrt verði harðar á bolfiskveiðum þegar loðnuvertíðinni lýkur. Hjá Ísfélaginu eru vanir sjómenn sem eru fljótir að aðlagast nýju skipi og nýjum aðstæðum. Þó segi það sig sjálft að þegar farið er út úr loðnuleysisárum yfir í vertíð eins og framundan er, að alltaf megi búast við því að skóla þurfi einhverja til. Eyþór segir margt velta á því hvernig viðri til veiðanna í vetur. Ísfélagið ætlar að hefja loðnuleit seinni hluta þessa mánaðar að afloknum síldveiðum. Líklega hefjist leitin út af Vestfjörðum en vonandi verði loðna farin að ganga austur eftir einhvern tíma í desember. „Núna er þetta það mikið magn að við þurfum ekki nema brot af okkar kvóta fyrir hrognatökuna. Tíminn fyrir hrognatöku er ekki nema tvær til þrjár vikur. Vinnslan hefur líka takmarkaða afkastagetu en bræðslan bræðir sín þúsund tonn tæp á sólarhring. En það spilar saman núna stór loðnuvertíð og sögulega hátt verð á fiskmjöli. Það er ekkert sem bendir til þess að mjölverð hrynji þótt stefni í góða vertíð hjá okkur. Ísland er ekki það stórt á heimsmarkaðnum að þessi vertíð okkar breyti mjölverði.” Fiskifrettir .is Skrifað af Þorgeir |
Eldra efni
Um mig Nafn: Þorgeir BaldurssonFarsími: 8620479Tölvupóstfang: thorgeirbald62@gmail.comHeimilisfang: Reynihlið 15 D 604 HörgárbyggðStaðsetning: HörgárbyggðUm: Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist SjávarútvegiTenglar
Flettingar í dag: 1318 Gestir í dag: 13 Flettingar í gær: 4063 Gestir í gær: 33 Samtals flettingar: 1120444 Samtals gestir: 52254 Tölur uppfærðar: 18.1.2025 05:49:23 |
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is