15.12.2021 21:47

Rúnar L Gunnarsson hættir á Gullver Ns 12

Rúnar L. Gunnarsson lýkur skipstjóraferlinum

15/12/2021 | Fréttir

Rúnar L. Gunnarsson í brúnni á Gullver NS.
Ljósmynd. Þorgeir Baldursson

Ísfisktogarinn Gullver NS kom til löndunar á Seyðisfirði á mánudagsmorgun. Afli skipsins var 96 tonn, mest þorskur en einnig ýsa, karfi og ufsi. Togarinn hafði verið að veiðum í Berufjarðarál og á Gerpisflaki. Þessi veiðiferð skipsins markaði tímamót því hún var hin síðasta hjá Rúnari L. Gunnarssyni í skipstjórastóli. Rúnar var að kveðja Gullver eftir 37 ára farsæla samveru. Í tilefni þessa ræddi heimasíðan stuttlega við Rúnar.

-Varst þú ungur þegar þú hófst sjómannsferilinn?

Ég fór í mína fyrstu veiðiferð tólf ára gamall. Það var á Vingþóri sem lagði stund á handfæraveiðar við Langanes. Veiðiferðin tók 3-4 daga. Þegar ég var 13 ára réðst ég á bátinn Ólafíu sem var gerð út af manni frænku minnar frá Reykjavík. Ólafía var fyrst á handfærum og síðan á trolli. Þetta var sumarið 1970. Sumarið eftir réðst ég á annan bát sem sami maður átti og hann hét Bjarni Ólafsson. Þá var gert út á rækju. Síðan fór ég á Ásþór RE sem var á línu og netum. Á honum var ég í eitt ár.

-Tókstu snemma ákvörðun um að gera sjómennskuna að lífsstarfi?

Nei, blessaður vertu. Það var engin slík ákvörðun tekin ef ég man rétt. Það gerðist bara. Ég fór í Stýrimannaskólann 18 ára gamall og var þar eins og krakki innan um þá gömlu jaxla sem voru með mér í skólanum. Á milli bekkja í skólanum var ég síðan á sjó á Seyðisfirði.

-Hefurðu ávallt starfað á skipum frá Seyðisfirði eftir að þú laukst stýrimannanáminu?

Já, það hef ég gert. Ég var fyrst á Gullver og síðan á Gullbergi. Gullberg hf. festi síðan kaup á nýjum Gullver árið 1983 og ég hef verið á honum allar götur síðan. Ég hef verið á skipinu í 37 ár en eitt árið tók ég frí frá sjómennsku og starfaði sem hafnarvörður hjá Seyðisfjarðarhöfn. Á núverandi Gullver var ég stýrimaður til að byrja með en hóf að leysa annað slagið af sem skipstjóri árið 1994. Síðan, þegar Axel Ágústsson hætti sem skipstjóri fyrir um áratug, kom að því að ég hóf að gegna skipstjórastarfi á móti Jónasi Jónssyni sem var reynslumikill og farsæll. Þegar Jónas hætti sem skipstjóri fyrir fjórum árum hóf Þórhallur Jónsson að gegna skipstjórastarfi á móti mér. Við höfum átt afar gott samstarf.

-Nú festi Síldarvinnslan kaup á Gullbergi hf. árið 2014 og um áramótin 2016-2017 var Gullberg sameinað Síldarvinnslunni. Urðuð þið sjómennirnir mikið varir við þessar breytingar?

Gullver NS. Nú er samveru Rúnars L. Gunnarssonar og Gullvers lokið eftir 37 ár. Ljósmynd. Þorgeir Baldursson

Ég viðurkenni það að fyrst leist mér ekkert á þessar breytingar en það átti eftir að breytast. Eftir að Síldarvinnslan kom að þessum rekstri gátum við veitt miklu meira en áður – það var miklu meiri kvóti sem við höfðum úr að spila. Það leið ekki langur tími þar til við áttuðum okkur á því að það var margt afar jákvætt sem gerðist með kaupum Síldarvinnslunnar á Gullbergi. Síðan fengum við líka um borð fína menn frá Norðfirði – reynslumikla og áhugasama. Mér skilst að Norðfirðingurinn Steinþór Hálfdanarson muni taka við skipstjórastöðunni núna þegar ég er hættur og það verður enginn svikinn af því.

Hvað ert þú ánægðastur með á þínum skipstjóraferli?

Ég er ánægðastur með að hafa verið heppinn. Það hafa engin alvarleg slys orðið um borð á þeim tíma sem ég hef sinnt skipstjórn og það hafa heldur engin önnur alvarleg óhöpp orðið. Nú er öllum öryggismálum miklu betur sinnt en áður og það er svo sannarlega framfaraskref sem skiptir máli.

Hvað á að gera núna þegar skipstjóraferlinum er lokið?

Ég ætla að byrja á því að fara með konunni minni, Jóhönnu Gísladóttur, til Svíþjóðar og njóta samvista við barnabörnin. Annars ætla ég bara að njóta lífsins til hins ítrasta. Þegar ég var að taka lokaholið í síðasta túrnum hringdi minn gamli skipstjóri, Jónas Jónsson, í mig og sagði að ég þyrfti engu að kvíða eftir starfslokin og ég myndi hafa nóg fyrir stafni. Hann sagðist tala af reynslu. Annars hringdu þeir strax úr fiskimjölsverksmiðjunni hér á Seyðisfirði og buðu mér vinnu. Ég get alveg hugsað mér að fara einn og einn túr sem stýrimaður ef þörf verður á en nú er komið að því að horfa til framtíðar áhyggjulaus og glaður.

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 1362
Gestir í dag: 41
Flettingar í gær: 3737
Gestir í gær: 72
Samtals flettingar: 1060778
Samtals gestir: 50944
Tölur uppfærðar: 21.12.2024 16:34:56
www.mbl.is