27.01.2022 13:55

Langur en gjöfull brælutúr

                                  1868 Helga Maria RE 1 Mynd þorgeir Baldursson 2022

Helga María AK endaði veiðar á Suðvesturmiðum eftir veiðar á Vestfjarðamiðum. Ágætur afli en erfið veður.

Ísfisktogarinn Helga María AK endaði síðasta túr á Suðvesturmiðum en þangað var siglt í brjáluðu veðri frá Vestfjarðamiðum. Löngum túr er að ljúka hjá áhöfninni en siglt var frá Reykjavík fyrir rúmri viku.

„Það er óhætt að segja að veðrið hafi ekki verið gott lengst af túrnum. Við hófum veiðar á Þverálshorni en færðum okkur svo yfir á Kögurgrunn. Uppistaðan í aflanum var þorskur en þessum afla lönduðum við á Ísafirði eftir að hafa leitað þar hafnar sl. föstudag. Þá var komin haugabræla og ekki um annað að ræða en að leita vars,” segir Friðleifur Einarsson, skipstjóri á Helgu Maríu, í viðtali við heimasíðu Brims.

Á Ísafirði var um 70 tonnum af fiski úr Helgu Maríu skipað í land en þaðan var svo siglt á laugardeginum eftir að veðrið gekk niður

„Við hófum veiðar að nýju á Straumnesbankanum. Færðum okkur svo yfir í Þverálinn en þar var ýsa alls staðar að þvælast fyrir okkur. Við fórum svo í Víkurálinn þar sem karfaveiði var ágæt og mér telst til að við séum nú komnir með um 65 tonn, nokkurn veginn þorsk og karfa til helminga,” segir Friðleifur.

Ísfisktogarar Brims hafa töluvert gert af því að landa afla í Grundarfirði síðustu vikurnar en frá norðanverðu Snæfellsnesi hefur aflanum verið ekið til vinnslu í fiskiðjuveri Brims í Reykjavík. Friðleifur segir að í þessu felist mikið hagræði og sparnaður fyrir skipin ef þau stundi veiðarnar á Vestfjarðamiðum. 

„Við höfum landað í Grundarfirði og mér sýnist það spara okkur um 120 mílna siglingu fram og til baka að landa í Grundarfirði miðað við löndun í Reykjavík. Þannig að ef túrarnir eru bara fólgnir í veiðum á Vestfjarðamiðum er hagræðið óumdeilanlegt,” segir Friðleifur.

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 2696
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 4063
Gestir í gær: 33
Samtals flettingar: 1121822
Samtals gestir: 52256
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 06:10:23
www.mbl.is