12.03.2022 09:21Látlausar brælur, samt unnið alla daga í landvinnslum
Svo að segja látlausar brælur á miðunum hafa sett stórt strik í reikninginn hjá togaraflotanum. Pálmi Gauti Hjörleifsson skipstjóri á Björgúlfi EA 312 segir veðrið í janúar og febrúar með miklum ólíkindum, veðrið og veðurhorfur hafi í raun stjórnað því hvar sé veitt hverju sinni. Þrátt fyrir ótíðina hefur tekist að halda úti starfsemi í vinnsluhúsunum á Dalvík og Akureyri frá 3.janúar, aldrei hefur þurft að fella niður vinnslu vegna skorts á hráefni. Pálmi Gauti skipstjóri segir að oft á tíðum hafi þurft að gera hlé á veiðum vegna brælu, öryggi áhafnarinnar sé alltaf í fyrirrúmi. Hann segir að lægðirnar í vetur hafi verið óvenjulega stórar og djúpar og því lítið annað að gera en að bíða þær af sér. Skiptir öllu að hafa stór og öflug skip
„Það hafa verið brælur á öllum miðum, veðrið stjórnar einfaldlega veiðunum og hvar við erum hverju sinni. Björgúlfur er stórt og öflugt skip, sem hefur aldeilis komið sér vel í vetur og sýnir og sannar hversu nauðsynlegt það er fyrir okkur Íslendinga að hafa á að skipa öflugum flota, sem auk þess fer vel með mannskapinn í svona veðrum. Á svona skipi eins og Björgúlfi er það ekki veltingurinn sem stjórnar því hvenær við þurfum að hætta veiðum vegna veðurs, heldur skynsemin. Það er ekki viturlegt að vera að í miklum og mjög vondum veðrum, því ef eitthvað kemur upp á, má segja að öll vandamál margfaldist og hættan sem mannskapurinn er settur í við störf sín á dekkinu magnast. Þá skiptir öllu máli að vera á góðu og traustu skipi og bíða af sér veðrið, það er bara þannig. Þessi nýju og stóru skip eru bylting frá þeim skipum sem þau leystu af hólmi, ég tel að öryggi og aðbúnaður manna hafi stóraukist við þessar fjárfestingar. Þetta atriði hefur ekki fengið nægt vægi í allri umræðunni um sjávarútveg.“ Veðrið stjórnar hvar veitt er
„Þessi túr sem við erum í núna er á margan hátt dæmigerður. Við byrjuðum að kasta fyrir norðan og sigldum fljótlega austur á bóginn vegna þess að veðrið er hagstæðra, hérna erum við í blönduðum tegundum. Þegar við erum að undirbúa veiðiferð er veðurspáin það fyrsta sem er þarf að skoða og gaumgæfa. Staðan er einfaldlega sú að þessar vikurnar og mánuðina velur maður sér veiðisvæði eftir veðurspám.“
Unnið alla daga í landi, þrátt fyrir ótíðina Veiðar, vinnsla og sala afurða þurfa að fara saman til þess að ná sem bestum árangri. Landvinnslur ÚA á Akureyri og Samherja á Dalvík þurfa á bilinu 140 til 200 tonn af fiski til vinnslu á dag, fimm togarar félaganna sjá vinnslunum fyrir hráefni. Veiðarnar þarf að skipuleggja með tilliti til afkastagetu vinnsluhúsanna og eftirspurnar á mörkuðum. Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja segir að veturinn hafi vissulega verið snúinn hvað þetta varðar. Engu að síður sé staðreyndin sú að unnið hafi verið alla virka daga ársins frá 3. janúar. Tveggja daga vetrarfrí í tengslum við frí í grunnskólum nú í byrjun mars sé í raun fyrsta stoppið í vinnsluhúsunum. Afrek að halda úti fullri vinnslu
Sólveig Sigurjónsdóttir verkstjóri í landvinnslu ÚA á Akureyri segir mikilvægt að vinnslan stöðvist ekki vegna skorts á hráefni.
„Já, það skiptir máli, bæði fyrir starfsfólkið og svo auðvitað viðskiptavinina, sem panta með töluverðum fyrirvara og treysta á afhendingu á umsömdum tíma. Þetta hangir allt saman, veiðar, vinnsla og sala. Auðvitað veit allt starfsfólkið í landi að brælurnar hafa skapað erfiðleika við veiðar en sem betur fer hefur tekist að halda úti stanslausri vinnu alla daga frá áramótum í landi og það er visst afrek.“ Skrifað af Þorgeir |
Eldra efni
Um mig Nafn: Þorgeir BaldurssonFarsími: 8620479Tölvupóstfang: thorgeirbald62@gmail.comHeimilisfang: Reynihlið 15 D 604 HörgárbyggðStaðsetning: HörgárbyggðUm: Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist SjávarútvegiTenglar
Flettingar í dag: 526 Gestir í dag: 38 Flettingar í gær: 1455 Gestir í gær: 74 Samtals flettingar: 991947 Samtals gestir: 48545 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:27:28 |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is