16.04.2022 10:56

Rokkarinn GK 16 á Hrefnuveiðar

            1850 Rokkarinn Gk 16 mynd þorgeir Baldursson 2019

Þröstur Sigmundsson veiddi eina hrefnu á bát sínum síðasta sumar. Aðrir hafa ekki veitt hrefnu hér við land síðan 2018.

„Ég get alla vega sagt að ég stefni á það í sumar að fara á hrefnuveiðar,“ segir Þröstur Sigmundsson á Rokkaranum GK 16, fjórtán metra bát sem gerður er út frá Grindavík. „Það hefur náttúrlega verið frekar lítil veiði á þessu, allir aðrir eru hættir.“

Á árunum 2003 til 2018 stunduðu 3-5 bátar hrefnuveiðar hér við land, en síðasta árið voru einungis 6 hrefnur veiddar. Engin hrefnuveiði var síðan stunduð á árunum 2019 og 2020, en 2021 veiddist ein hrefna og það var Þröstur sem veiddi hana.

„Já, ég veiddi eina í ágúst í fyrra, og það var gert líka til þess að vera þá búinn að taka eina í gegnum vinnsluna, það yrði þá klárt núna.“

Lokað fyrir

Ástæðan fyrir því að enginn hélt á hrefnuveiðar árið 2019, og sárafáir árið 2018, er fyrst og fremst sú að dregin var lína þvert yfir Faxaflóa sem ekki mátti veiða innan. Þröstur segir að á þessu svæði hafi um 80% veiðinnar fengist að jafnaði árin á undan.

„Þetta varð til þess hjá mér að ég gat ekki haldið þessu áfram eins og ég hafði verið að gera þetta. Veiðisvæðið var bara svona og ráðherra lokaði því.“

Eftir að þessu gjöfula svæði var lokað er ekki lengur hægt að ganga að hrefnunni vísri þar. Svipast þarf um eftir henni á öðrum slóðum, og þar kemur stórt hafsvæði til greina. Þröstur segir þetta valda því að veiðiskapurinn verði allt öðru vísi.

„Þá verður allt erfiðara. Og þegar það er bara einn bátur verður þetta ennþá erfiðara, það er betra þegar tveir eða þrír eru að leita saman. En svo er fleira sem spilar inn í þetta, bæði verð og frystikostnaður og eftirlit og allt þetta, en það er bara eins og gerist og gengur í þessu. Það er alltaf erfiðara fyrir minni aðila að standa í slíku.“

Hrefna sést víða

Hann ber sig þó vel og segir að töluvert sjáist til hrefnu víðs vegar í kringum landið.

„Menn voru svona að hringja í mig í fyrra félagar af sjónum, þeir eru alveg að sjá töluvert af hrefnu. Hún er mjög víða. En ég stefni alla vega á að kíkja eitthvað á þetta, þó ég verði kannski ekki á fullu í þessu.“

Hann segir markaðinn eingöngu vera innanlands.

„Þetta er bæði selt í búðir og á veitingastaði. Ætli það hafi ekki verið um það bil helmingur í búðir og helmingur á veitingastaði. En eins og þetta er hugsað, þá er innanlandsmarkaðurinn alveg nóg ef það eru einn eða tveir í þessu. Það er eftirspurn eftir kjötinu. Menn hafa verið að flytja inn hrefnu frá Noregi.“

Meðfram hrefnunni ætlar Þröstur á strandveiðar í sumar, rétt eins og undanfarin ár.

„Strandveiðar hafa alveg lagast frá því fyrir um tvemur árum upp á verð og svoleiðis. Mér finnst það mjög fínt fyrirkomulag að þú hafi einhverja möguleika, og það er náttúrlega búið að laga það kerfi heilmikið frá því þetta byrjaði.“

Heimild Fiskifrettir 2022

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 1527
Gestir í dag: 51
Flettingar í gær: 1455
Gestir í gær: 74
Samtals flettingar: 992948
Samtals gestir: 48558
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:48:29
www.mbl.is