27.04.2022 20:56

likanasmiði úr 100 ára gamalli eik

Smíðar Frosta úr upprunalegu eikinni

Guðjón Guðmundsson
17. apríl 2022 kl. 09:00
Elvars Antonsson, módelsmiður á Dalvík, er hér að leggja lokahönd á smíði eikarbátsins Frosta ÞH. Mynd/Þorgeir Baldursson

Elvar Antonsson á Dalvík hefur helgað sig módelsmíði.

Hagir Elvars Antonssonar módelsmiðs á Dalvík hafa breyst frá því hann sagði frá því í viðtali við Fiskifréttir fyrir um það bil fjórum árum að hann væri að hefja smíði á kútternum Fríðu RE. Elvar hafði fram að því haft að aðalstarfi að smíða mót fyrir Sæplast á Dalvík en eftir viðtalið brast holskefla fyrirspurna og sá hann sér ekki annað fært en að helga sig alfarið módelsmíðinni.

Á þessum fjórum árum hefur hann smíðað fjögur módel og það fimmta er í burðarliðnum. Elvar segir að fyrirspurnir og pantanir um smíði á líkönum berist að stærstum hluta frá áhugasömum einstaklingum sem vilja varðveita söguna. Þetta eru menn sem hafa ástríðu fyrir því að núlifandi kynslóð skili frá sér þeirri sögu hvernig við gerðum landið í raun byggilegt með sjósókn. Hann segir ömurlegt til þess að hugsa að fyrirmyndirnar að margar séu látnar grotna niður í hirðuleysi um menningararfinn. Aðrar þjóðir sem eiga mikið undir sjávarútvegi hafi staðið sig mun betur á þessu sviði og nefnir hann Færeyinga til dæmis um það.

Elvar lauk smíðinni á Fríðu RE rétt áður en heimsfaraldurinn reið yfir í febrúar 2020. Pestin riðlaði öllum fyrirætlunum en til stóð að sýna skipið með pompi og prakt í Minja- og sögusafninu Kvikunni í Grindavík að viðstöddum menntamála- og sjávarútvegsráðherra. Af því hefur ekki orðið enn. En Fríða er ein af gersemunum má berja má augum á safninu.

Ótrúlegt björgunarafrek

Elvar hafði neyðst til að gera hlé á ferð sinni suður yfir heiðar vegna illviðris og var staddur á Laugarbakka þegar tal náðist af honum. Hann ætlaði til Reykjavíkur af afhenda Þorsteini Vilhelmssyni aftur módelið af Akureyri EA sem hann hafði fengið lánað til að hafa á sýningunni sinni á Glerártorgi í desember á síðasta ári. Akureyrin er elsta módel Elvars, smíðað 1998.

  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  • Elvar ásamt líkani sínu af Mánabergi ÓF 42 og sýnir vel hversu stór sum þeirra eru. Mynd/Þorgeir Baldursson

Helsti hvatamaðurinn að smíði Fríðu ER var Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar í Grindavík, og fyrrverandi forseti Slysavarnafélags Íslands og síðar formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

„Mér tókst alveg blessunarlega mjög vel upp með módelið af Fríðu. Það er tæpir þrír metrar á lengd og var alveg eitt og hálft ár í smíðum. Það stóð til að ég færi til Hull til skoða City of Edinboro eins og kútterinn heitir núna, þar sem hann er uppi á landi og grotnar niður. En af því varð aldrei,“ segir Elvar.

Eitt mest björgunarafrek íslenskrar sjóslysasögu var unnið af áhöfninni á Fríðu RE laugardaginn 11. mars 1911. Þá var Fríða RE 13 á heimleið með fullfermi fisks þegar tók að hvessa af suðaustri og gerði á skammri stundu hið versta veður, hávaðarok og slydduhríð. Á sama tíma voru sjö opnir róðrarbátar á sjó frá Grindavík.

Þótti strax sýnt að Grindavíkurbátarnir myndu ekki ná landi. Einum bát af sjö heppnaðist þó áfallalaus lending en aðrir urðu frá að hverfa. Samtals voru 58 manns á bátunum sex sem enn voru á sjó. Skemmst er frá því að segja að það tókst að koma 57 mönnum heilu og höldnu um borð í Fríðu.

„Ég hafði einsett mér að gera módelið eftir smíðateikningum en þær eru víst af skornum skammti. Skrokkurinn er enn þá til úti í Hull og það er verið að taka myndir af honum fyrir mig og mæla hann upp. Það stendur jafnvel til að við förum tveir út til að skoða hann,“ sagði Elvar í viðtalinu í Fiskifréttum í mars 2018.

Áttæringur í fullri stærð

Með Elvari til Hull ætlaði líka Ólafur Sigurðsson skipstjóri í Grindavík og góður vinur Gunnars Tómassonar,  sem hafði líka hvatt mjög til smíði módelsins. Ekkert varð þó að utanför þeirra félaga. Ólafur gerði á sínum tíma út línuskipið Hrungnir GK sem áður hét Bjarmi II EA þegar það strandaði við Garðskaga 1965. Ólafur keypti skipsflakið, gerði það upp, lét byggja yfir bátinn og gerði út til netaveiða. Hann gerði það líka út til uppsjávarveiða, þar á meðal loðnuveiða. Ólafur er mikill hvatamaður að því að smíðaður verði áttæringur af fullri stærð eins og grindvísku sjómennirnir voru á sem björguðust um borð í Fríðu RE. Til verksins hefur verið fenginn Hafliði Aðalsteinsson bátasmiður á Reykhólum. Hann hefur getið sér gott orð fyrir smíði á Breiðfirðingum, árabátum sem svonefndu Breiðafjarðarlagi sem Elvar segir að hafi ekki verið svo ólíkir grindvísku árabátunum.

  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  • Nokkur af líkönum Elvars; hér er Akureyrin EA, skip Samherja í forgrunni en Sólberg ÓF 1, glæsilegur frystitogari Ramma Elvari á vinstri hönd. Mynd/Þorgeir Baldursson

Freigáta „Hundtyrkja“ næst á dagskrá

Næsta verkefni Elvars er að smíða módel af freigátu sjóræningja sem siglt var upphaflega frá Salé í Marokkó og kom til Grindavíkur 20. júní 1627. Þeir rændu bæina og tóku 15 manns höndum sem seldir voru í ánauð í Salé. Um svipað leyti gerði önnur freigáta frá Alsír mikið og óhugnanlegt strandhögg í Vestmannaeyjum.

Forsaga þess að smíði á líkani freigátunnar er á döfinni er meðal annars sú að bandarískur starfsmaður Varnarliðsins í Keflavík, sem Hallur Gunnarsson, formaður Minja- og sögufélagsins í Grindavík var málkunnugur, hafði heillast mjög af þessum óhugnanlegu atburðum og skrifaði bók um freigátuna eftir talsverða rannsóknavinnu.

Hópur manna og kvenna í Grindavík og víðar hefur áhuga á að koma upp líkani af freigátunni í bænum og hafa nú fengið Elvar til að smíða það. Hann segir þetta stórt verkefni sem muni taka talsverðan tíma að ljúka. Líkanið á að vera í hlutföllunum 1:50 sem þýðir að það verður um 1,50 metrar á lengd. Upphaflega var talið að freigátur sjóræningjanna sem komu í tvígang til Íslands hefðu verið umtalsvert stærri en Fríða RE. Rannsóknir Bandaríkjamannsins leiddu þó í ljós að svo var alls ekki. Freigáturnar voru ekki mikið stærri en kútterarnir voru hérna á Ísland mun síðar. Þetta verkefni á hug Elvars allan núna.

  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  • Nákvæmnin í smíði Elvars vekur alltaf athygli áhugamanna. Báturinn er Sigurbjörg ÓF 1. Mynd/Þorgeir Baldursson

Frosti úr upprunalegu eikinni

Módelin sem Elvar hefur smíðað frá því hann lauk við Fríðu RE árið 2000 eru togararnir Frosti ÞH, Hákon EA, Guðbjörg ÓF og nú er hann að ljúka smíði á trébátnum Frosta ÞH.

„Þessi bátur var smíðaður í bátasmiðjunni Vör á Akureyri 1973 ásamt tveimur öðrum sams konar. Þeir voru þrír sem fóru á Grenivík, þ.e. Frosti, Ægir Jóhannsson og Vöttur. Þetta þóttu gríðarlega fallegir eikarbátar.“

Bátasmiðjan Vör var stofnuð á Akureyri 1971 af Hallgrími Skaptasyni og fleirum. Elvar leitaði til Hallgríms eftir teikningu að bátnum.

„Hallgrímur hafði geymt nokkra planka úr búntinu frá því þessir bátar voru smíðaðir árið 1970. Þeir hafa legið við hús hans í öll þessi ár. Þetta var pólsk eik og Hallgrímur sagði plankana hvergi betur komna en hjá mér. Það er ákveðin áskorun í því fyrir mig að nota sömu eikina í líkanið. Timbrið var búið

 
  • að vera úti í slagviðri og snjókomu öll þessi ár og orðið kolsvart á yfirborðinu. Ég lét saga það niður og notaði í skrokkinn á Frosta þannig að líkanið er gert úr sama efni og fyrirmyndin var smíðuð úr. Mér telst til að þessi eik sé orðin eitt hundrað ára gömul.

Fyrirmyndin að líkaninu, þ.e.a.s. gamli Frosti, er enn í notkun og heitir nú Láki og er notaður til hvalaskoðunarferða í Grundarfirði. Elvar segir það merkilegt við bátana sem Vör smíðaði að þeir eru nánast allir enn þá á floti. Þeir voru vandaðir að allri gerð og mjög skrokkfallegir. Elvar er nú að leggja lokahönd á smíðina enda ekki seinna vænna því freigátan marokkóska bíður.

Geir Zoëga kaupir Fríðu

Skútan var smíðuð í William McCann‘s skipasmíðastöðinni í Hull árið 1884 og var gefið nafnið City of Edinboro. Hún var hluti af stórum skútuflota útgerðarfyrirtækisins Simpson and Bowman. Fyrstu 13 árin var hún við veiðar í Norðursjó.

1897 keypti Geir Zoëga útgerðarmaður skútuna til Reykjavíkur og hún fékk þá nafnið Fríða RE 13. Skútuna gerði hann út til línuveiða í ellefu ár.  Haustið 1902 kom Halldór Kr. Þorsteinsson, Halldór í Háteigi,  heim frá Bandaríkjunum.  Geir Zoëga endurnýjaði þá eldra tilboð um að ráða hann sem skipstjóra á Fríðu og við það staðnæmdist Halldór hér heima.
1908 var skútan seld til útgerðarinnar Sjávarborgar í Hafnarfirði og þremur árum síðar lék hún aðalhlutverkið í björgun á 57 Grindvíkingum á árabátum í foráttuveðri skammt undan Krísuvíkurbjargi.

Fríða í Færeyjum

1913 keypti færeyski útgerðarmaðurinn Niels Juel Mortensen Fríðu sem fékk skráningarnúmerið TG546 og var gerð út til línuveiða frá Þórshöfn í Færeyjum. 1924 var litlum hjálparmótor komið fyrir í skútunni sem hélt þó öllum seglbúnaði. Um leið fékk hún nafnið Solvaborg. 1943 var hún seld færeyska útgerðarmanninum Ola Olsen og endurskírð Solvasker. Viðarstýrishús var sett á skútuna og hún gerð út frá Vestmanna í Straumey. 1957 var aflmikil dísilvél sett í skútuna og hún endurskírð Sjoborgin og fékk skráningarnúmerið FD48. 1961  var allur seglbúnaður fjarlægður úr henni og stýrishúsi úr stáli komið fyrir. Enn á ný skipti hún um eigendur árið 1962 þegar Hans Petur Hojgaard í Færeyjum keypti hana.

  • Líkan Elvars af Fríðu RE. Aðsend mynd

Aftur til Englands

Loks árið 1980 komst Fríða aftur eigu Englendinga þegar Dr. Henry Irving kaupir hana og siglir henni til Hull. Þar er aftur settur í hana seglbúnaður, stýrishúsið fjarlægt og aðstaða útbúin fyrir ellefu manns. Fjórum árum seinna er hún endurskírð William McCann og var siglt um vesturströnd Evrópu í áætlunarsiglingum með heimahöfn í Hull, Bristol, Penzance, Ramsgate og loks Douarnenez í Frakklandi. William McCann sjóðurinn í Hartlepool, sem kenndur er við skipasmiðinn sem smíðaði skútuna,  eignaðist hana árið 1994 og tveimur árum síðar var hún endurskráð sem City of Edinboro.

Árið 2000 keypti Excelsior sjóðurinn skútuna af William McCann sjóðnum á eitt pund. Hún var á floti fram til 2004 þegar var hún tekin á land.

  • Fríða á þurru og heitir nú William McCann eftir skipasmíði sínum. Aðsend mynd
  •  

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 2319
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 1455
Gestir í gær: 74
Samtals flettingar: 993740
Samtals gestir: 48564
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 11:09:39
www.mbl.is