Gullver NS kom til heimahafnar á Seyðisfirði að aflokinni rúmlega fimm sólarhringa veiðiferð sl. sunnudag. Frá því segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar að landað var úr skipinu 105 tonnum.
Þórhallur Jónsson skipstjóri segir að þokkalega hafi aflast í túrnum.
„Aflinn var blandaður en mest var af karfa. Þetta var engin veisla en aflabrögðin voru tiltölulega jöfn. Þorskurinn var ekkert alltof viljugur að láta sjá sig en hins vegar var ekki þverfótað fyrir ýsu. Það virðist alls staðar vera fullt af ýsu. Við vorum að veiðum á svæðinu frá Litladýpi að Lónsdýpi og vorum töluvert í Berufjarðarálnum,“ segir Þórhallur.
Gullver hélt á ný til veiða á þriðjudagskvöld en skipstjóri í veiðiferðinni er Hjálmar Ólafur Bjarnason. Þetta er annar túrinn sem hann fer með skipið.