1958 Fannar EA 29 mynd þorgeir Baldursson 2022
AF vef Fiskifretta
Fiskistofa hefur gefið út að síðasti dagur strandveiða sé runninn upp, að óbreyttu. Aflaheimildir verði uppurnar áður en ágústmánuður hefst.
„Samkvæmt rauntíma upplýsingum Fiskistofu eru eftir rétt um 400t af þorski í pottinum, og hafa þá ekki allar löndunartölur dagsins í dag verið teknar inn. Meðalafli á dag er um 350t og telur Fiskistofa meiri líkur en minni að potturinn klárist á morgun," segir í tilkynningu frá Fiskistofu í gær.
Á vef Landssambands smábátaeigenda sagði þó í gær að miðað við veiði undanfarna daga sé „líklegt að síðasti dagur strandveiða 2022 verði mánudagurinn 25. júlí. Það fer þó eftir því hver aflinn verður í dag og á morgun og væntanleg veðurspá fyrir mánudaginn.“
„Það gæti alveg gerst að við fáum bara einn eða tvo daga í næstu viku,“ sagði Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, þegar Fiskifréttir ræddu við hann í vikunni. Ekki virðist sú spá ætla að rætast úr því sem komið er, en lengi hefur verið fyrirséð að lokað verði á strandveiðar áður en ágústmánuði lýkur, rétt eins og gerðist í fyrra og hittifyrra. Þorskaflinn er kominn yfir 10.000 tonn, sem þýðir að ekki eru nema um þúsund tonn eftir að heimildum sumarsins. Að meðaltali hefur þorskaflinn verið 232 tonn á dag hjá þeim 710 bátum sem landað hafa afla.
Í vor var gefin út reglugerð sem heimilar bátunum að landa 10.000 tonnum af þorski, auk 1.000 tonna af ufsa og 100 tonna af gullkarfa. Í byrjun júlí bætti Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra 1.074 tonnum af þorski í þennan pott, en ljóst er að það dugar ekki til að veiðar haldi áfram út ágústmánuð. Enn bendir fátt til þess að meira eigi eftir að bætast við.
Yfir 700 bátar
Yfir 700 bátar hafa verið að veiðum og hafa þeir ekki verið fleiri síðan 2012. Örn segir ósköp eðlilegt að fleiri leiti í strandveiðarnar. Verð í hæstu hæðum og aflaheimildir kvótabáta verið skertar.
„Það er bara sjálfsagður hlutur og leiðir til þess að meiri afla þarf í kerfið. Þegar um handfæraveiðar á aldrei að hika við það að hugsa til þess að það verði nóg í 48 daga kerfinu. Þetta er eins og með línuívilnun og annað slíkt. Það er öllum opið, en ákveðnar reglur sem þarf að fara eftir.“
Spurður út í hagkvæmni strandveiðanna samanborið við aðrar veiðar stendur ekki á svari:
„Meðalverð er yfir 400 krónur fyrir kílóið, og það er 28-30% hærra en verðlagsstofuverðið. Þetta þýðir náttúrlega meiri tekjur fyrir hafnir og aðra þjónustuliði sem taka mið af aflaverðmæti. Skilar sér í hærri tekjum fyrir byggðirnar. Eins fyrir þessar litlu vinnslur, að halda þeim gangandi og mörkuðum erlendis yfir sumarið. Þetta er algerlega klárt mál og það á ekkert að hika við að tryggja 48 daga til strandveiða.“
Fjórir milljarðar
Landssamband smábátaeigenda tekur reglulega saman tölur um strandveiðar, unnar upp úr tölum frá Fiskistofu, og birtir á vef sínum.
Þar kemur fram að aflaverðmætið það sem af er vertíðinni er áætlað ríflega 4,3 milljarðar og er það 74% meira en á sama tímabili sumarið 2021 þegar verðmætið var komið í 2,5 milljónir.
Kílóverðið fyrir óslægðan þorsk á fiskmörkuðum hefur verið að meðaltali 407 krónur frá 2. maí, þegar veiðarnar hófust, og það er 26% hækkun milli ára. Fyrir ufsann hafa fengist 189 krónur fyrir kílóið og er það hækkun upp á 92%.
Eins og áður hefur aflinn verið langmestur á A-svæðinu, sem nær yfir norðvestanvert landið. Þar hafði nærri 6.400 tonnum verið landað, en það er meira en helmingur alls afla sumarsins.
|