3013 Sólborg RE 27 Mynd þorgeir Baldursson 18 ágúst 2022
Stjórn Útgerðarfélags Reykjavíkur hf. (ÚR) hefur ákveðið að selja frystitogarann Sólborgu RE-27 ásamt allri aflahlutdeild ÚR í makríl, loðnu, veiðiheimildir í Barentshafi og 11,42% af aflaheimildum í gullaxi, að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu.
Þar segir að kaupandinn sé óstofnað dótturfélag að fullu í eigu ÚR og að söluverðmætið sé 12,3 milljarðar króna. Þá var bókfært virði eignanna 41,7 milljónir evra um síðustu áramót, jafnvirði um 5,8 milljarða íslenskra króna, eða um 8,3% af eignum ÚR eins og þær voru um síðustu áramót í samstæðuársreikningi ÚR.
Áhöfninni sagt upp í sumar
Áætlanir ÚR gera ráð fyrir að skipið verið gert út í óbreyttri mynd í eigu hins óstofnaða félags.
Fyrr í sumar var sagt frá því að allri áhöfn Sólborgar hefði verið sagt upp og að til stæði að kaupa annað skip.
Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri, segir í samtali við 200 mílur að ekki sé til skoðunar nú að festa kaup á nýju skipi. „Þegar verið er að reka stórt fyrirtæki er alltaf verið að skoða marga möguleika og sífellt þörf á að taka ákvarðanir eftir breyttum aðstæðum,“ segir hann og kveðst ekki ætla að tjá sig öðru leiti.
Þegar til uppsagnanna kom í sumar hafði ÚR gert skipið út í minna en ár, en upphaflegur tilgangur kaupa ÚR á Sólborgu var sagður vera veiðar í Barentshafi. Lögsaga Rússlands lokaðist fyrir íslenskum skipum í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu.
Fréttin var uppfærð kl 16:04 með svörum Runólfs Viðars Guðmundssonar.
heimild mbl.is
|