20.10.2022 20:31

Húni 2 EA 740

                                                                                                       108 Húni 11 EA 740 mynd þorgeir Baldursson 

                Þorsteinn Pétursson ásamt nokkrum hollvinum Húna i kaffispjalli mynd þorgeir Baldursson 

Saga Húna á www.aba.is

smiðaár 1963. Eik og fura. Stokkbyrðingur. Þilfarsskip.
Eikin í skipið kom frá Ameríku og nefndist Hvíteik eða Sumareik en svo heitir eikin þegar tréin eru felld í fullum skrúða.
Stærð samkvæmt skráning Siglingastoofnunar er 117.98 brl. ( 27,78 x 6,36 x 3,37 )
Samkvæmt ritinu "Íslensk skip" er skipið sagt vera 132 brl. stórt.
Í sama riti er skipið sagt endurmælt árið 1967 og þá mælst 119 brl. og síðan endurmælt aftur 1969 og þá sagt 103 brl. stórt.  
Vél 460 ha. Stork við 600 sn/mín.
Tvisvar hefur veri skipt um vél í skipinu og í bæði skiptin voru settar í það Mitsubishi 650 hestafla vélar við 1600 sn/mín..
Fyrri Mitsubishi var í bátnum til ársins 1986 en fór þá eftir endurgerð um borð í Sigurð Lárusson SF. en er nú aðalvélin í Jóhönnu ÁR-206   (1043)
Seinni vélin, og sú sem nú, árið 2018, er í Húna er komin úr Smines SF-140-S, Noregi sem áður hét Huginn II VE 55 (248) Vestmannaeyjum.
Vél þessi er árgerð 1986 og er talið að hún hafi farið niður í Smines á árinu 1988 eða 1989.
Smines fór í brotajárn snemma árs 1991, vegna sjótjóns sem báturinn varð fyrir, en vélin úr skipinu var hirt og er nú um borð í Húna II EA-740 sem áður er sagt.
Skipið var smíðaður fyrir Húna hf. Höfðakaupstað og var í eigu kaupanda í níu ár.
Að Húna hf. stóðu meðal annarra Hákon Magnússon, skipstjóri og Björn Pálson, alþingismaður frá Löngumýri í Austur HúnavatnssýsluEkki var deilt um Löngumýrar Skjónu við uppgjör skipsins en rekistefna varð þó um eikina í verklok, sem endaði fyrir dómsstólum.
Mun Björn hafa uppástaðið að eikin, sem í bátinn fór, hafi verið svo vel við vöxt að stöðin hafi smíðað einn til tvo báta úr afganginum.
Í sjálfu sér hefði það ekki átt að skipta Björn nokkru máli þó að tíu bátar hefðu verið smíðaðir úr þessum eikarafgangi, hafi hann þá einhver verið, því að skipið var smíðað fyrir fast verð eftir því sem best er vitað.
Nær mun vera að Björn hafi þarna verið köllun sinni trúr og efnt til málareksturs út af uppgjörinu svona rétt til að krydda tilveruna.
Mikið var lagt í að skipið liti sem best út og var sérstaklega til innviða vandað. Í káetu voru þrír klefar allir með handlaugum og gólf teppalögð en áður hafði slíkur íburður ekki þekkst um borð í fiskiskipi.  
Einnig var mjög til brúar skipsins vandað. Hún var smíðuð niður á gólfi við hlið skipsins, sem voru nýmæli, og síðan hífð um borð fullsmíðuð. Einnig voru það nýmæli að framhluti brúar hallaði fram og gaf þessi tilhögun meira rými fyrir siglingar- og fiskileitartæki auk betri yfirsýnar yfir þilfarið.
Byrði brúarinnar var haft úr áli og það hnoðað með álhnoðum á járnvinkla.
Árið 2018 er enga tæringu í álinu að finna, sem segir þá sögu að vel hefur tekist til með einangrun á milli áls og stáls.
Þar sem Húni II mun nú vera eitt af örfáum lítið breyttum skipum sinnar stærðar í eigu Íslendinga þá verður saga hans rakin aðeins nánar. 
Frá Skagaströnd fór skipið til Einis hf. Hornafirði 24. ágúst árið 1972 og fékk þá nafnið Haukafell SF-111 en Haukafell er fjall vestan Hafnar í Hornafirði.
Að Eini hf. stóðu Eymar Ingvarsson og Sigfinnur Gunnarsson báðir frá Hornafirði.
Við sölu skipsins til Einis hf. lagði Björn á Löngumýri mikla áherslu á að skipið fengi hið skjótast nýtt nafn þar sem Húnanafnið hefði ekki fært eigendum þess mikla gæfu.
Í það fyrsta hefði kviknað í skipinu í Hafnafjarðarhöfn og þá jafnvel komið til tals að sökkva því til að slökkva eldhafið og í annan stað hefði verið siglt á síðu þess og skemmt það verulega.
Samkvæmt skráningu Siglingastofnunar er Skinney hf. Hornafirði skráður eigandi skipsins frá árinu 1986 en nafnbreyting verður ekki á því fyrr en árið 1990 yfir í Haukafell SF-40. 
Árið 1991 keypti Hólanes hf. Skagaströnd skipið og fékk það þá nafnið Gauti HU-59. 
Í eigu Hólaness stundaði skipið fyrst og fremst rækjuveiðar.
Við gjaldþrot Hólaness hf. árið 1993 kom Skagstrendingur hf.  Skagaströnd að málinu sem skráður eigandi.
Á þessu gjaldþrota ári 1993 fór skipið aftur á Hornafjörð og hét þar í fyrstu Gauti SF-110 en fékk á sama ári nafnið Sigurður Lárusson SF-110.
Skráður eigandi frá árinu 1994 var Mars ehf. Hornafirði og hét skipið þá Sigurður Lárusson SF-114. 
Árið 1996 keypti Þorvaldur Hreinn Skaftason Hafnafirði skipið og setti það á skipaskrá undir nafninu Húni II Höfðakaupstað HU.
Árið 1998 hét skipið Húni ll HF., Hafnarfirði og skráður eigandi þess Húnaströnd ehf.
Frá árinu 2006 hefur skipið verið í eigu Iðnaðarsafnsins á Akureyri.
Skipið var gert úr í 30 ár frá 1963 til 1994 og bar að landi yfir 32.000 tonn af sjávarfangi undir neðanskráðum nöfnum:
Frá árinu 1963 hét skipið Húni II HU-2, Skagaströnd.
Frá árinu 1972 hét það Haukafell SF-111, Hornafirði.
Frá árinu 1990 hét það Haukafell SF-40, Hornafirði.  
Frá árinu 1991 hét það Gauti HU-59, Skagaströnd.
Frá árinu 1993 hét það Gauti SF-110, Hornafirði. 
Frá árinu 1993 hét það Sigurður Lárusson SF-110, Hornafirði.
Frá árinu 1994 hét það Sigurður Lárusson SF-114, Hornafirði og var það síðasta nafnið sem skipið bar sem fiskiskip.
Frá árinu 1996 hét skipið Húni II Höfðakaupstað HU, Skagaströnd.
Frá árinu 1998 hét það Húni II HF., Hafnarfirði.
Frá árinu 2006 hét það Húni II EA. Akureyri.
Frá árinu 2011 hefur skipið heitið Húni II EA-740 Akureyri og heitir svo enn árið 2018.
Árið 1994 var skipið tekið af skipaskrá og ákvörðun tekin um að nota það í næstu áramótabrennu.
Þorvaldur Hreinn Skaftason og Erna Sigurbjörnsdóttir föluðust þá eftir skipinu til að varðveita sögulegar minjar um skipasmíðar á Íslandi.
Skipið fengu þau en vélarlaust og var það sett aftur á skipaskrá 1996 og þá undir sínu gamla nafni Húni ll HU. 
Fyrsti kostur varðandi aðalvél í skipið var Callesen 460 hestafla vél sem fánleg var í Vestmannaeyjum fyrir lítið.
Þar sem mikill kostnaður fylgdi breytingum á undirstöðum vélarinnar var annarra leiða leita.
Kom þá upp Mitsubishi 650 hestafla vélin úr Smines SF-140-S, sem fyrr er getið og fékkst hún í skiptum fyrir Callesen vélina og einn sómabát.
Húni II var notaður til hvalaskoðunar og sjóstangaveiði frá árinu 1997 til ársins 2004.
Fyrstu fjögur árin fór skipið í 440 ferðir með um 20.000 farþega. 
Árið 2005 sigldi skipið inn Eyjafjörðinn og lagðist að bryggju á Akureyri.
Skipið var falt og stofnuðu nokkri menn þá Hollvinafélag Húna og hófu fjársöfnun til kaupa á því.
Ári seinna hafði tekist að fjármagna kaupin á skipinu og lögðu þar mest til KEA, Akureyrarbær og ríkið.
Skipið var afhent Iðnaðarsafninu á Akureyri til eignar sem fól Hollvinum Húna II það til varðveislu, umsjónar og reksturs.
Árið 2011 komu einkennisstafirnir EA-740 aftan við nafn skipsins en þá bar alla tíð Snæfell Akureyri. 
Til gamans má geta þess að skorsteinsmerkið, sem er beggja vegna utan á brú Húna II, er ættað frá Gylli Flateyri og teiknað af Gunnari Albertssyni er fyrstur gegndi vélstjórn á skipinu.
Merkið var í upphafi skorsteinsmerki á stálbátnum Húna HU-1 sem var forveri Húna II HU-2.

Húni II EA-740 er notaður til siglinga um Eyjafjörðinn með ferðamannahópa, sem hafa löngun til kynna við Ránardætur og njóta veitinga, sem á borð eru bornar.
Einnig hefur skipið tekið sér ferð á hendur landa á milli og fleiri en eina ferð hefur það siglt í kringum landið svo að strandbúum gefist kostur á að skoða handbrögð liðins tíma.
Rekstur skipsins hvílir á Hollvinasamtökum Húna ll, sem er hópur manna er lætur sér annt um hverfandi handbrögð tréskipasmiða. 
Viðhald skipsins og endurbætur hvílir á herðum örfárra manna.
Hollvinir Húna II vita hverjir fara þar fremstir í flokki og verður það að duga þeim sem í eldlínunni standa. 
Athugasemd.
Í bæklingnum "Saga báts: Húni II í tímans rás", höfundur Þórarinn Hjartarson sagnfræðingur, segir orðrétt:
"Þeir Gunnlaugur Traustason, Trausti Adamsson og Magnús Jónatansson áttu sveinsstykki sitt í Húna."
Rétt er að sveinsstykki Magnúsar Jónatanssonar var lokunarplanki í byrðingu á Húna ll HU-2.
Hvað varðar sveinsstykki Gunnlaugs Traustason og Trausta Adamsson þá er þetta rangt og í raun víðsfjarri sannleikanum.
Báðir þessir menn unnu að vísu samfellt í níu mánuði við smíði á Húna ll HU-2 en sveinsstykki sín tóku þeir ekki í skipinu.
Sveinsstykki þeirra voru tveir kappróðrarbátar, sem sjá má hér til hliðar.
Bátarnir voru teknir út af þar til skipaðri prófnefnd í skipasmíðum og fóru að því loknu til Ólafsfjarðar og fengu þar nöfnin Gissur og Geir. Ekki er annað vitað árið 2013 en að bátarnir séu enn við líði.

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 526
Gestir í dag: 38
Flettingar í gær: 1455
Gestir í gær: 74
Samtals flettingar: 991947
Samtals gestir: 48545
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:27:28
www.mbl.is