15.12.2022 22:11

Vilja samstarf um karfaleit

Karfastofninn hefur árum saman verið á niðurleið og áhugi er á samstarfi um karfarannsóknir á hrygningartíma, bæði innan greinarinnar og meðal vísindafólks.

Trollið tekið á karfaveiðum á Ljósafellinu í sumar. FF MYND/Þorgeir Baldursson

Karfastofninn er kominn að svokölluðum aðgerðarmörkum sem þýðir að verði ekkert að gert geti karfabrestur verið yfirvofandi. Kristján Kristinsson, fiskifræðingur á botnsjávarsviði Hafrannsóknastofnunar, segir stofninn hafa verið á niðurleið undanfarin ár.

„Við höfum í áratug verið að sjá lélega nýliðinun. Það þýðir bara að fiskurinn stækkar og honum fækkar. Þess vegna þurfum við að fara varlega í nýtingu á honum. Horfurnar næstu árin eru ekkert mjög jákvæðar.“

Ráðgjöfin helmingi lægri

Árið 2017 gaf Hafrannsóknastofnun út ráðgjöf um karfaveiðar upp á 50.800 tonn, en síðasta sumar hljóðaði ráðgjöfin upp á 25.545 tonn fyrir fiskveiðiárið 2022-23. Hún hefur því dregist saman um helming á aðeins fimm árum.

Karfinn er langlífur fiskur og stofninn þarf þess vegna lengri tíma til þess að ná sér aftur á strik. Eða eins og það er orðað í ráðgjöf stofnunarinnar: „Fyrir langlífa tegund eins og gullkarfa er samleitni í stofnmati aftur í tímann hægari samanborið við skammlífari tegundir.“

Óvissa í stofnmatinu

Tekið er fram að töluverð óvissa sé í stofnmatinu en gullkarfi sé „torfufiskur og því fæst stærsti hluti hans í fáum, stórum togum sem leiðir til tilviljanakenndra sveiflna í vísitölum milli ára. Aldursgreindur afli sýnir mjög litla nýliðun, sem er í samræmi við upplýsingar úr stofnmælingum.“

Kristján segir að brátt verði hugað að því að endurskoða líkanið sem notast er við. Á næsta ári verði farið í rýnifund um karfann hjá Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) þar sem reynt verði að fara yfir öll gögn.

Áhuginn liggur í ungviðinu

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, sviðstjóri botnsjávarsviðs, staðfestir að mikill áhugi sé bæði meðal greinarinnar og innan Hafrannsóknastofnunar á samstarfi um karfarannsóknir.

„Áhuginn liggur náttúrlega í ungviðinu, að reyna að finna það,“ segir hún. „Ef okkur dettur í hug góð leið til að gera það þá er aldrei að vita nema það verði eitthvað úr þessu.“

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, sagði frá því á Sjávarútvegsráðstefnunni í Hörpu nýverið að brátt fari af stað samstarf um karfarannsóknir, og Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, sagði sömuleiðis á ráðstefnunni að rætt hafi verið um karfarannsóknir á hrygningartíma.

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 683
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 4063
Gestir í gær: 33
Samtals flettingar: 1119809
Samtals gestir: 52252
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 04:35:28
www.mbl.is