2265 Arnar HU 1 mynd þorgeir Baldursson 2024
Arnar HU-1 lagði við bryggju á Sauðárkróki rúmlega sex í gærkvöldi eftir um mánuð á veiðum í Barentshafi. Aflinn var um ellefu þúsund kassar eða um 400 tonn upp úr sjó, sem er í samræmi við heimildir íslenskra skipa í norskri lögsögu.
Með lönduninni í gær er Arnar fyrsta skipið sem landar afla úr Barentshafi á þessari vertíð samkvæmt skráningu Fiskistofu.
Íslensku togararnir Sólberg ÓF-1, Sólborg RE-27 og Blængur NK-125 eru nú staddir á imðunum í Barentshafi þar sem er um fjögurra stiga hiti, norðvestlæg átt og lítil ölduhæð.
Enn á eftir að landa rúmlega þrjú þúsund tonnum af þorski úr Barentshafi sem heimildir eru fyrir. Er nú um 1.287 tonna kvóti skráður á Sólbergið, 829 tonn á Blæng, 854 tonn á Sólborgina og 90 tonna þorskkvóti í norskri lögsögu skráður á Örfirsey RE-4.
Íslenskar útgerðir hafa hjálpast að við að veiða í Barentshafi þar sem þorskkvótinn hefur verið skertur mjög mikið undanfarin ár og næst betri nýting með því að veiða með færri skipum. Hafa til að mynda skip Þorbjarnar, Hrafn Sveinbjarnarson GK-255, Sturla GK-12 og Tómas Þorvaldsson GK-10, ekki veitt í Barentshafi undanfarið þrátt fyrir að fyrirtækið á heimildir fyrir 197 tonnum af þorski.
Þá mun Björg EA-7, sem Samherji gerir út, ekki veiða sinn 285 tonna kvóta og verða aflaheimildirnar verið nýttar af örðum skipum.
heimild mbl.is
myndir þorgeir Baldursson
|