19.05.2024 10:32

Þórður á Grenivík hafði afskrifað grásleppuna

Þórður Ólafsson á Elínu Þh 82 frá Grenivík segir grásleppuveiði hafa gengið vel á Eyjafjarðarsvæðinu síðustu þrjú árin. Hann segir strandveiðikerfið mannfjandsamlegt.

Þórður Ólafsson landar grásleppu á Dalvík á dögunum. Mynd/Þorgeir Baldursson

Deila

„Þetta er ekki alveg búið en þetta er orðið harðsótt, það er bara fjaran eftir,“ segir Þórður Ólafsson, sem gerir út Elínu ÞH 82 á grásleppu frá Grenivík.

„Þetta byrjaði rólega en veiðin hefur gengið sæmilega og er búin að vera mjög góð síðustu þrjú árin og betri en við eigum að venjast á þessu Eyjafjarðarsvæði,“ segir Þórður. Oft komi skarpir toppar fyrir austan í Bakkaflóanum og í Húnaflóanum og Breiðafirðinum. Hann haldi að á Vestfjörðum sé enn meiri grásleppa en fyrir norðan.

Þórður lagði fyrst net sín 13. apríl og á því nóg eftir af þeim 55 dögum sem veiða má og ætlar að halda áfram enn um sinn. „En ég verð aldrei þessa 55 daga,“ tekur hann fram.

Ný von með sölu á ferskum hrognum

„Ég hélt fyrir tuttugu árum að grásleppuveiðar myndu brátt heyra sögunni til,“ segir Þórður spurður um markaðsstöðuna. Það hafi síðan orðið stór breyting með því að selja hrognin fersk.  „Ef ekki þarf að salta öll hrognin er komin ný von með þetta,“ segir hann.

Sorglegt sé hins var að markaðir fyrir búkinn hafi lokast í Kína. „Mér skilst þó núna að menn séu að losna við þetta kostnaðarlaust. Þó að þetta geri ekki annað en að borga frystingu og flutning kalla ég það góðar fréttir á meðan það tekst. Það gerir ekki annað en að vinda upp á sig og enda með því að verða markaðsvara.“

Vill kerfi með virðingu

Er grásleppunni sleppir tekur strandveiðin við hjá Þórði. „Ég fer á strandveiðina ef það verður ekki búið að loka,“ segir Grenvíkingurinn. Það fari í skapið á honum þegar talað sé um mokveiði á strandveiðunum.

„Ég hef viðbjóð á þessu fyrirkomulagi. Þetta er búið til af mannvonsku,“ segir Þórður. Margar leiðir séu til að bæta kerfið.

„Ef það á að leyfa þetta á annað borð, af hverju er það ekki gert með virðingu og jákvæðni?“ spyr Þórður.

„Ef þetta væru bara þessir 48 dagar þá þarf engar aðrar takmarkanir. Ef menn vilja binda sig við einhvern pott sem má veiða þá væri líka hægt að setja lokadag um það hvenær menn geta sótt um strandveiðileyfi á hverju vori og skipta magninu hreinlega upp á milli bátanna.“

fiskifrettir.is 

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 526
Gestir í dag: 38
Flettingar í gær: 1455
Gestir í gær: 74
Samtals flettingar: 991947
Samtals gestir: 48545
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:27:28
www.mbl.is