2954 Vestmannaey Ve 54 mynd þorgeir Baldursson
Togarinn Vestmannaey VE-54 sem dótturfélag Síldarvinnslunnar, Bergur-Huginn ehf., gerir út hefur verið sviptur leyfi til veiða í tvær vikur fyrir vigtunarbrot. Gildir ákvörðun Fiskistofu frá og með 6. janúar til og með 19. janúar.
Fiskistofa segir í ákvörðun sinni veiðileyfissviptinguna að „um alvarleg og meiriháttar brot skipstjóra og áhafnarmeðlima að ræða framin af stórkostlegu gáleysi, sem hefði leitt til verulegs ávinnings fyrir málsaðila hefðu þau ekki komist upp“. Vegna þessa kveðst Fiskistofa ekki ástæðu til að áminna eða veita lágmarksleyfissviptingu þrátt fyrir að um sé að ræða fyrsta brot.
Málsaðili telur hins vegar ekki neinn ásetning hafa legið að baki þess að bílstjóri á vegum Eimskips hafi ekið á brott með rúm tíu tonn af ýsu heldur hafi verið um mannleg mistök að ræða sem leiddi til þess að bílstjórinn fór ekki á bílvog og fékk ekki vigtunarnótu.
Í ákvörðuninni segir Fiskistofa það hins vegar ekki skipta máli þar sem ábyrgðin á því að afli sé vigtaður á herðum skipstjóra.
Ók af stað til Dalvíkur
Fram kemur í málsgögnum að Fiskistofu hafi borist ábending frá hafnarverði í Neskaupstað að 5. desember 2023 hafi afla úr Vestmannaey verið ekið frá löndunarstað án þess að hafa átt viðkomu á hafnarvog.
Í skýrslu veiðieftirlitsmanns Fiskistofu er haft eftir vigtarmanni að skipið hafi lagst við bryggju í Neskaupstað um klukkan 19:30 til löndunar. Tveir löggiltir vigtarmenn hafi staðið að framkvæmd vigtunar, einn á pallvog á bryggju en hinn á bílvog. Stýrimaður Vestmannaeyjar ásamt tveimur hásetum ísuðu yfir afla til útflutnings og sinntu löndun.
Bísltjóri á vegum Eimskips sagði að um mannleg mistök væri að ræða. mbl.is/?Sigurður Bogi Sævarsson
Um hálf ellefu um kvöldið var vigtun á meirihluta aflans lokið og gaf vigtunarmaðurinn á pallvog fyrirmæli til verkstjóra löndunargengis á vegum Tandrabergs ehf. að restin, 30 kör af ýsu sem átti að flytja til Samherja á Dalvík, yrði öll vigtuð á bílavoginni. Segir hann engar athugasemdir hafa verið gerðar við það.
Skömmu síðar voru báðir vigtunarmenn við bílavogina og þegar vigtun afla í einum flutningabíl var lokið kom fram í spjalli þeirra við bilstjóra um síðasti bílinn sem átti að sækja hin fyrrnefndu 30 kör af ýsu væri þegar mættur, og að hann væri að taka körin sem væru þegar vigtuð að sögn bílstjórans. Var vigtarmanni brugðið og hélt hann um leið niður að bryggju, enginn bíl var þó þar og aflinn farinn af stað til Dalvíkur.
Segja skipstjóra bera ótakmarkaða ábyrgð
Ákváðu vigtunarmenn að tilkynna málið til lögreglu sem mætti og hóf leit að bílstjóra flutningabílsins með 30 kör af óvigtaðri ýsu, alls 10,6 tonn. Tókst að finna ökumanninn sem sagði um mannleg mistök að ræða, gleymska hafi orsakað að hann ók af stað.
Upp úr miðnætti var flutningabíllinn mættur á ný til Neskaupstaðar þar sem aflinn var vigtaður.
Fiskistofa vísar til þess að fyrsta málsgrein níundu greinar laga um umgengni um nytjastofna sjávar segir: „Skipstjóra fiskiskips er skylt að halda afla um borð í skipi sínu aðgreindum eftir tegundum. Verði því ekki komið við vegna smæðar báts skal afli aðgreindur eftir tegundum við löndun. Skipstjóra fiskiskips er skylt að láta vigta hverja tegund sérstaklega. […] Skipstjóra ber að tryggja að réttar og fullnægjandi upplýsingar um aflann berist til vigtarmanns.“
Féllst ekki á rök málsaðila
Málsaðili gerir hins vegar athugasemdir við niðurstöðu Fiskistofu og segir að ljóst sé að um mannleg mistök er að ræða af hálfu bílstjóra flutningabílsins rétt eins og ökumaðurinn sjálfur viðurkenndi í samræðum sínum við lögreglu umrætt kvöld. Þar af leiðandi sé ekki um brot að ræða af hálfu skipstjórans af ásetningi eða gáleysi.
Einnig er bent á að annar vigtunarmaðurinn hafi yfirgefið bryggjuna og hans að tryggja að skilaboð bærust með óyggjandi hætti til skipstjóra um að aflinn skyldi sendur á bílvog og að hann væri ekki lengur að manna vogina við hlið skipsins.
Vísaði málsaðili einnig til þess að ábyrgð skipstjóra gæti ekki átt við í málinu eins og málsatvikum er lýst enda sé vigtun aflans undir eftirliti og á ábyrgð hafnarinnar. Það hafi verið ákvörðun vigtarmannsins um að yfirgefa hafnarvog sem leiddi til þess að smávægilegur hluti aflans varð ekki vigtaður, en mistök bílstjórans eru sögð afleiðing ákvörðunarinnar.
Fiskistofa féllst ekki á þessi rök og komst að fyrrnefndri niðurstöðu að henni bæri að veiðileyfissvipta togarann.
Heimild mbl.is
myndir Þorgeir Baldursson og sigurður Bogi Sævarsson
|