03.02.2025 14:26

Öryggið má aldrei falla milli skips og bryggju

                                     Arnfriður Eide Hafþórsdóttir mynd þorgeir Baldursson 

„Að upplifa stuðning og jákvæðni fyrir því að auka öryggi og starfsánægju fyrirtækisins í heild eflir mann í því sem maður er að vinna að,“ segir Arnfríður Eide Hafþórsdóttir, mannauðs- og öryggisstjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði.

 

 

Öruggt starfsumhverfi á að vera leiðarljós í öllum rekstri, mannauðurinn er mikilvægasta auðlind fyrirtækjanna. Að því sögðu þá mega öryggismál aldrei falla milli skips og bryggju,“ segir Arnfríður Eide Hafþórsdóttir, mannauðs- og öryggisstjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði.

                                              Arnfriður Eide sleppir spring Ljósafells su 70 mynd þorgeir Baldursson 

Arnfríður segir að hjá Loðnuvinnslunni sé lögð mikil áhersla á að sinna öryggis-, heilbrigðis- og vinnuverndarmálefnum vel. „Við höfum það að leiðarljósi að fækka slysum og óhöppum og leggjum við sífellt meiri vinnu í fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir að slíkt gerist,“ segir hún.

 

Arnfríður Eide Hafþórsdóttir ásamt Slökkviliði Fjarðabyggðar að undirbúa æfingu í reykköfun með áhöfn Hoffells SU80 um borði í skipinu.  MYND/HÖGNI PÁLL HARÐARSON

Arnfríður Eide Hafþórsdóttir ásamt Slökkviliði Fjarðabyggðar að undirbúa æfingu í reykköfun með áhöfn Hoffells SU80 um borði í skipinu. MYND/HÖGNI PÁLL HARÐARSON

 

Jákvætt skref hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi

Loðnuvinnslan á tvo fulltrúa í faghópi um öryggismál sem stofnaður var í ársbyrjun 2017 innan Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi með það að markmiði að fækka slysum og óhöppum í fiskvinnslum.

 

„Það er gríðarlega mikilvægt og jákvætt skref fyrir sjávarútvegsfyrirtækin,“ segir Arnfríður sem er í faghópnum ásamt útgerðarstjóra Loðnuvinnslunnar.

„Með tilkomu þessa hóps hefur samstarf milli fyrirtækja í greininni eflst og erum við óhrædd við að leita til hvers annars þegar á þarf að halda. Við erum jú öll að vinna í sama umhverfi og því óþarfi að finna upp hjólið þegar kemur að bættu öryggi eða úrbótum,“ segir Arnfríður.

Vilja öll koma heil heim

Starf mannauðs- og öryggisstjóra er tiltölulega ný staða hjá Loðnuvinnslunni sem Arnfríður segir undirstrika áherslu fyrirtækisins á þessi máli. Hún tók við starfinu í árslok 2021.

 

„Eftir höfðinu dansa limirnir segjum við stundum en við erum mjög heppin með það að stjórnendum er annt um öryggismál og eru því jákvæðir fyrir því að innleiða ferla sem snúa að þeirra starfsemi,“ segir Arnfríður.

Þetta geri það að verkum að starfsfólkið sér tiltölulega fljótt að tileinka sér það sem lagt sé upp með. „Því við erum jú öll sammála um að við viljum koma heil heim eftir vinnudaginn.“

Loðnuvinnslan er gamalt og rótgróið fyrirtæki og Arnfríður segir það hafa orðið fyrir áföllum líkt og önnur fyrirtæki er komi að slysum.

Eitt alvarlegt slys

„Frá því að ég hóf störf hefur eitt alvarlegt slys komið upp þar sem starfsmaður varð fyrir lyftara,“ segir Arnfríður. Í slíkum tilfellum sé viðbragðsáætlun virkjuð þar sem stjórnandi leiði ferlið á vettvangi og í framhaldinu taki mannauðs- og öryggisstjórinn við og haldi utan um allar skráningar og skýrslugerð og beri ábyrgð á innri og ytri samskiptum í framhaldinu.

„Eftir slík slys eru stjórnendur og starfsfólk fyrirtækisins upplýst um hvað hafi átt sér stað. Það er mjög mikilvægt að setjast niður sem fyrst með því starfsfólki sem var á vettvangi og taka rýnifund, taka stöðuna á líðan fólks, hlusta og rýna saman yfir það sem betur má fara,“ segir Arnfríður. Í framhaldinu sé farið í úrbótavinnu og framhaldandi forvarnafræðslu. „Það er bara þannig að aldrei er góð vísa of oft kveðin í öryggismálum.“

 

Hótel við höfnina er áskorun

Arnfríður segir að flesta daga sé mikið líf og fjör á hafnarsvæðinu þar sem Loðnuvinnslan sé með stærstan hluta af sinni starfsemi.

 

Starfsfólk í fiskmjölsverksmiðju  á æfingu með Slökkviliði Fjarðabyggðar þar  sem var meðal annars farið yfir hvaða slökkviefni hentar best á hvaða elda. MYND/ÓÐINN ÓMARSSONsson

Starfsfólk í fiskmjölsverksmiðju  á æfingu með Slökkviliði Fjarðabyggðar þar sem var meðal annars farið yfir hvaða slökkviefni hentar best á hvaða elda. MYND/ÓÐINN ÓMARSSONsson

 

„Það getur því verið ákveðin áskorun að vera með hótel staðsett við hliðina á starfseminni niður við höfnina því ferðamenn sem sækja fjörðinn heim heillast af fjörunni líkt og fjallahringnum. Ferðamennirnir eiga það til að fá sér göngu eftir hafnarkantinum án þess að átta sig endilega á því að um vinnusvæði sé að ræða. Það er því mikilvægt að athafnasvæðin séu vel merkt með yfirborðsmerkingar fyrir akandi og gangandi umferð ásamt viðeigandi skiltum sem varar fólk við því að um vinnusvæði sé að ræða,“ segir Arnfríður.

Stakkaskipti með Öldu

Hjá Loðnuvinnslunni er starfandi öryggisnefnd sem Arnfríður segir vera mjög virka. Eftir reglulega fundi taki við úrbótavinna. Einnig hafi öryggisstjórnunarkerfið Alda verið innleitt um borð í fiskiskip fyrirtækisins.

„Alda er stafrænt öryggisstjórnunarkerfi sem nútímavæðir öryggi á sjó. Það er þróað í samstarfi við íslenska sjómenn og útgerðir. Alda færir öryggi beint til sjómanna, eflir öryggisþjálfun, reglubundið öryggiseftirlit og öryggisvitund um borð í skipum,“ segir Arnfríður.

 

Að sögn Arnfríðar voru sjómennirnir hjá Loðnuvinnslunni mjög öryggismiðaðir fyrir en með tilkomu Öldunnar hafi nýliðafræðsla, æfingar og eftirlit tekið stakkaskiptum.

 

Áhöfn Ljósafells að festa mann í börur fyrir flutning. Mynd/Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Áhöfn Ljósafells að festa mann í börur fyrir flutning. Mynd/Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

 

„Aldan hefur eflt samskipti við öryggisstjóra í landi til muna, yfirsýn yfir æfingar og úttektir varð mun betra ásamt því að eftirfylgni á úrbótavinnu hefur gengið smurðara fyrir sig en áður,“ segir Arnfríður.

Baklandið þarf að vera með

Mikilvægt er að sögn Arnfríðar að samstarfsfólk eigi í góðum og uppbyggilegum samskiptum.

„Það hjálpar fólki að skilja hvert annað, stuðlar að aukinni mannvirðingu og síðast en alls ekki síst þá eykur það starfsánægju. Þannig líður mér í starfi mannauðs- og öryggisstjóra, að upplifa stuðning og jákvæðni fyrir því að auka öryggi og starfsánægju fyrirtækisins í heild eflir mann í því sem maður er að vinna að. Það hlýtur að vera erfitt að draga vagninn í þessum málum ef baklandið er ekki á sömu línu,“ segir Arnfríður Eide Hafþórsdóttir.

 

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 1839
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 2657
Gestir í gær: 37
Samtals flettingar: 1168657
Samtals gestir: 53390
Tölur uppfærðar: 5.2.2025 10:48:00
www.mbl.is