Varðskipið Þór mynd þorgeir Baldursson 2021
Aðeins eitt tilboð barst í slipptöku og viðhaldsvinnu við varðskipið Þór en tilboð voru opnuð hjá Fjársýslu ríkisins hinn 7. apríl sl.
Norska fyrirtækið GMC Yard AS í Stafangri bauð 572.038 evrur, jafnvirði rúmlega 82 milljóna íslenskra króna. Er tilboðið langt undir kostnaðaráætlun sem var 1.265.879 evrur, jafnvirði um 182 milljóna íslenskra króna. Verðin eru án virðisaukaskatts.
Ekkert tilboð barst frá íslenskum fyrirtækjum að þessu sinni. Varðskipið Þór hefur farið í slipp hér heima í gegnum tíðina, t.d. hjá Slippnum á Akureyri. Varðskipið Freyja hefur ekki farið í slipp á Íslandi, þyngd og breidd skipsins hefur þar áhrif. Íslensku slippirnir ráða ekki við að taka skipið upp.
Að sögn Ásgeirs Erlendssonar upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar er ráðgert að Þór fari í slippinn í júní. Varðskipið Freyja verður við gæslustörf við Ísland á meðan
Á dögunum tók áhöfnin á varðskipinu Þór þátt í æfingunni Arctic Guardian 2025 sem fór að þessu sinni fram í nágrenni við Tromsø í Noregi.
Auk Landhelgisgæslunnar tóku systurstofnanir frá Kanada, Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og Bandaríkjunum þátt í æfingunni sem fór fram á vegum Arctic Coast Guard Forum sem leggur áherslu á samstarf þessara sjö norðurskautsríkja á sviði leitar og björgunar.
Að auki er lögð áhersla á samstarf á sviði mengunarvarna og öryggismála.
Styrkja samstarfið
Æfingunni var ætlað að styrkja samstarf ríkjanna sjö vegna viðbragða við atburðum sem kunna að koma upp á norðurslóðum. Bæði sjó- og loftför komu við sögu á æfingunni sem gekk með miklum ágætum, að því er fram kemur á heimasíðu Landhelgisgæslunnar.
Starfsmenn landhelgisgæslunnar þekkja vel til GMC Yard AS. í Stavanger. Varðskipið Freyja fór í slipptöku og viðhald hjá fyrirtækinu í fyrrasumar.
|