17.09.2025 21:36

Blængur er einn eftir af Spánartogurunum

                                                  1345 Blængur NK 125 Mynd Þorgeir Baldursson 

Heimild morgunblaðið /sisi 

 

Sumarið 2015 festi Síldarvinnslan í Neskaupstað kaup á frystitogaranum Frera af Ögurvík hf. og fékk hann þá nafnið Blængur og einkennisstafina NK 125.

Blængur hét upphaflega Ingólfur Arnarson og var smíðaður á Spáni fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur. Skipið kom nýtt til landsins 24. janúar 1974. Margreyndur aflaskipstjóri var með skipið, Sigurjón Stefánsson. Hann var áður með Bjarna Benediktsson. 1. vélstjóri var Kristinn Hafliðason. Í áhöfn voru að jafnaði 24-25 manns.

Sigurjón Stefánsson, margreyndur aflaskipstjóri, var fyrsti skipstjóri Blængs, sem þá .

Sigurjón Stefánsson, margreyndur aflaskipstjóri, var fyrsti skipstjóri Blængs, sem þá hét Ingólfur Arnarson.

Fram kom í frétt Morgunblaðsins á sínum tíma að vistarverur væru allar hinar glæsilegustu og ekki ætti að væsa um menn.

Bæjarútgerðin átti togarann til ársins 1985 en þá festi Ögurvík kaup á honum og var honum þá breytt í frystiskip. Árið 2000 voru gerðar umfangsmiklar breytingar á togaranum en þá var hann meðal annars lengdur um 10 metra og aðalvél endurnýjuð. Einnig var vinnslulínan endurnýjuð svo og frystilestin. Skipið er 79 metra langt eftir breytingarnar og búið 5.000 hestafla aðalvél af gerðinni Wartsila. Það er 1.723 brúttótonn að stærð.

Blængur hafi fyrst og fremst verið gerður út á ufsa, karfa og grálúðu, en það eru tegundirnar sem íslenskir frystitogarar hafa lagt áherslu á að veiða á undanförnum árum. Um væri að ræða hörkuskip með miklum togkrafti og Blængur var nú eitt af öflugustu togskipum Íslendinga.

„Skipið er öflugt veiðitæki og oft gaman að fiska á það,“ var haft eftir Theodóri Haraldssyni skipstjóra.

Umfangsmiklar breytingar

Sem fyrr segir keypti Síldarvinnslan Blæng sumarið 2015. Á árinu 2016 fór það í umfangsmiklar breytingar í Póllandi og lauk þeim ekki fyrr en komið var fram á árið 2017. Árið 2018 var skipið einnig frá veiðum um tíma en þá var meðal annars skipt um togspil.

Blængur var nýverið í slipp í Reykjavík. Hér leggst hann .

Blængur var nýverið í slipp í Reykjavík. Hér leggst hann að bryggju í Reykjavíkurhöfn eftir velheppnaða veiðiferð og naut aðstoðar dráttarbátsins Haka. Morgunblaðið/sisi

Á áttunda áratug síðustu aldar voru margir skuttogarar keyptir til landsins og voru Spánartogararnir svokölluðu meðal stærstu skipanna í þessum nýja flota. Kaupin á þeim voru gerð með atbeina stjórnvalda og með ríkisábyrgð. Þrjú skipanna fóru til Bæjarútgerðar Reykjavíkur, tvö fóru til Útgerðarfélags Akureyringa og einn Spánartogarinn til Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar.

Um þetta má lesa í greinargóðri samantekt Ágústs Inga Jónssonar blaðamanns í Morgunblaðinu 22. september 2018.

Spánartogararnir sex komu til landsins á árunum 1973-1975. Þeir voru smíðaðir í skipasmíðastöðinni Astilleros Luzuriaga S.A. í Pasajes de San Juan skammt frá San Sebastian á Norður-Spáni.

Togararnir voru smíðaðir eftir sömu teikningu, 68,7 metrar að lengd, og var Bjarni Benediktsson RE 210 fyrstur í þessari raðsmíði. Bæjarútgerð Reykjavíkur hf. gerði skipið út og kom það til heimahafnar 10. janúar 1973.

Síðan komu þeir hver af öðrum Júní HF, Snorri Sturluson RE, Ingólfur Arnarson RE, Kaldbakur EA og Harðbakur EA.

Spánartogararnir voru gerðir út til fiskveiða hér við land í áratugi og reyndust yfirleitt mikil aflaskip. Miklar breytingar voru gerðar á sumum þeirra í áranna rás og nokkrum þeirra var breytt í frystitogara.

Spánartogararnir hafa týnt tölunni hver af öðrum og margir verið seldir í brotajárn. Nú er aðeins einn eftir, Blængur NK.

Rifja má upp að lokum að nafnið Ingólfur Arnarson er mikilvægt í sögu togaraútgerðar á Íslandi.

Eftir seinni heimsstyrjöldina voru skip við Ísland flest orðin gömul og nauðsynlegt að endurnýja flotann. Þávarendi ríkisstjórn, sem kölluð var nýsköpunarstjórnin, ákvað að kaupa nýja togara frá Bretlandi og pantaði 30 skip árið 1945. Síðan bættust við fjögur skip sem einstaklingar keyptu.

Fyrsti nýsköpunartogarinn

Fyrsti nýsköpunartogarinn hét einmitt Ingólfur Arnarson og kom hann til landsins 17. febrúar 1947. Hann var nefndur í höfuðið á Ingólfi Arnarsyni, landnámsmanni Reykjavíkur. Togarinn var seldur í brotajárn til Spánar árið 1974. Nýsköpunartogarar urðu alls 42. Reykjavíkurbær keypti átta nýsköpunartogara. Bæjarútgerðin gerði út fimm þeirra.

Ingólfur Arnarson kemur i fyrsta sinn til hafnar í Reykjavík .

Ingólfur Arnarson kemur i fyrsta sinn til hafnar í Reykjavík í janúar 1974 fánum prýddur eftir langa siglingu frá Spáni. Morgunblaðið/Sveinn Þormóðsson

Fyrrnefndur Sigurjón Stefánsson varð skipstjóri á nýsköpunartogaranum Ingólfi Arnarsyni RE 201 árið 1952 og var óslitið með Ingólf í 20 ár eða þar til hann tók við skuttogaranum Bjarna Benediktssyni og síðar nýjum Ingólfi Arnarsyni. Sigurjón var einn þekktasti togaraskipstjóri sinnar samtíðar.

Árið 1977 kom Sigurjón í land og tók við framkvæmdastjórn Togaraafgreiðslunnar hf., sem þá var starfandi við Reykjavíkurhöfn. Hann var um árabil í stjórn skipstjóra- og stýrimannafélagsins Ægis og í sjómannadagsráði. Sigurjón lést 17. nóvember 2005.

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 1488
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 5643
Gestir í gær: 16
Samtals flettingar: 2055256
Samtals gestir: 68081
Tölur uppfærðar: 18.9.2025 04:30:18
www.mbl.is