Birkir Ingason, stýrimaður á Sigurði VE, segir síldveiðar ganga vel fyrir austan þótt enn sem komið sé þurfi að hafa dálítið meira fyrir síldinni en í fyrra og að hún sé heldur smærri en þá. Hann búist við að fara næst á kolmunna í Rósagarðinn áður en veiðar á heimasíldinni hefjist fyrir vestan land.
Talsvert er um háhyrninga á veiðislóðinni hjá Sigurði VE. Birkir Ingason stýrimaður segir þeim virðast vera að fjölga en séu ekki að trufla.„Þeir eru mjög gæfir og koma stundum í tugatali og fylgja okkur í dælingunni. Þeir taka það sem dettur úr belgnum og bíða eftir að eitthvað klikki um borð til að geta tekið restina.“ Myndir/Sigurfinnur Viðar Sigurfinnsson
Deila
„Við köstuðum við Glettinganes og fengum 320 tonn í fyrsta holinu sem var mjög stutt. Svo fengum við 375 tonn núna í nótt,“ segir Birkir Ingason, stýrimaður á Sigurði VE, sem er við síldveiðar fyrir austan land og rætt var við í gærmorgun.
Að sögn Birkis er um að ræða ágætis fisk þótt enn sé komið er sé hún heldur minni en í fyrra. „Þetta er um 400 gramma síld sem við erum að fá. Við erum að reyna að halda meðalþyngdinni helst yfir 400 grömmunum; vinnslan biður um betri fisk í það sem þeir eru að framleiða þessa stundina,“ segir hann.
Stærri síld en á Seyðifjarðardýpi
Flott dæling af fallegri síld um borð í Sigurði VE. Mynd/Sigurfinnur Viðar Sigurfinnsson
Áður en Sigurður hóf veiðar við Glettinganes segir Birkir að í túrnum á undan hafi verið veitt um þrjátíu sjómílum sunnar, á Seyðisfjarðardýpinu og þar um kring.
„Þá var síldin aðeins smærri og hentaði illa fyrir það sem vinnslan var að gera. Þeir reyna að heilfrysta mikið og lausfrysta hana og svo er minni síldin unnin í flök og flapsa. Þeir eru mjög duglegir að skipa út og halda nógu plássi í frystigeymslunum.“
Þegar rætt er við Birki, sem er að morgni þriðjudags eins og áður segir, eru þrjú önnur skip á síldveiðum á sömu slóðum; Ásgrímur Halldórsson SF, Beitir NK og Gullberg VE. Með Sigurði segir hann Heimaey VE vera að veiða upp í um ellefu þúsund tonna kvóta í norsk-íslensku síldinni fyrir Ísfélagið. Þessi tvö skip landi síldinni á Þórshöfn.
Upp í 700 tonna höl
„Það hafa ekki verið mörg skip á svæðinu í einu. Menn hafa yfirleitt verið að ná þessu á frekar skömmum tíma, hafa dottið um alveg heljarinnar góð höl. Menn hafa verið að taka alveg upp í 700 tonna höl á stuttum tíma,“ segir Sigurður. Miðað við síðustu ár finnist honum samt að síldin láti hafa aðeins meira fyrir sér núna.
„Síðustu ár hafa menn getað komið hérna og kasta bara á einhvern bing og tekið þetta á mjög skömmum tíma. Núna erum við að keyra um og leita,“ segir Birkir. Menn hafi svo sem engar kenningar um hvað valdi þessum mun.
„En kannski er fiskurinn einfaldlega seinna á ferð eins og var með makrílinn í sumar þar sem veiðin blossaði upp alveg í restina. Maður heldur í vonina að fiskurinn sé ekki alveg kominn á svæðið og að það skili sér eitthvað meira að norðan. En einhvern tíma hefði það jaðrað við frekju að vera ósáttur við 300 til 400 tonn í holi,“ segir Birkir og hlær.
Taka einn eða tvo kolmunnatúra
Að sögn Sigurðar er von á brælu aðfaranótt föstudags sem standa muni fram á laugardag. Segist hann alveg til í að geta klárað túrinn með fullfermi og náð í höfn áður en veðrið skelli á.
„Og þegar þetta er búið reikna ég með að við tökum einn eða tvo kolmunnatúra í Rósagarðinn áður en við förum yfir í heimasíldina vestur af landi,“ segir Birkir.
Eins og sést á forsíðu Fiskifrétta í dag er talsvert um háhyrninga á veiðislóðinni. Birkir segir þeim virðast vera að fjölga en séu ekki að trufla.
„Þeir eru mjög gæfir og koma stundum í tugatali og fylgja okkur í dælingunni. Þeir taka það sem dettur úr belgnum og bíða eftir að eitthvað klikki um borð til að geta tekið restina,“ segir Birkir Ingason. heimild fiskifrettir