24.10.2025 09:13

Sildarmælingum að ljúka

                     3045 Þórunn Þórðardóttir HF 300  á Eyjafirði mynd þorgeir Baldursson 

Rannsóknarskip Hafrannsóknastofnunar, Þórunn Þórðardóttir HF, hefur verið við síldarmælingar við landið frá 10. október og er, þegar þetta er skrifað, stödd innarlega í Hrútafirði.

200 mílur heyrðu í Sigurvin Bjarnasyni, leiðangursstjóra og líffræðingi við uppsjávarsvið Hafrannsóknastofnunar, sem segir veðrið hafa verið með besta móti í ferðinni. Markmið leiðangursins segir hann vera að afla upplýsinga um stærð, árgangaskipan og þróun á stofnstærð íslenska sumargotssíldarstofnsins. Gögnum er safnað með bergmálsmælingum og sýnatöku og er leiðangrinum skipt í tvo hluta.

Fullorðin síld mæld í fyrri hluta

Í fyrri hluta leiðangursins voru mælingar framkvæmdar við Suður- og Austurland og rannsóknir gerðar á fullorðinni síld, en það er sá hluti stofnsins sem útgerðirnar veiða.

Sigurvin Bjarnason, líffræðingur við uppsjávarsvið Hafrannsóknastofnunar, er leiðangursstjóri ferðarinnar.

Sigurvin Bjarnason, líffræðingur við uppsjávarsvið Hafrannsóknastofnunar, er leiðangursstjóri ferðarinnar. Ljósmynd/Hafrannsóknastofnun

„Við fórum um djúpin á suðausturlandi, eða frá Skeiðárdjúpi og austur að Lónsdjúpi,“ segir Sigurvin. „Við mælum síld með bergmálsmælum auk þess að taka líffræðisýni, togsýni, úr torfum sem við mælum.“ Að því búnu hélt leiðangurinn austur fyrir landið þar sem mælt var frá Norðfjarðardjúpi og norður að Bakkaflóadýpi. Þar segir Sigurvin að mikið hafi verið af síld síðustu vikurnar og veiðin almennt verið góð.

„Uppsjávarskipin hafa verið að veiða norsk-íslenska vorgotssíld, sem heldur sig á þessu svæði að lokinni fæðugöngu,“ segir Sigurvin og bætir við að þegar fæðugöngu sé lokið haldi síldin aftur austur til Noregs þar sem hún hefur vetursetu og hrygnir síðan um vorið. „Hins vegar hefur íslenska sumargotssíldin í auknum mæli blandast þeirri norsku síðustu ár,“ segir Sigurvin. „Við erum því að meta þessa blöndun og áætla hversu mikið er af sumargotssíld á svæðinu.“

Ungsíld mæld í seinni hluta

Í seinni hluta leiðangursins, sem stendur yfir núna, fara fram mælingar á 1-2 ára ungsíld við Norður- og Vesturland. Þá er siglt inn í firði þar sem uppeldisstöðvar sumargotssíldarinnar eru.

„Við höfum lokið við mælingar í Öxarfirði, Skjálfanda, Eyjafirði og Skagafirði,“ segir Sigurvin en Þórunn Þórðardóttir er sem fyrr segir stödd í Hrútafirði núna. Leiðangrinum lýkur við Vestfirði áður en haldið er aftur til hafnar eftir helgina og hafist handa við að vinna úr þeim gögnum sem safnast hafa í leiðangrinum.

Sigurvin segir að lokum að haldið verði til frekari síldarmælinga í lok mars þegar mælingar á stofnhlutanum sem heldur sig vestan lands fara fram.

heimild 200 milur 

mynd af Þórunni Þorgeir Baldursson 

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 6220
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 12616
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 2217815
Samtals gestir: 68794
Tölur uppfærðar: 25.10.2025 14:12:24
www.mbl.is