03.12.2025 00:06Hitti björgunarmann sinn eftir 54 árHitti björgunarmann sinn eftir 54 árÞorsteinn og Sævar sögðu það hafa verið mikla gleðistund þegar þeir hittust 54 árum eftir slysið sem varð um borð í Barða. Ljósmynd/Síldarvinnslan: Smári Geirsson Heimild Heimasiða Sildarvinnslunnar Ljósmyndir Smári Geirsson og Guðmundur Sveinsson Fimmtudaginn 27. nóvember hittust Þorsteinn Vilhelmsson og Ómar Sævar Hreinsson, jafnan kallaðan Sævar, í fyrsta sinn rúmum 54 árum eftir alvarlegt slys sem varð um borð í skuttogaranum Barða NK sumarið 1971. Þar bjargaði Þorsteinn lífi Sævars þegar hann náði taki á honum á síðustu stundu og hindraði að hann færi fyrir borð. Á heimasíðu Síldarvinnslunnar er sagt frá endurfundi þeirra félaga, sem þeir lýsa báðir sem mikilli gleðistund. „Hljóð sem aldrei hverfur úr minninu“Í frétt Síldarvinnslunnar er rifjað upp að árið 1970 hafi orðið tímamót í íslenskri útgerðarsögu þegar fyrirtækið festi kaup á skuttogaranum Barða, um 300 tonna skipi sem kom fyrst til heimahafnar í Neskaupstað 14. desember sama ár. Barði hélt svo fyrst til veiða 11. febrúar 1971 eftir endurbætur. Sumarið 1971 fékk hinn 19 ára gamli Þorsteinn Vilhelmsson pláss á Barða en Þorsteinn varð síðar þekktur skipstjóri og einn eigenda Samherja. Pabbi Þorsteins hafði milligöngu um plássið og ók honum austur, enda sjálfur forvitinn um þennan nýja togara. „Í sannleika sagt þá sönnuðu þessir fyrstu skuttogarar sig strax og ég var alsæll að fá að kynnast þarna vinnubrögðunum um borð í þeim,” segir Þorsteinn í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar. „Ég lærði mikið um borð í Barða og þarna fékk ég fyrst tekjur sem orð voru á gerandi. Þessar tekjur björguðu mér í stýrimannanáminu veturinn eftir.“ Um borð í Barða kynntist hann Sævari sem þá var 17 ára, en þeir félagar unnu mikið saman. Á einni vaktinni, þegar verið var að taka troll við Hvalbakinn, voru þeir Þorsteinn og Sævar að taka á móti toghleranum bakborðsmegin og ganga frá honum. Þorsteinn lýsir því sem næst gerðist: „Allt í einu strekkist á vírnum og hann skellur á bringunni á Sævari með heljarafli. Við höggið tekst Sævar á loft, þeytist yfir lunninguna og hafnar í skutrennunni. Hann skellur með höfuðið í rennuna og ég man enn þá hljóðið sem heyrðist þegar höfuðið skall í. Það er hljóð sem aldrei hverfur úr minninu.“ Þorsteinn gaf sér engan umhugsunartíma heldur hentist hann niður rennuna á eftir Sævari og náði taki á honum rétt áður en hann skall í sjóinn. „Mér finnst í reyndinni ótrúlegt að við skyldum ekki báðir renna í sjóinn en svo heppilega vildi til að rennan var þurr og veður gott og líklega var það okkur báðum til lífs. Ef við hefðum lent í sjónum hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum enda trollið aftan í skipinu.“ Þorsteinn og Sævar unnu saman um borð í Barða NK-120 en hann var fyrsti hefðbundni skuttogarinn í eigu Íslendinga. Ljósmynd/Guðmundur Sveinsson Þorsteinn fór samstundis að fikra sig upp rennuna og draga Sævar með sér. „Félagar okkar hafa ugglaust komið fljótt til aðstoðar þó að ég muni ekkert eftir því. Þegar upp á dekk var komið stumruðum við yfir Sævari og það var svo sannarlega óhuggulegt. Það blæddi úr öllum vitum hans. Það blæddi úr eyrum, nefi og munni og óhuggulegast var að það blæddi einnig úr augunum.“ Ljóst var að Sævar var höfuðkúpubrotinn en hann var borinn í koju. Strikið var tekið til Neskaupstaðar og Sævar sendur með hasti suður með sjúkraflugvél. Þorsteinn segir að atvikið hafi seint liðið sér úr minni og hann hafi oft hugsað til Sævars og langað til að hitta hann á ný. Rúm hálf öld leið áður en af því varð, en sem fyrr segir hittust þeir fimmtudaginn síðasta, 27. nóvember. „Við hófum að ræða málin rétt eins og við gerðum á Barða fyrir rúmlega hálfri öld,“ sagði Þorsteinn. Glímdi við eftirköstin alla æviSævar starfar í dag sem pípulagningameistari í Neskaupstað. Sjálfur man hann takmarkað eftir slysinu en í mörg ár þurfti hann að glíma við eftirköst þess. „Ég fékk lýsingar á því hvað gerðist og það fer ekkert á milli mála að þarna bjargaði Þorsteinn lífi mínu og ég stend í ævarandi þakkarskuld við hann,“ segir Sævar. Hann var meðvitundarlaus í þrjár vikur eftir slysið og móður hans, sem sat yfir honum allan tímann á Landakotsspítala, var sagt að búa sig undir það versta. Sævar kom læknunum ljóslega á óvart þegar hann rankaði við sér en hans beið langt bataferli og það var ekki fyrr en tveimur árum seinna sem hann gat byrjað að vinna á ný. „Höfuðkúpubrotið leiddi til þess að ég missti jafnvægisskynið og hafði sífelldan svima. Þá missti ég lyktarskyn og bragðskyn. Bragðskynið kom að hluta til aftur en lyktarskynið hvarf endanlega. Heyrnin hvarf í eina tvo mánuði og kom aldrei fullkomlega til baka á hægra eyra. Ég þjáðist af höfuðverk árum saman, einkum þegar ég var á sjó. Ég glímdi einnig við það vandamál í ein sjö ár að þegar ég reis úr rúmi að morgni þá steinleið yfir mig. Þá ber að nefna að í fyrstu, eftir að ég komst til meðvitundar, var ég hálfmállaus.“ Sævar segist hafa kannað hvort hann fengi greiddar bætur en þær hafi ekki verið auðsóttar þar sem áverkarnir voru ekki sýnilegir útvortis. Á þeirri rúmu hálfu öld sem leið segir Sævar að hugurinn hafi oft leitað til björgunarmanns síns. „Það var svo sannarlega ánægjulegt að hitta hann. Þorsteinn bjargaði lífi mínu og það er ekki hægt að gera meira fyrir nokkurn mann,“ sagði Sævar. Að lokum má nefna að það sem leiddi Þorstein til Neskaupstaðar að þessu sinni var að sonur hans hafði fengið pláss á Blængi NK, frystitogara Síldarvinnslunnar. Taldi Þorsteinn réttast að keyra með soninn austur, rétt eins og faðir hans gerði árið 1971. Skrifað af Þorgeir |
Eldra efni
Um mig Nafn: Þorgeir BaldurssonFarsími: 8620479Tölvupóstfang: thorgeirbald62@gmail.comHeimilisfang: Reynihlið 15 D 604 HörgárbyggðStaðsetning: HörgárbyggðUm: Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist SjávarútvegiTenglar
Flettingar í dag: 199 Gestir í dag: 3 Flettingar í gær: 1265 Gestir í gær: 25 Samtals flettingar: 2333732 Samtals gestir: 69660 Tölur uppfærðar: 3.12.2025 02:19:03 |
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is