Fiskaði kvótann á tíu dögum við Grænland.
Skip moka nú upp vænum þorski við austur Grænland. Togari frá þýsku útgerðarfélagi í eigu Samherja kemur til Hafnarfjarðar í fyrramálið með metafla, 700 tonn af frystum flökum.
Fram kemur í fréttum á ruv.is að íslendingar eigi engan kvóta við austur Grænland en sjómenn segja að þar hafi verið mikil og góð þorskveiði undanfarin 2 ár. Skip frá Evrópusambandinu hafa nú í fyrsta sinn í langan tíma fengið kvóta við Grænland og hafa komist í mokveiði. Þýski togarinn Kiel, sem er óbeint í eigu Samherja, hefur undanfarið veitt þorsk við austur Grænland. Skipstjórinn Brynjólfur Oddsson er eini Íslendingurinn um borð en áhöfnin er þýsk. Á 10 dögum veiddist þar allur þorskkvóti skipsins sem gerði um 700 tonn af frystum flökum.
Brynjólfur skipstjóri segir að þetta sé orðinn besti túr sem um getur á skipinu, fyrir heildaraflann fáist á bilinu 400 til 450 miljónir. Í raun hafi þeir ekki haft undan að frysta aflann, í besta halinu hafi þeir fengið 30 tonn á 15 mínútum.
Góð þorskveiði við austur Grænland vekur athygli þegar dregið er úr þorskveiði hér við land, segir Kristján Vilhelmsson útgerðarstjóri Samherja.
heimild www.123.is/skipamyndir mynd þorgeir baldursson