26.08.2008 17:43

Viðtal við skipstjórann á Kaldbak EA


             1395. Kaldbakur EA 1 © mynd Þorgeir Baldursson

Kaldbakur EA veiðir þorsk nánast eingöngu sem meðafla:

 Þorskur þar sem trollinu er dýft

 Kaldbakur EA hefur stóran hluta fiskveiðiársins sem nú er að ljúka stundað ýsuveiðar á grunnslóð. Þrátt fyrir að mega veiða talsvert af þorski hefur hann nær eingöngu verið veiddur sem meðafli. Skipstjórinn á Kaldbak er efins um að flotinn nái að veiða allan ýsu- og ufsakvótann á næsta ári vegna slæmrar kvótastöðu margra í þorski.

 ,,Við vorum að enda við hífa í Þverhálsbotni sem er norður af Horni en það var ekki nema eitt tonn af ýsu í halinu sem er fremur lítið en þetta er ágætisýsa," sagði Jóhann Gunnarsson, skipstjóri á Kaldbak EA, þegar Fiskifréttir náðu tali af honum fyrir skömmu. ,,Kaldbakur er búinn að vera úti fyrir Austurlandi síðan í apríl og þetta er fyrsti dagurinn okkar hér fyrir vestan og get ég því lítið tjáð mig um útlitið á miðunum hér. Ýsuveiðin fyrir austan hefur verið ágæt og ætli við séum ekki búnir að veiða um 2.000 tonn af ýsu á kvótaárinu og mest hefur farið í gáma til útflutnings. Við höfum aftur á móti orðið lítið varir við ufsa á þeim slóðum sem við stundum. Ufsinn er flökkufiskur og við veiðum hann þegar hann nánast kemur upp í hendurnar á okkur, en svo sjáum við hann ekki í langan tíma þess á milli," segir Jóhann.

 Þorskur allsstaðar

 ,,Þegar við vorum fyrir austan lönduðum við yfirleitt á Eskifirði, annars erum við ekki háðir neinni sérstakri löndunarhöfn. Öllum þorski er keyrt til ÚA á Akureyri og ufsinn fer til vinnslu hjá Laugafiski í Reykjadal.

Þrátt fyrir að mega veiða þó nokkuð af þorski veiðum við hann nánast allan sem meðafla því það er sama hvar maður dýfir trollinu, allstaðar er þorskur. Á þessu kvótaári erum við búnir að taka örfáa daga á þorskslóð og þar sem við höfum prófað hefur verið góð veiði. Af því sem ég hef séð hlýtur að vera mjög erfitt fyrir þá sem hafa litlar þorskveiðiheimildir að sækja ýsu og annan botnfiskafla.

Jóhann Gunnarsson skipstjóri á Kaldbak EA 1 © mynd Þorgeir Baldursson

Þorskniðurskurðurinn á þessu og á næsta ári er allt of mikill. Ef  það á að vera hægt að veiða annan botnfiskkvóta og ganga vel um auðlindina þarf þorskkvótinn að vera 180 þúsund tonn. Ellegar verður einnig að minnka úthlutun í öðrum tegundum verulega. Þá tel  ég áríðandi að íslensk stjórnvöld  reyni að ná samningum um "íslenska þorskinn" við Austur-Grænland. Það er greinilegt af fréttum að þorskurinn er farinn að sækja í auknum mæli inn í grænlensku lögsöguna samfara hlýnandi sjó og breyttum skilyrðum. Við verðum að gera samning við Grænlendinga um þorskinn eins og til dæmis um loðnuna en ekki hafa það eins og forðum með sameiginlegan rækjustofninn á Dohrnbanka, gera ekkert. Ég vil sjá íslensk skip fara til veiða á sameiginlegum þorskstofni við Austur-Grænland," segir Jóhann.

 Aðgerðavélar um borð

 Kaldbakur er eitt af fáum skipum í íslenska flotanum sem er með aðgerðarvélar um borð. ,,Vélarnar hafa reynst mjög vel en við notum þær eingöngu fyrir ýsu og ufsa. Fisknum er krækt á band sem flytur hann að hálfgerðum sagarblöðum sem rista fiskinn upp og svo eru burstar sem hreinsa innyflin úr honum. Það er alveg hægt að nota vélarnar á þorsk en þar sem hann er miklu verðmætari fiskur erum við viðkvæmari fyrir nýtingunni á honum þar sem skurðurinn í vélinni er ekki jafn fínn og þegar gert er að í höndum. Vélarnar auka afköstin margfalt og þegar vel gefur af ýsu og ufsa nýtast þær mjög vel," segir Jóhann.

 Aflinn fyrir austan að minnka

 ,,Ástæðan fyrir því að við flutum okkur vestur er sú að ýsuaflinn fyrir austan var farinn að minnka og svo á að opna hólf norður af Horni sem við ætlum að kíkja í. Ég veit ekki hvað við verðum hér lengi, það ræðst af veiðinni.

Í grófum dráttum hefur fiskveiðiárið sem nú er að líða verið ágætt. Við hófum veiðar á árinu úti fyrir Norðurlandi, frá Grímsey og austur undir Langanes, og vorum þar fram undir áramót. Í byrjun janúar fórum við austur fyrir land og höfum verið á veiðum á Digranesflaki og suður undir Lónsdýpi. Við tókum að vísu tvo eða þrjá túra á norðausturhorninu á tímabilinu frá janúar til mars en frá því í apríl höfum við eingöngu verið fyrir austan. Við stoppuðum tvær vikur í júlí/ágúst. Eftir verslunarmannahelgina fórum við einn túr austur en lönduðum síðasta túr á Akureyri," segir Jóhann.

 Efins um að ýsan náist

 Í áhöfn Kaldbaks eru tuttugu hressir karlar af Norður- og Austurlandi en þeir eru þrettán um borð í einu að sögn Jóhanns. ,,Ég geri ráð fyrir að næsta fiskveiðiár verði svipað hjá okkur og það sem er að líða hvað veiðar varðar og ég er hóflega bjartsýnn á að veiðar á ýsu gangi jafnvel. Mér skilst að minna  hafi orðið vart við hana hér fyrir vestan en undanfarin ár. Kaldbakur hefur notið þeirra forréttinda að mega veiða ýsu á svæðum þar sem talsvert af þorski veiðist sem meðafli, það geta ekki allir vegna slæmrar kvótastöðu í þorski," segir Jóhann Gunnarsson.

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 489
Gestir í dag: 126
Flettingar í gær: 996
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 621696
Samtals gestir: 26961
Tölur uppfærðar: 7.5.2024 08:47:33
www.mbl.is