Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir reglugerð um hertar kröfur varðandi eldsneyti í íslenskri landhelgi, sem í raun bannar notkun svartolíu innan hennar. Bannið er meðal annars liður í að framfylgja aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, sem og stjórnarsáttmála.
Frá þessu er greint á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
Þar segir að svartolía, sem meðal annars er notuð í skipasiglingum, mengi meira en annað eldsneyti. Þegar hún brenni losni mikið af sóti út í andrúmsloftið.
„Með þeim breytingum sem ég hef nú skrifað undir verður Ísland með einar ströngustu kröfur í heimi hvað varðar svartolíu,“ er haft eftir Guðmundi Inga.
„Sambærilegar kröfur munu gilda um brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti í íslenskri landhelgi og nú gilda á svokölluðum ECA-svæðum í Eystrasalti og Norðursjó þar sem kröfurnar eru strangastar. Þar er um ákveðin svæði að ræða en hér á landi látum við reglurnar ná til allrar landhelginnar.“
Um er að ræða breytingu á reglugerð nr. 124/?2015 um brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti. Auk tilætlaðs ávinnings fyrir loftslagið er breytingunni ætlað að stuðla að betri loftgæðum við strendur Íslands og hvetja til notkunar á loftslagsvænni orkugjöfum á skipum.
Með breytingunum verður leyfilegt brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti á Íslandi einungis 0,1% innan landhelginnar og á innsævi, það er einnig í fjörðum og flóum. Leyfilegt innihald er í dag 3,5%.
Breytingarnar taka gildi 1. janúar n.k. og sama dag taka þær breytingar gildi að innan mengunarlögsögunnar en utan landhelginnar mun leyfilegt brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti lækka niður í 0,5%. Það er í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands samkvæmt viðauka VI í MARPOL-samningnum sem Ísland fullgilti í febrúar 2018.?????
|