Færslur: 2010 Desember25.12.2010 22:32Jólaviðtalið kallinn i brúnni Hilmar Helgasson skipstjóri © mynd Kristinn Benidiktsson 2010 Hrafn Sveinbjarnarsson Gk 255 © mynd Kristinn Benidiktsson 2010 TEXTI OG MYNDIR: KRISTINN BENEDIKTSSON
"Mín skoðun er sú að við ættum að veiða miklu meira af þorski en Hafró leggur til. Það er langt síðan að auka átti þorskveiðiheimildirnar," segir Hilmar Helgason skipstjóri á Hrafni Sveinbjarnarsyni GK 255 við blaðamann Fiskifrétta sem með engum fyrirvara er staddur í brúnni hjá honum vestur á Halamiðum til að fylgjast með veiðum og vinnslu þegar nóvemberbrælan er að ganga niður í lok síðasta mánaðar.
Grænlandsgöngur
,,Nú eru liðin um það bil 4 til 5 ár síðan við togaraskipstjórarnir urðum varir við þorsk á 450 faðma dýpi á Hampiðjutorginu. Fyrst tókum við eftir þessum þorski í desember/janúar þegar við lentum í að hífa 10 tonn þar sem ekki átti að vera fræðilegur möguleiki á að veiða þorsk. Það sama gerðist svo í júnímánuði ár hvert, skipin ráku í 10-15 tonna höl á sömu slóðum. Við höfum alltaf talið að þarna væri Grænlandsþorskur að ganga yfir á Íslandsmið í töluverðu magni til að hrygna og svo til baka til Grænlands um sumarið að hrygningu lokinni. Hjá Hafró vildi hins vegar enginn hlusta á okkur og taka mark á þessum fréttum," segir Hilmar.
"Á þessum tímapunkti átti auðvitað að stórauka þorskveiðarnar við Ísland enda er ég alveg sannfærður um að Grænlandsgöngur þorsks hafi lengi átt sér stað. Þegar ég var að byrja með Gnúpinn GK árið 1988 tók ég eftir að þorskur gekk í miklu magni upp á grunnið við Melsekkshornið og dreifðist austur með landinu og vestur með því. Við urðum síðan vitni að því að eftir því sem sjórinn fór hlýnandi færðust göngurnar norðar og norðar. Þær voru að koma upp Víkurálinn 10 árum síðar en nú gengur þorskurinn yfir Hampiðjutorgið inn á Vestfjarðamið. En það vill enginn hlusta," segir Hilmar og er búinn að koma sér aftur fyrir við stjórntækin eftir að hífð voru 8 tonn af blönduðum fiski mest þorski."
Suður eftir Olnboganum
Niðri í skipinu kepptist morgunvaktin á fullu við að pakka þorskinum, helmingnum af síðasta hali, sem stýrimaðurinn skaut á að væru 5-6 tonn að minnsta kosti, þegar pokinn lá á dekkinu nokkru áður. Nú er ekkert annað í stöðunni en að koma sér af svæðinu og leita af ufsa því þorskskammturinn í túrnum er kominn.
Hilmar skipstjóri stendur vaktina og stýrir skipinu á toginu suður eftir Olnboganum í átt að Menjunni, þar sem hann ætlar að toga upp fyrir flakið og snúa þar við. Olnboginn er, eins og nafnið gefur til kynna, mjór aflíðandi hryggur sem skilur að Litla-Vik og Stóra-Vik í kantinum vestur af Halanum.
"Nú hef ég verið grynnra en hin skipin til að freista þess að fá meiri karfa. Ætli togtíminn verði ekki hátt í fimm klukkustundir þegar kemur að hífingu," segir hann og bendir mér á stóran rauðan punkt á plotternum. "Þetta er Menjan, mjög gamalt flak. Hér hafa margir tapað trollinu í festunni," segir hann og bætir við að þegar Þjóðverjarnir voru að byrja að fiska á þessu svæði snemma á síðustu öld settu þeir út bauju á ákveðnum stað. Síðan röðuðu skipin sér upp og toguðu hlið við hlið, skráðu dýpistölur og festur, og teiknuðu þannig upp botninn á stóru svæði.
Hálfsjóveikur í fyrstu
Hilmar er einn reyndasti skipstjórinn í togaraflotanum í dag enda búinn að vera lengi til sjós og man tímana tvenna á þessum fimm áratugum sem hann hefur verið á sjónum. Hann er fæddur í Grindavík árið 1949, sonur hjónanna Helga Aðalgeirssonar skipstjóra og Guðmundu Svanborgar Jónsdóttur húsfreyju.
,,Ég ólst upp þar sem allt líf snerist um báta og veiðar frá morgni til kvölds. Hvergi komu tveir menn eða fleiri saman svo ekki væri talað um fiskiríið og sjósóknina. Ég var 14 ára, þegar ég var ráðinn sem beitningamaður á Guðjón Einarsson GK, sem Sigurgeir Guðjónsson gerði út og síðan fór ég árið eftir á Hafrenning GK, 50 tonna bát, sem Hafrenningsútgerðin byrjaði með en Sigurpáll, bróðir pabba, var skipstjóri.
Ég var alltaf hálfsjóveikur í fyrstu enda var svo slæm slagvatnslykt í þessum gömlu bátum að hún ætlaði mig lifandi að drepa. Ég man eftir þessu eins og það hefði gerst í gær. Þetta voru viðburðaríkir tímar enda voru margir skrautlegir einstaklingar í áhöfninni eins og Þorbergur Sverrisson, vélstjóri, sem gekk undir nafninu Beggi í Brimnesi, annálaður sjóari í Grindavík. Einnig voru þrír bræður úr Reykjavík, sem verið höfðu með Sigurpáli í mörg ár, en þeir voru Ingi kokkur, Óskar og Geiri, alltaf kallaðir Bakkabræður. Þetta voru allt karlar á miðjum aldri sem voru svaðblautir og var oft skrautlegt þegar verið var að fara út eftir helgarnar og karlarnir að veltast um borð. Þarna upplifði maður vertíðina í Grindavík eins og hún gat best orðið, þrældómsvinna, eins og var á árum áður. Um sumarið var svo farið á humarveiðar. Bátar á þessum árum voru nánast tækjalausir. Við vorum radarlausir en það kom ekki mikið að sök því karlinn notaðist við dýptarmælinn sem var þess tíma staðsetningartæki ef ekki sást til lands svo hægt væri að taka landmið."
Radarinn var töfratæki
Um vorið fór ég með Sigurpáli til Reykjavíkur á bátnum þar sem settur var í hann nýr radar sem þá þótti töfratæki. Á heimleiðinni skall á svarta þoka þegar við vorum komnir suður fyrir Reykjanes og sá ekki til lands. Sigurpáll kunni ekkert á radarinn og var hálfhræddur við tækið. Hann bað mig að horfa í hann og vita hvort ég myndi ekki þekkja Hópsnesið. "Þú hefur séð í radarinn hjá pabba þínum, svo þú ættir að þekkja nesið," sagði hann við mig. Hann vissi að ég hafði oft þvælst með pabba á sjó. "Ég var ekkert að pæla í því," svaraði ég og var engan veginn tilbúinn að axla þessa ábyrgð. Þá sendi hann mig fram á stefni bátsins og sagði mér að láta sig vita þegar ég sæi brjóta á skerjum. Hann sigldi síðan í átt að landi þar til dýptarmælirinn sýndi 30 faðma dýpi og þar tók hann strikið í austur átt. Eftir þetta var auðvelt að sigla inn til Grindavíkur í svartri þokunni. Seinna um sumarið gerðist skondið atvik er við urðum að fara sérstaklega í land með bilaðan radar. Má segja að ekki hafi tekið langan tíma fyrir karlinn að verða svo háðan nýrri tækni að allt varð ómögulegt þegar tækið virkaði ekki sem skyldi," segir Hilmar brosandi.
Farðu í fraktina
Þegar Hilmar var á vertíð þá 18 ára gamall á bát föður síns, Þorbirni II GK, fékk hann svo heiftarlega í bakið að hann varð að hætta á bátnum. Læknirinn sem hann leitaði til sagði honum í fullri alvöru að ef hann ætlaði að vera áfram til sjós skyldi hann fá sér kastskeyti á hausinn og fara í fraktina. Í framhaldi af því réði Hilmar sig á flutningaskip Sambandsins. Þar var hann næstu árin og sigldi vítt og breitt, allt frá Hvítahafi í norðri til Portúgals í suðri og Ameríku í vestri.
,,Mér er sérstaklega minnisstætt frá þessum tíma hve staðsetningartækin voru frumstæð en það var eingöngu sextantinn og himintunglin þegar sást til þeirra. Á leiðinni yfir hafið var venjan, þegar sást til sólar, að 2. stýrimaður tæki stöðuna um klukkan ellefu á morgnana og svo aftur í hádeginu. Skipstjórinn kom svo upp og tók stöðuna ásamt 3. stýrimanni um tvöleytið með sínum sextant, sem enginn annar í áhöfninni fékk að snerta. Þetta var auðvitað mjög frumstætt en allt eftir kúnstarinnar reglum," sagði Hilmar en þegar hér var komið sögu ákvað hann að taka slaginn og fara í Stýrimannaskólann enda bauðst honum að vinna með náminu hjá útgerðinni.
Sigldi til Ísafjarðar á útreikningunum
"Í minni fyrstu ferð sem stýrimaður lenti ég með einum af elsta skipstjóranum í flotanum, Bernharð Pálssyni, en hann var alveg ævaforn í háttum. Hann hafði verið í leiðangri til Grænlands að sækja sauðnaut til Gothhaab og svo var hann á doríuveiðum á Hæringi við Grænland 1931. Hann þéraði hvern mann og titlaði, ávarpaði mann aldrei með nafni, þegar hann var á vakt. Við vorum að fara út frá Patreksfirði þegar ég hitti hann fyrst. Hann lét mig slökkva á radarnum og mæla staðsetninguna með því að setja skriðmæli út aftur á og miðunarskífu út á brúarvæng. Hann fylgdist vel með mér því svo sagði hann: "Svo farið þér tvær mílur af" og lét mig sigla til Ísafjarðar með þessum hætti eða tvær mílur frá ystu nesjum. Hann var mjög klár og fór að skóla mig til. Hann kenndi manni að sigla eftir landmiði enda var leitun að öðrum sem kunni betur á ströndina allt í kringum landið. Hann sýndi mér leiðina fyrir Straumnes sem farin var grunnt í brælu. "Í norðaustan brælu farið þér 0,2 sjómílur frá landi og síðan á tveimur bárum yfir röstina, sagði karlinn, en ég prófaði það hins vegar aldrei," segir Hilmar og bætir við að hann hafi sýnt honum gatleiðina fyrir Látrabjarg og innan skerja fyrir austan land. Alltaf að finna stystu leið á milli hafna.
Eigin útgerð endaði illa
"Ég kynntist konunni minni, Rögnu Valdimarsdóttur, fyrst á balli í Ungó í Keflavík 1967 þar sem Pónik og Einar spiluðu. Hún var frá Grenivík og var að vinna á vertíð í frystihúsi í Keflavík ásamt nokkrum vinkonum sínum. Við hittumst svo aftur seinna og hófum búskap og eignuðumst okkar fyrsta barn, Helga, árið 1973. Hún átti þá Guðbjörgu Önnu, sem fæddist 1968 og ól ég hana upp sem mína eigin dóttur. Síðan eignuðumst við Valdimar 1976, Svanborgu 1984 og Guðrúnu Sif 1988.
Ég ákvað að hætta í fraktinni 1977, mér fannst alveg óþolandi að vera í burtu frá fjölskyldunni langtímum saman. Eftir vertíð á Víkurberginu GK ákveðum við Ragna á flytja til Húsavíkur. Keyptum 35 tonna bát frá Grundarfirði, Kóp SH, til að stunda rækjuveiðar. Þá var góður gangur í rækjunni fyrir norðan, úthafsrækjuveiðarnar að byrja og innfjarðarrækjan á fullu. Þessi útgerð varð heldur endaslepp þegar báturinn brann eftir nokkra róðra sem höfðu gengið mjög vel. Ég lenti illa út úr þessu tjóni þar sem ég hafði keypt bátinn á yfirverði miðað við tryggingar og var mörg ár að vinna mig út úr ævintýrinu. Ég réði mig sem stýrimann síðla sumars 1978 á Blika ÞH, 50 tonna bát, með Hinriki Þórarinssyni annáluðum rækjukarli á Húsavík. Hann var sko flottur. Við þvældumst alla leið á Dohrnbanka sem var meira en að segja það á þessari blöðru einkum þegar komið var fram í september og allra veðra var von. Við gerðum feiknagóða túra þangað og lönduðum rækjunni hjá Olsen á Ísafirði á toppverði."
Fór upp allan stigann
Næsta sumar byrjaði ég svo sem háseti á Júlíusi Havsteen ÞH 1 og gegndi öllum stöðum um borð nema að vera vélstjóri. Ég byrjaði sem sagt sem háseti og varð kokkur, netamaður, bátsmaður, stýrimaður og skipstjóri. Fór upp allan stigann eins og hann lagði sig. Júlíus Havsteen ÞH var smíðaður á Akranesi. Húsvíkingar gerðu strax rétt, þegar þeir fengu skipið, að ráða reyndan skipstjóra í byrjun. Hann fengu þeir frá Akureyri, Benjamín Antonsson, sem verið hafði lengi stýrimaður þar á togurum og leyst af sem skipstjóri á Svalbaki EA. Ég var alltaf slæmur í bakinu þannig að 1981, þegar Kolbeinsey ÞH kom, sá ég mér leik á borði og var ráðinn 1. stýrimaður og afleysingarskipstjóri á Júlíusi ÞH. Við höfðum verið á bolfiskveiðum alveg frá því að skipið kom til Húsavíkur en á árunum 1982-´84 skall á olíukreppa og hún skapaði víða erfiðleika. Á þessum tíma varð enn frekari uppgangur í rækjuveiðunum. Norðmenn keyptu alla rækju sem veiddist á uppsprengdu verði og sendu sérstök flutningaskip til landsins til að sækja farmana. Því var skipt yfir á úthafsrækjuveiðar á Júlíusi ÞH þar sem miklu minni olíueyðsla var á slíkum veiðum en bolfiskveiðunum en það réðist af því að toghraðinn var miklu minni á rækjunni. Við vorum á úthafsrækju og ísuðum rækjuna fyrstu tvö árin en síðan var sett vinnsla um borð og rækjan soðin eða fryst á Japansmarkað og lengdust þá túrarnir úr viku í tvær," segir Hilmar og tekur sér málhvíld og svarar í símann.
Aftur til Grindavíkur fyrir tilviljun
"Árið 1988 varð mikill vendipunktur á mínum sjómannsferli sem réðist af algjörri tilviljun vil ég meina þegar mér bauðst að taka við Gnúpi GK sem Þorbjörn hf. í Grindavík var að semja um kaup á af Granda í Reykjavík. Það voru blikur á lofti fyrir norðan fannst mér. Vinur minn á Kolbeinsey ÞH fékk í bakið og varð að hætta til sjós en fékk enga vinnu í landi fyrir norðan við sitt hæfi hvernig sem hann reyndi. Ég settist niður með konunni minni og við ræddum málin í mikilli alvöru þar sem ég gæti lent í þessari sömu stöðu og því úr vöndu að ráða. Við ákváðum að setja húsið okkar á sölu og vorum að ganga frá sölu á því, þegar pabbi hringdi í mig og sagði að Eiríkur Tómasson vildi ná tali af mér. Eiríkur gaf mér lítinn tíma til að hugsa þegar hann hafði upplýst mig um erindið og því var ég orðinn skipstjóri á togara í mínum fæðingarbæ eftir öll þessi ár fyrir algjöra tilviljun," segir Hilmar og rifjar upp að það hafi verið mikil vinna en ánægjuleg að koma aftur til Grindavíkur 1988 og taka við þremur skipum á 18 mánuðum.
Saltað á sjó og síðan fryst
Gamli Gnúpur GK, sá fyrsti, var Ásþór RE frá Granda. Lítill togari og tækjalítill. Eftir nokkra ísfisktúra var Stefanía, gömul flatningsvél, reyndar sú fyrsta sem kom til Grindavíkur 1953, hífð niður á millidekkið ásamt hausara, skolkörum og færiböndum og skipið útbúið til saltfiskverkunar. Fremst í lestinni var þiljað af fyrir ísfisk en körum komið fyrir í lestinni og þar var þorskurinn pækilsaltaður. Þetta var brautryðjandastarf í slíkri vinnslu á sjó. Síðan var fiskurinn umsaltaður í landi áður en honum var pakkað til útflutnings. Með þessu móti fékkst fyrsta flokks saltfiskur, svokallaður SPIG fiskur, sem var bjartari en neta- og snurvoðarfiskur, en markaðirnir á Spáni, Ítalíu og Grikklandi borguðu mun betur fyrir slíkan fisk og kölluðu eftir honum í æ ríkara mæli. Að sögn Hilmars tók langan tíma að slípa saman áhöfnina fyrir þessa vinnslu, því sjómönnum sem voru vanir stuttum túrum á ísfiski gekk misvel að aðlagast lengri túrum á vinnsluskipi og auk þess alls óvanir slíkri vinnslu. Það gekk á ýmsu en með þrautseigju náðist býsna góður árangur einkum eftir að gamla Guggan, áður Guðbjörg ÍS og síðar Snæfugl SU, kom frá Reyðarfirði í byrjun árs 1989 og fram fóru skipti á skipum vegna úreldingar fyrir austan. Bæði var það skip betur tækjum búið og miklu meira rými á millidekki og í lest fyrir vinnsluna.
Snæfellið keypt
"Í lok þessa árs keypti Þorbjörn hf. frystitogarann Snæfell EA frá Hrísey og var útgerðinni ekki spáð vel hvað það skip varðaði. Þótti mörgum þetta vera feigðarflan hjá þeim feðgum. Þeir gáfu skipinu nafnið Hrafn Sveinbjarnarson GK 255, nafn sem verið hafði með útgerðinni alveg frá upphafi. Þetta var nýsmíði, búin fullkomnustu siglingartækjum og öðrum tækjum bæði til siglingar og vinnslu. Glæsilegasta skip sem hefði mátt vera nokkrum metrum lengra auk þess sem það var kvótalítið þannig að Hríseyingar réðu ekkert við að reka það. Þorbjörninn fékk 1.200 þorskígildistonn með því sem þótti ekki mikið fyrir vinnsluskip en á móti átti útgerðin töluvert af ufsa- og karfakvóta sem ekki nýttist í saltfiskvinnsluna. Ljóst var að vinnsla fyrirtækisins væri að færast meira út á sjó í ljósi breyttra skilyrða í þjóðfélaginu á þessum tíma.
Með mikilli útsjónasemi og þrautseigju bæði til lands og sjávar tókst að komast í gegnum erfiðleikana og snúa vörn í sókn. Við fórum að nýta okkur möguleika sem buðust í kerfinu til að breyta tegundum og freista þess að lengja úthaldið. Sem dæmi fengum við tvö tonn af grálúðukvóta á móti tonni af þorskkvóta en það átti seinna eftir að aukast upp í 3-4 tonn af grálúðu á móti þorsktonninu. Með þessu móti tókst okkur að bæta kvótastöðuna auk þess sem við hófum meðal annars að veiða gulllax. Á þessum árum fiskuðum við allt niður í 150 tonn af þorski en vorum aðallega ufsa, grálúðu og karfa," segir Hilmar og rifjar upp þegar veiðarnar hófust á gulllaxinum.
Ólympískar gulllaxveiðar
"Við vorum eitt fyrsta frystiskipið sem byrjaði að leggja sig eftir þessum fiski um 1995 ásamt Vestmannaey VE. Gulllaxinn er hægvaxta djúpsjávarfiskur. Hann verður 27 ára gamall, 55 cm langur og við veiðum við hann í botntroll með klæðningu. Fiskurinn er alveg hvítur, bragðlaus, með óhemjumikið af gelatinbindiefni í holdinu. Hann hefur því verið mikið notaður í bland við aðrar fisktegundir í fars og hakk. Í fyrstu sinntu örfá skip þessum veiðum en 1998 þegar flotinn hætti Smuguveiðum helltist hann yfir svæðið eins og alltaf vill verða þegar einhverjum gengur vel með eitthvað. Í framhaldi varð ofveiði, markaðurinn yfirfylltist og verðið féll. Þá tókum við síldarflökunarvél um borð, flökuðum gulllaxinn og bjuggum til marning sem seldur var til Noregs með góðum árangri um tíma. Sjávarútvegsráðherra hefur þráast við að setja gulllaxinn í kvóta með þeim afleiðingum að hafist hafa ólympískar veiðar á tegundinni. Gulllaxinn hefur verið góður meðafli fyrir þessi skip sem mega lítið vera í þorski en nú er ljóst að það gengur ekki lengur," segir Hilmar og heldur áfram að rifjar upp:
Grálúðuskammturinn tekinn í 14 hölum
"Árið 1998 jókst grálúðuveiðin á Hampiðjutorginu og skömmtuðum við okkur 100 tonn í mánuði. Þegar komið var fram á árið 2001 tókum við þennan skammt í 14 hölum en síðan var farið í gulllax til að drýgja túrinn. Á þessum tíma fengust 4 tonn af grálúðu fyrir þorsktonnið. Þá lagði Hafrannsóknarstofnun til aukningu á grálúðukvótanum sem kom alltof seint eins og venjulega og samþykktu stjórnvöld það, en ekki fyrr en grálúðustofninn var kominn í niðursveiflu. Þetta var oftar en ekki "lógikin" hjá þeim, blessuðum," segir Hilmar og glottir um leið og hann áréttar að allt tal um að fiskifræðingar hlusti á þá skipstjórana og hafi við þá samráð sé marklaust. "Þetta er tómt bull því þeir þykjast hlusta en taka ekkert mark á því sem við segjum. Þannig hefur það alla tíð verið. Þeir eru að lágmarki tveimur árum á eftir með sínar ákvarðanir frá því að við leggjum eitthvað til við veiðarnar. Sennilega er það til þess að ekki sjáist glögglega hvaðan hugmyndirnar koma." Hilmar tekur sér málhvíld og ætlar að fara að hífa.
Kynntist veiðum austantjaldsskipa
"Árið 2001 byrjuðum við á úthafskarfanum suður á Reykjaneshrygg með ágætum árangri. Íslensku skipin veiddu mikið á 100-150 faðma dýpi með misgóðum árangri fyrr um vorið en einhverra hluta vegna sneri ég aftur þangað eftir sjómannadag sem þótti nú heldur seint. Ég var þarna einskipa þar til ég flæktist enn sunnar og var kominn 150 sjómílur suður og vestur fyrir 200 mílna línuna. Þarna var þá um 40 skipa floti austantjaldsskipa sem flest voru rússnesk. Ég sá að þau höguðu sér skipulega saman á veiðunum án þess þó að ég gæti fest fingur á hvað væri í gangi. Ég komst í samband við búlgarskan skipstjóra sem talaði góða ensku og smám saman fórum við að skiptast á upplýsingum. Kom þá í ljós að eitt skipið var forystuskip, þaðan sem veiðunum var stjórnað. Skipstjórinn á þessu skipi var eins konar aðmíráll sem gaf skipanir á hverjum morgni hvernig veiðunum yrði hagað þann daginn, hvaða stefna toguð og á hvaða dýpi. Síðan sendu hinir skipstjórarnir upplýsingar um veiðarnar til forystuskipsins í lok dags en flotinn lét reka á nóttinni. Mjög líklega var þarna um borð fiskifræðingur sem vann úr öllum upplýsingum dagsins og lagði út frá þeim línurnar um veiðistefnu og dýpi fyrir næsta dag. Maður skyldi ætla að með þessu móti væru skipin að ryksuga upp fiskinn en staðreyndin var sú að þessi skip, sem ekki voru neitt sérlega stór, fiskuðu ekki neitt sérstaklega mikið. Ekkert í líkingu við íslensku skipin þegar þau voru upp á sitt besta á óskipulögðum veiðum. Þarna komust við að því að hægt var að fá mun fallegri karfa á mun meira dýpi en við þekktum áður, svo segja má að við séum alltaf að læra nýtt og nýtt, hér og þar. Auðvitað er alveg sama hvaðan gott kemur, málið er að vera opinn fyrir því og grípa það þegar það gefst. Nú hagar útgerðin úthafskarfaveiðinni þannig að Gnúpur GK tekur þennan sameiginlega kvóta skipanna í tveimur ferðum þangað suður eftir," segir Hilmar brosandi og svarar Bergþóri á Hrafninum GK sem varð að fara inn á Þingeyri með mann sem hafði meitt sig á fingri en það leit ekki of vel út.
Stöðugt reynt að auka aflaverðmætið
"Í vinnslunni hjá okkur hafa orðið gagngerar breytingar á vinnuaðstöðu sem léttir og auðveldar allt ferlið alveg niður í lest. Mest munaði um að vinnsludekkið var endurskipulagt með nýjum tækjum þar sem Marel-flokkari gjörbreytti vinnslunni og jók pökkunarmöguleikana en áður var allur fiskur handflokkaður. Á tímabili myndaðist sölutregða í þorski á okkar hefðbundnu mörkuðum en með tilkomu nýja flokkarans gátum við boðið kaupendunum mun meiri nákvæmni í vinnslu margvíslegra afurða. Ekki leið á löngu þar til þeir og þá sérstaklega veitingastaðir fóru að sækjast eftir ákveðnum stærðum sem pössuðu í ákveðna skammta á matseðlunum. Þetta jók aflaverðmæti umtalsvert auk þess sem ekki þarf að liggja með afurðir langtímum saman í geymslum heldur er landað beint í gáma merktum hverjum kaupanda. Gámunum er síðan trukkað í millilandaskip í Reykjavíkurhöfn um leið og búið er að landa í Grindavík. Upp úr aldamótunum urðu þær veigamiklu breytingar á sölukerfi fyrirtækisins að starfsmenn þess hófu að sjá um sölu stórs hluta afurðanna af skipunum en salan hafði áður verið í höndum hinna ýmsu sölusamtaka fiskiðnaðarins í Reykjavík. Þannig fæst góð dreifing í sölumálin og kemur væntanlega öllum til góða," segir Hilmar. Hann bætir við að eftir hrun hafi orðið til hálfgerður tilboðsmarkaður, sem fer í gang síðustu dagana á veiðum eða þegar skipið er á leið í land enda liggur þá fyrir hvernig aflasamsetningin er. "Oft bítast tveir eða þrír kaupendur um hvern gám og fær sá sem best býður, auðvitað."
Á flótta undan þorskinum
Tíminn líður hratt og við Hilmar höfum komið víða við. Þegar ég kem upp í brú þennan morgun er Brynjar, stýrimaður, að toga í Sparisjóðnum, togslóð sunnan við Fjöllin ofan við Skerjadýpið. Um nóttina togaði hann á Fjöllunum ásamt Ottó M. Þorlákssyni RE og Jóni Vídalín VE en afraksturinn var ekki merkilegur, 18 pönnur af karfa. Hilmar hefur verið á flótta í heila viku undan þorskinum sem flæddi yfir Halann og keyrði því suður á Kópanesgrunn og síðan í kantinn norðvestur af Patró í von um að reka í ufsa. Hann hafði haft heppnina með sér þegar hann var á Reykjanestánni fyrr í túrnum þegar hann setti í 20 tonn af ufsa einn sólarhringinn. Ufsinn gengur í torfum og er svo kvikur að ekki er á vísan að róa í þeim efnum. Fiskiríið dapraðist á suðursvæðinu þegar frá leið og því setti hann kúrsinn á Vestfjarðarmið í þeirri bjartsýnisvon að hitta þar á meiri ufsa í bland við ýsu og karfa. Þar er sami hittingurinn að reka í góð ufsahöl og annars staðar nema að þar þvældist þorskur alls staðar fyrir. Eftir að hafa eytt tveimur sólarhringum í kantinum 60 mílur vestur af Patró var togað á Tungunni í Víkurálnum og Wilsoncorner, en svo er suðvesturhornið á Látragrunni nefnt, eftir að Bretarnir voru hér við land. Eitt stórt núll var útkoman þarna og sama var með Kolluálinn þar sem hann togaði næst mjög ofarlega til að forðast þorsk. Ekki vantað að það var mikið líf á mælunum, kolmunni og spærlingur, en enginn almennilegur fiskur. Sviðin jörð í þeim skilningi.
Ýsunni rústað
Þennan morgun kemur Hilmar upp í brú léttur í bragði eftir að hafa tekið á því í ræktinni og farið í gufuna á eftir. Stýrimaðurinn setur hann inn í gang mála um nóttina og sest síðan í skrifstofuhornið í brúnni til að ganga frá Millunni, sem er aflaverðmætaforrit skipsins, og reiknar út fyrir hvern sólarhring sem reynist fljótlegt að þessu sinni. Hilmar dæsir yfir aflabrögðunum. Í raun er lítið að segja um þau á þessum árstíma þegar fiskur gefur sig varla til og í raun er verið að spara allar tegundir. Það er stóra staðreyndin í stöðunni. "Við erum með um 70 tonna skammt af þorski fyrir hvern mánaðartúr og því þarf að eltast við ufsann sem er miklu erfiðari viðureignar. Nú er engin ýsa á togaraslóðinni eftir vitleysisganginn með veiðistýringuna á þeim stofni. Ýsustofninum var rústað. Karfann reynum við að spara til að nota með gulllaxinum. Kvótastaða fyrirtækisins er góð en um kvótann bítast þrír frystitogarar og fjögur línuvélbeitningaskip. Hvert skip fær úthlutað ákveðnum kvóta í upphafi hvers fiskveiðiárs frá Fiskistofu en eigendurnir stilla upp nýju dæmi sem miðast við hvernig hagkvæmast er að reka fyrirtækið á hverjum tíma og ekki veitir af í því árferði sem nú ríkir," segir Hilmar Helgason brosandi að lokum. Birtist i jólablaði Fiskifrétta 2010
Skrifað af Þorgeir 25.12.2010 21:56Jólaskipamyndir Samherja skip i Frostþoku © mynd Skapti Hallgrimsson 2010 Isafjarðarhöfn © Mynd Halldór Sveibjörnsson 2010 Fékk sendar þessar tvær myndir annasvegar frá Skapta Hallgrimssyni blaðamanni Morgunblaðsins og hina frá Halldóri Sveibjörnssyni hjá bæjarins besta á Isafirði Skrifað af Þorgeir 25.12.2010 02:442401-Þórunn Sveinsdóttir Ve 401 2401- Þórunn Sveinsdóttir VE 401 © Mynd óskar Pétur Friðriksson 2010 Þórunn i Friðarhöfn á Aðfangadagsmorgun © mynd Óaskar Pétur Friðriksson 2010 Nýja Þórunn við bryggju i Vestmannaeyjum mynd Óskar Pétur Friðriksson 2010 Hið nýja skip Þórunn Sveinsdótir kom til heimahafnar i Vestmannaeyjum i gær Aðfangadag skipið er smiðað i Póllandi og fullklárað i Skagen i Danmörku skipið er mjög vel tækjum búið og munu þvi verða gerð betri skil þegar meiri upplýsingar berast Skrifað af Þorgeir 22.12.2010 08:49Norma Mary H-110 i Höfn á AkureyriNorma Mary H-110 © Mynd þorgeir Baldursson 2010 Jóhannes Þorvarðarsson skipst © mynd Þorgeir Baldursson Norma Mary sem að dóttur fyrirtæki Samherja H/f i Bretlandi keypti fyrr á þesssu ári og hét áður Friðborg FD kom i fyrsta skipti til Akureyrar i gærkveldi frá Grænlandi þar sem að skipið hefur stundað rækjuveiðar afli skipsins var mjög góðu og er skipið með fullfermi skipstjóri er Jóhannes Þorvarðarsson en hann var áður skipstjóri meðal annars á Polonus (ex Akraberg) sem að er systurskip Normu Mary skipið mun nú fara i slipp þar sem að unnið verður að ýmssum lagfæringum meðal annas á millidekki Skrifað af Þorgeir 21.12.2010 12:29Islandsmet i AflaverðmætiVilhelm Þorsteinsson EA 11 © mynd Þorgeir Baldursson 2010 Vilhelm Þorsteinsson EA 11 kom í land með fullfermi af frystum síldarflökum í gær og lauk þar með síðustu veiðiferð þessa árs. Áhöfnin á Vilhelm Þorsteinssyni er búin að veiða um 50.000 tonn og skilar þjóðarbúinu um 3,3 milljörðum kr. á þessu ári, sem er met í aflaverðmæti.
Skipstjórinn Guðmundur Þ. Jónsson hafði fleiri ástæður til að fagna en hann varð fimmtugur á sunnudaginn. Veglega var tekið á móti Guðmundi og áhöfn hans er skipið lagði að bryggju á Akureyri í gær, með dýrindis afmælistertum og að sjálfsögðu var afmælissöngurinn sunginn skipstjóranum til heiðurs. Vilhelm Þorsteinsson veiðir uppsjávarfisk, síld, kolmunna, makríl og loðnu. Skipið er að koma frá veiðum við Norður-Noreg með fullt skip, 570-580 tonn af síldarflökum sem fara á markað í Póllandi og Frakklandi. Það er allt unnið um borð og 90-95% af því fer til manneldis. Í áhöfn eru 24 skipverjar hverju sinni en um 40 sjómenn skiptast á um að vera um borð. Vilhelm heldur aftur af stað 2. janúar á loðnuveiðar. Heimild www samherji.is Myndir ÞORGEIR BALDURSSON 2010 Guðmundur kátur með tertuna mynd þorgeir Skrifað af Þorgeir 21.12.2010 06:43Þórunn Sveins VE 401Hin nýja þórunn Sveinsdóttir VE 401 lagði af stað frá skagen i Dannmörku um miðnætti i nótt og var við suður odda Noregs i morgun skipið er væntanlegt til Eyja á aðfangadagsmorgun sæmkvæmt Ais staðsetningu skipið er hið glæsilegasta að sjá fleiri myndir siðar Skrifað af Þorgeir 19.12.2010 23:19Gluggað i Fiskifréttir Davið Már og Vignir © Mynd þorgeir Baldursson 2001 Hérna má sjá þá félaga glugga i Fiskifréttir meðan beðið er eftir löndun en þeir voru skipverjar á nóta og togveiðiskipinu Hörpu VE sem að Isfélag Vestmannaeyja gerði út og er nú farið i pottinn fræga fyrir allnokkru siðan Skrifað af Þorgeir 17.12.2010 15:51Norðan þræsingur Akureyri i dagJólaveður á Akureyri i morgun © mynd þorgeir Baldursson Ekki gott ferðaveður innanbæjar © mynd þorgeir Baldursson 2010 Sveinki stendur af sér veðrið © mynd þorgeir Baldursson 2010 Svona var umhorfs eftir hádegið i dag hvöss norðan átt með miklum éljum og skafrenningi svo að varla sást útúr augum né á milli húsa Skrifað af Þorgeir 17.12.2010 11:10Arion banki styrkir MæðrasyrksnefndArion banki Styrkir Mæðrastyrksnefnd © mynd þorgeir Baldursson 2010 Styrkurinn © mynd þorgeir Baldursson 2010 Arion banki útibúið á Akureyri afhenti i morgun Mæðrastyrksnefnd gjafabréf að upphæð 500.000 það var Egill Þorsteinsson sölustjóri hjá bankanum sem að kom færandi hendi og tók Jóna Berta Jónsdóttir við gjöfinni ásamt þeim Björgu Hansen og Ingu Ellerts Skrifað af Þorgeir 16.12.2010 20:41Bræla á miðunum fyrir Austan landAftakaveður á Austfjörðum © mynd Sigurður Daviðsson 2010 Eskifjörður i dag © mynd Sigurður Daviðsson 2010 Löndunnarmaður að störfum © mynd Sigurður Daviðsson 2010 Eftirfarndi pistil sendi mér sigurður Daviðsson skipverji á Björgvin EA þegar þeir voru komnir i höfn á Eskifirði nú siðdegis i dag Brjálað veður á austfjarðarmiðum skip leita vars. Togarinn Björgvin EA 311 kom til hafnar á Eskifirði í dag en skipið var á veiðum fyrir austan land og var ekkert veiðiveður og þvi var því ákveðið að leita vars á Eskifirði.Togarinn Sigurbjörg ÓF liggur einnig við bryggju á Eskifirði.Er Björgvinsmenn voru að leggjast upp að bryggju fóru vindhviður upp í 40 m/s.Mánaberg ÓF lónar fyrir utan Eskifjörð og liggur Frosti ÞH við bryggju Á Neskaupstað. Skrifað af Þorgeir 16.12.2010 11:10Sjómenn Samherja afhenda styrkiSjómenn Samherja styrkja Mæðrastyrksnefn © mynd þorgeir Baldursson 2010 Gestur Jónsson frá Ljósberanum og Jóhannes Jónsson © mynd þorgeir Baldursson Styrkveitingar © Mynd þorgeir Baldursson 2010 Sjómenn á fimm skipum Samherja H/F Björgúlfi,Björgvin, Vilhelm þorsteins,Oddeyrinni og Snæfelli Hafa afhennt styrki til þriggja aðila alls um 1430 þúsund Mæðrastyrksnemd 930.000 Ljósberinn i Akureyrarkirkju 300.000 fjölskyldu á Akureyri 200.000 það var Jóhnnes jónsson skipverji á Vilhelm Þorsteinssyni sem að afhenti styrkina fyrir hönd áhafna skipanna Skrifað af Þorgeir 15.12.2010 22:45Sermilik 2 GR.5-4 PAAMIUTSkrifað af Þorgeir 15.12.2010 12:05Fossá til AkureyrarHafnsögubátar draga Fossá að bryggju © mynd þorgeir Baldursson 2010 Léttabátur af Ægir til aðstoðar © mynd þorgeir Baldursson 2010 Varðskipsmenn i landfestartógum © mynd þorgeir Baldursson 2010 Áhöfn Léttabáts Ægirs © mynd þorgeir Baldursson 2010 Fossá við bryggju á Akureyri i morgun © mynd þorgeir Baldursson 2010 Varðskipið Ægir kom i gærkveldi til Akureyrar með Fossá ÞH 362 sem að þörungavinnslan á Reykhólum keypti af Isfélagi Vestmanneyja á þessu ári skipinu verður breytt i flutningaparamma fyrir þang sem að unnið er þar helstu breytinga er að brúin var færð framá siðan verður örugglega einhver smærri aukaverk sem að tilheyra þessum breytingu meira siðar Skrifað af Þorgeir
|
Eldra efni
Um mig Nafn: Þorgeir BaldurssonFarsími: 8620479Tölvupóstfang: thorgeirbald62@gmail.comHeimilisfang: Reynihlið 15 D 604 HörgárbyggðStaðsetning: HörgárbyggðUm: Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist SjávarútvegiTenglar
Flettingar í dag: 649 Gestir í dag: 53 Flettingar í gær: 1587 Gestir í gær: 63 Samtals flettingar: 915074 Samtals gestir: 46151 Tölur uppfærðar: 16.10.2024 08:22:34 |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is